sunnudagur, febrúar 27, 2005

Sí nartandi og svangur

Nú er þetta allt að koma! Jón Grétar er búinn að vera hitalaus í tvo daga og ég geri ráð fyrir því að hann verði orðinn alveg (g)óður eftir tvo innidaga í viðbót. Hann er ennþá svoldið kvefaður og eftir sig en nokkuð góður að öðru leyti. Eitt af aukaverkunum af batanum er sá að hann er alltaf svangur. Þetta er eiginlega eins og hann sé óléttur... sí nartandi og kvartandi yfir hungri.
Ég fór í Naturhistoriska safnið með Sveinbjörgu á föstudag. Safnið var alveg ágætt en mér fannst eiginlega skemmtilegast að hanga aðeins með annarri stelpu. Þrátt fyrir að Jón sé alveg yndislegur og skemmtilegur og dásamlegur þá fannst mér, sérstaklega eftir tvær vikur af veikindum, voða gott að komast í smá "women only" tíma með Sveinku.
Annars erum við búin að horfa svo mikið á sjónvarp og videó á meðan veikindunum stóð að annað eins hefur nú varla gerst. Erum búin að sjá allar myndir sem hafa komið út síðasta árið. Hefðum virkilega gott að því að slökkva á sjónvarpinu í svona eins og mánuð. En mig grunar að það sé nú ekki að fara gerast...

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

...en hann er ekki dauður eða neitt sko!

Morguninn byrjaði ekkert allt of vel hjá okkur. Jón er búin að vera frekar veikur síðustu daga og við höfum alltaf verið að vona að nú færi honum að batna. Sérstaklega því það er próf hjá honum á laugardag og í dag var mikilvæg kynning, á verkefni sem hann hefur verið að vinna, hjá honum í skólanum, og hann VARÐ að mæta til að fá próftökurétt. Þegar hann vaknaði í morgun leit hann eiginlega bara verr út en hina dagana og var ennþá með hita. Mér leist ekkert á að hann færi svona í skólann, en hvað gátum við gert! Hann varð að mæta! Um níuleytið hringdi ég í heilsugæsluna og pantaði símaviðtal og það var hjúkka sem hringdi í okkur tilbaka 20 mín. seinna. (Svoldið annað þjónustustig en heilsugæslan í HFJ). Sú hjúkka talaði við Jón og sagði honum að hann færi ekkert svona í skólann og ætti bara að koma strax og tala við lækni, hún ætti einmitt lausan tíma kl:10. Við vorum bara "Vá", en hann er ekkert dauður eða neitt sko! Heima var maður vanur því að ef þú ert alveg fáránlega veikur, þá er manni sagt að sjá til í 3 daga og hringja svo aftur. Ef maður er við það að drepast, þá fær maður kannski tíma eftir 2 vikur. Við erum svo hrikalega heppinn að heilsugæslan okkar er í sömu götu og við, þannig að við pökkuðum bara Jóni vel inn og löbbuðum yfir. Læknirinn sagði eiginlega strax við Jón að hann væri líklega með strepptókokka og skammaði hann pínu fyrir að hafa ekki haft samband fyrr. Við útskýrðum fyrir henni hvernig ferlið er á Íslandi og hún dæsti og sagði að það mætti nú vera aðeins meira þannig í Svíþjóð (í röðinni í mótttökunni á undan okkur var 12 ára strákur sem vildi tala við lækni því að hann var með smá sár á vörunni sem honum sveið í!). Við sögðum henni frá því að þetta væri örugglega í 4 skiptið sem Jón hefði fengið strepptókokka og þá sagðist hún ætla reyna skoða þetta mál eitthvað betur. Þar sem að á sama tíma hef ég aldrei fengið streptókokka þá hélt hún að þetta gæti verið allt saman mér að kenna, þeas að ég væri "heilbrigði smitberinn" sem gengi um brosandi og smitaði fólk af streptókokkum en yrði aldrei veik sjálf. Ég varð nú barasta pínu móðguð við þessar fullyrðingar allar, vildi meina að ég væri bara svona hrikalega hraust og hefði bara svona gott norðlenskt ónæmiskerfi. Eníhú... læknirinn tók próf úr okkur báðum og setti Jón á einhverjar pillur. Ef hann fær streptókokka bráðum aftur þá á hann að fá einhverjar súperpillur sem drepa þær alveg úr kerfinu (hún var að hafa áhyggjur af því þar sem hann fær þetta greinlega oftar en aðrir að þetta væri bara með fasta búsetu í kerfinu hjá honum). Svo skoraði hún stig hjá mér með því að segja að ef við færum strax í apótekið og keyptum lyfin og Jón tæki þau, þá mátti hann fara og halda kynninguna en svo átti hann að fara strax heim og upp í rúm.
Nú var þetta fyrst að vera spennandi... tíminn hans Jóns var á milli kl: 10-13 og sem betur fer vissi Jón að hópurinn hans átti að vera síðastur með kynningu. Við drifum okkur heim, náðum í skóladótið og fórum upp í Kista. Ég tók ekki í mál að fara í skólann, sagði að Jón myndi sko bara villast á leiðinni upp í skóla, hann væri svo veikur og ég ætlaði með að passa hann. (Ég var svo með sting í maganum allan daginn og bömmer yfir að hafa skrópað. Þetta átti að vera frekar mikilvægur tími.) Svo skelltum við okkur upp í Kista, í apótekið, pillurnar voru étnar, og inn í skólastofu. Og ég fékk að fara með! Jibbí! Mig langaði nefnilega líka svo að sjá fyrirlesturinn hans Jóns. Stuttu eftir að við komum, var komið að hópnum hans Jóns og þeir hreinlega brilluðu. Mér fannst þeir vera með langáhugaverðasta og flottasta verkefnið, enda kommentaði kennarinn sérstaklega á það eftir tímann. Það var mjög kúl efni, það er samt betra að Jón útskýri það fyrir ykkur við tækifæri. Jón stóð sig bara vel, talaði skýrt og fór vel með kynninguna þó að hann væri hálf aumingjalegur útlits, með trefill, sokkin augu, rauðan nebba og snýtubréf í annarri og hálstöflur í hinni. Ef ég á að segja alveg eins og er... fannst mér hann eiginlega bestur í bekknum... en ég er kannski ekki alveg hlutlaus dómari. Ég held samt að ég hafi rétt fyrir mér (... ég held það nú hvort eð er alltaf).
Þegar þetta mál var afgreitt fékk ég frekar mikinn hnút í magann út af skólanum mínum. Ég dreif mig svo upp í skóla því að ég átti fund með hópnum mínum og Bösse kennara út af lazer-lyklaborðs-verkefninu mínu. Ég afsakaði mig við Bösse og hann sagði að þetta væri allt í lagi, spurði bara hvernig Jón hefði það og varaði mig við að það væri eitthvað ógeð að ganga. Sonur hans (17 ára) hefði verið veikur í næstum því mánuð.... ojbara! Svo komu krakkarnir og við fórum yfir verkefnið. Og haldið þið ekki að hann hafi bara verið svona rosalega ánægður með það, frábært strúktur, vel skipulagt, mjög skynsamlega unnið og blablabala. Hann var með engar athugasemdir og það eina sem hann skrifaði voru bara hans hugleiðingar um vöruna og verkefnið. Eina sem hann sagði okkur var að við þyrftum ekki að vera svona rosalega strúktúreruð næst, það gæti leitt til of mikillar "tunnel-vision" eins og hann kallaði það. Við útskýrðum þá fyrir honum að vinnan hjá okkur sem slík hefði ekki verið rosalega strúktúreruð, en þar sem að varann var þannig að það var svo auðvelt að gleyma sér í einhverjum pælingum út um allan geim að þá ákváðum við að vera mjög strúktúreruð í skýrslunni.
Eftir viðtalið spurði ég krakkana hvað hafði verið í gangi um morguninn í tímanum og þá sögðu þau mér að þetta hefði ekki verið neitt svo mikilvægt. Bara gaur að tala um lokaverkefnið sitt, eitthvað sem mátti svo sem alveg missa sín. OMG, hvað mér létti! Tíminn sem er svona mikilvægur er þá bara á morgun, ég heppin mar!
Svo var ég bara alveg búin þegar ég kom heim, lagðist bara í sófan og sofnaði. Já og var svo hrikalega löt í kvöldmatnum að Jón fékk bara Billy's pizzu og franskar, veslingurinn! Svona er nú illa hugsað um hann þegar hann er veikur greyið... já og svo er hann bara að vaska upp núna. Jiii... ég verð nú að fara taka mig á. Annars eldaði ég gott fyrir hann í gær og bakaði líka köku þannig að ég á kannski smá bónusstig inni.
Bæjós, farin að hugsa vel um greyið mitt!

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Prófið búið og stærsta systir er orðin 35 ára!

Þá er fyrsta prófið búið. Ég sendi það til kennarans fyrir akkúrat 15 sekúndum. Ég er búin að sitja við tölvuna frá kl 10 í morgun og er orðin hálf ringluð í hausnum. 14 tíma próf er nú bara met hjá mér verð ég nú að segja!
Jón Grétar er búin að vera alveg brillíant í að hjálpa mér og það er bara búið að vera stjan síðan í morgun. Hef ekki þurft að lyfta fingri... fyrir utan það sem ég pikka á tölvuna. Meira segja þegar ég ætlaði alveg að fara yfir um á einni spurningunni þá settist hann niður með mér og las með mér í gegnum eitt heftið svona til þess að skerpa á skilningnum. Þetta var samt frekar flókið, þó að við læsum stundum bæði textann þá skildum við ekki alveg hvað höfundurinn var að fara. En eftir nokkrar heimspekilegar umræður þá komumst við að niðurstöðu og ég settist niður og hélt áfram með ritgerðina. Það er munur að eiga svona kláran kall!
Núna kl: 23 tók svo Sveinbjörg við og fór yfir málfar hjá mér. Alveg er hún brilli, stelpan! Algjör snilld að fá svona aðstoð, sérstaklega þegar maður er orðin svo ringlaður og aumur í augnum að maður er alveg hættur að sjá allar villur. Enda voru sumar villurnar mjög heimskulegar hjá mér, frekar heppin að fá málfræði aðstoð.

Annars er Nonninn minn bara að verða veikur aftur. Já, hann hitt víst veikan skota sem smitaði hann af einhverju öðru ógeði en því sem Jón var með í síðustu viku. Ég sem hélt að skotar væru alltaf svo hraustir. Hann hefur kannski reynt að ganga í pilsi hérna í snjónum, mar veit aldrei!

Nú ætla ég að fara sofa í hausinn á mér, eins og mamma kallar það! Góða nótt!

P.s. núna er Rósa systir formlega orðin 35 ára eða fyrir 15 mínútum að sænskum tíma. Hún verður hinsvegar 34 ára í 45 mínútur í viðbót á Íslandi. Til hamingju með afmælið, elsku stærsta systir!

laugardagur, febrúar 19, 2005

Þetta fer nú bara að vera of létt!

Ég er alveg heilluð af þessu statistik forriti sem Gummi sýndi mér. Það eru greinilega miklu fleiri sem er að lesa þetta blogg en við bjuggumst við. Já, og hér með fer sérstök kveðja til Hjalta í Vesturheimi.
Þar sem ég er byrjuð að setja inn linka á vini, vinnufélaga og ættingja hérna í linkasafninu þá vil ég biðja þá sem eru með blogg, og eru ekki komin með tengil á sig, um að senda okkur póst svo við getum bætt úr því.
Annars fór gærkvöldið bara alveg óvart í smá djamm. Við fórum í heimsókn til Kidda því þar átti að vera smá partí í húsinu. Við vorum að endurgjalda honum greiðan síðan hann kom til okkar og hélt í hendina á okkur þegar partíið var hér. Svo bara bættist hitt og þetta fólk í hópinn, meira segja Grjóni sem stoppaði í Stokkhólm á leið sinni til St. Pétursborg þar sem hann er að fara læra rússnesku. Þannig að það var orðið frekar þröngt í íbúðinni hjá Kidda og mikið af bjórdósum í íbúðinni. Þarna undir endann heyrðist meira segja úr einu horninu "Aaadúmmadadúmmadadúmmada...Aaað innan ég mála með polýtex, pólýtex er efnið sem aldrei bregst. Að utan ég mála með útitex, pólýtex innaná, útitex utaná. Texið er efnið sem segir sex... sem segir sex!!!"
Já, þetta var bara nokkuð skemmtilegt. Annars get ég nefnt það í framhjáhlaupi að enn og aftur burstaði ég strákana í Munchkin, reyndar í Star Munchkin að þessu sinni.
Strákar! Þið verðið verulega að fara taka ykkur á, þetta fer bara að verða of létt!

Annars heldur próflesturinn áfram, frekar hægt, en þetta miðast. Ég á svo erfitt með að finna "motivation" þegar ég veit að ég fæ bara staðist fyrir áfangann. Ég hef alltaf ákveðið fyrir próf "í þessu prófi ætla ég að fá þessa einkunn" og svo hef ég bara unnið þangað til ég veit að ég fæ þá einkunn sem ég vildi, hvort sem það var 8, 9 eða 10. Þetta kerfi hefur þrælvirkað þangað til núna. Núna veit ég eiginlega ekkert hvað ég á að gera! Ekki vill ég taka algjört óverkill á þetta og tryggja að ég sé með besta prófið, það er bara sóun á orku og tíma því mar fær ekkert kredit fyrir það. Ef einhver er með góða hugmynd þá megið þið skella henni á mig!

föstudagur, febrúar 18, 2005

Gulur, grænn og appelsínugulur

Jæja, nú á ég að vera læra undir próf en hreinlega reyni að gera allt annað. Eins og venjulega þegar er komið að prófum. Nú t.d. finnst mér rosa góða hugmynd að skrifa aðeins á bloggið okkar.
Í gær fórum við í heimsókn til Kidda upp í Kista og fengum okkur indverskan. Ég fékk svo að koma við í Karamell Kungen í Coop og kaupa mér nammi því ég var á leið í próflestur. Ég skellti mér í slaginn með skeið í annarri og poka í hinni og strákarnir biðu þolinmóðir hjá. Eftir þónokkra stund heyrðist í Kidda "Bíddu, hvað er hún eiginlega að gera?" Jón: " Ég trúi þessu ekki, hún er að sortera eftir litum!!!" Jebb.... algjör snilld, mér fannst ég vera svo sniðug. Haldið að ég hafi ekki fundið stóran dall með Starburst Jellybeans og þarna gat ég dúllað mér við að veiða upp alla góðu litina og skilið þessa vondu eftir. Sæl og ánægð skoppaði ég á kassann með pokann fullan af gulum, grænum og appelsínugulum jellybeans. Ég er ennþá í góðu skapi yfir þessu!

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

...vantaði bara límið

Það er helst að frétta að Jóni er að skána. Hann getur nokkurn veginn andað með báðum nösum í einu núna, en með erfileikum þó.
Kynningin á verkefninu okkar í morgun gekk ágætlega. Mér finnst samt standardinn á kynningum ekki vera neitt rosalega hár enda voru kennararnir mun harðari við okkur í THÍ en hér. Hér eru öll dýrin í skóginum vinir og það þarf að passa að særa ekki tilfinningar neins. Ef ég fengi að kommenta á sum verkefnin hjá fólki þá færi það sjálfsagt grenjandi heim... nei, ég segi bara svona. Þetta var alveg ágætt hjá fólkinu, ég er bara eitthvað aðeins pirruð meðan ég er að skrifa þetta. Þið kannist við ýkjurnar hjá mér.
Annars erum við komin með teljara á síðuna okkar og þar sem að ég hélt að enginn læsi þetta blogg þá kom mér mikið á óvart að það hafa 10 manns skoðað hana síðan kl: 16:40 í dag. Nokkuð gott finnst mér! Þar af eru 4 frá íslandi (allt mismunandi aðilar), einn frá Danmörk (ég giska á Guðrúnu Þóru), og 4 frá Svíþjóð (ég giska á sjálfa mig og svo einhver annar).

Svo er ég bara komin í upplestrarfrí (24 tíma próf á mánudag) og notaði því daginn í að kaupa lím til að ljúka við klippimyndalistaverkið í eldhúsinu, ja eða á eldhúsvegginn. Ég fékk eitthvað voða fínt lím í Panduro. Var sko búin að klippa allt út, vantaði bara límið. Jæja, svo byrjaði ég, fór að líma laufblöðin við greinarnar, en ekkert gerðist. Þetta toldi bara ekkert saman. Ég þurrkaði pínulítið af líminu af með puttanum því mér fannst það vera hálf mikið og ætlaði að klína því í pappakassa sem ég var með við hliðina á mér. Nema hvað... um leið og ég snerti kassann, þá pikkfestist puttinn, ómg hvað það var vont! Sérstaklega þegar kassinn hristist þegar ég emjaði úr hlátri á sama tíma. Nú voru góð ráð dýr, daman staulaðist flissandi fram á klósett haldandi á kassanum með hægri og föst við hann með vinstri. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bera mig að því ég gat ekki sleppt kassanum því hann reif svo í húðina á puttanum. Einhvern veginn tókst mér að príla upp á klóstið með kassann, ná í naglalakkaeyðinn. Svo skrúfaði ég frá tappanum með tönnunum og sullaði aðeins yfir lokið á kassanum. Sem betur fer losnaði puttinn strax úr prísundinni við það. Það fyrsta sem ég gerði var að loka líminu, forever! Myndi líma það fast ef ég gæti. Svo festi ég allt listaverkið saman, já og upp á vegg... með kennaratyggjói!

Hannaði "framtíðarvöruna"

Flensan er komin í heimsókn. Jón er orðinn fullur af kvefi og það er byrjað að gutla í eyrunum á greyinu. Í dag er þriðji dagurinn hans í þessu ástandi og ég að hann fari að hressast. Við komumst ekki í Salsa tíma á þriðjudaginn og verðum bara að vera dugleg að æfa okkur heima í staðinn. Annars bakaði ég tvær kökur á mánudaginn og hafa þær komið sér mjög vel þegar flensan er í heimsókn.
Ég er búin að vera vinna að verkefni í skólanum undanfarna þrjár vikur og við skiluðum því inn í gær. Svo á morgun eigum við að kynna það. Við áttum að velja vöruflokk og hanna út frá honum "framtíðarvöruna". Við völdum lyklaborð því að í gegnum alla þessa hröðu og miklu þróun á tölvubúnaði hafa lyklaborð sama og ekkert breyst. Við hönnuðum lyklaborð sem er sérstaklega hannað til að geta verið í stofunni við Media Center. Við komumst að því eftir markaðsrannsókn að það hefur enginn spáð í því hvað á að gera við lyklaborðin sem fylgja þessu drasli öllu. Frekar fúlt að þurfa geyma lyklaborða-hlunkinn á sófaborðinu. Þannig að okkar pæling var að gera lyklaborð út frá lazerlyklaborðinu (sjálfsagt margir sem hafa heyrt af þessari tækni) sem er til. Þetta er s.s. lítur standur sem varpar lazer lyklaborði á borðið fyrir framan þig og svo eru hreyfiskynjarar sem skynja á hvaða takka þú ert að ýta á. Eníhú... þetta virkar alla veganna sem alveg heví kúlt í verkefninu og við hljótum að fá góða einkunn. Eða það vona ég alla veganna!
Svo er próf hjá mér á mánudaginn og hjá Jóni á laugardeginum eftir viku.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Glugginn hans Jóns og "strákursemeignaðistkærustu"

Mér hefur alltaf þótt pínu erfitt að skilgreina íbúðina okkar því hún er eiginlega ekki beint fjölskylduíbúð. Á laugardagskvöldið byrjaði umræða um skipulagninguna á íbúðunum hjá SSSB og mér fannst við komast að nokkuð góðri niðurstöðu þar. Sveinbjörg og Gummi búa í fjölskylduíbúð með eldhúsi, stofu og geymslu, já og Ernir og Bönga líka því þeirra íbúð er nákvæmlega eins og S&G íbúð. Strákarnir búa í single íbúð með sameiginlegu eldhúsi og við Jón búum í svona "strákursemeignaðistkærustu"-íbúð. Það skilja held ég allir þessa útskýringu sem hafa komið hingað. Ég er samt voða skotin í íbúðinni okkar og ætla núna að fara hengja upp gardínur fyrir gluggann hans Jóns (meðan kakan er í ofninum).

P.s. þetta er glugginn hans Jóns því skrifborðið hans er fyrir framan hann.
P.p.s. ég er líka búin að eignast skrifborð (Ikea ferðin á lau.) :D
P.p.p.s. Núna getur öll fjölskyldan (bæði ég og Jón) sitið við skrifborð og lært.
P.p.p.p.s. Samt er slegist um ferðatölvuna svo hægt sé að sitja í sófanum með fæturnar upp á borði meðan imbinn blastar sænskum raunveruleikaþáttum!

...smá matarlit í tilefni dagsins

Ég var að koma heim úr skólanum og það er ennþá fiskilykt í íbúðinni okkar eftir allan harðfiskinn á laugardagskvöldið. Ég er búin að opna út og er að spá í að baka köku til að fá betri lykt í húsið. Svo er líka Valentínusardagur og ég veit ekki um neitt sem gleður Nonna minna meira en nýbökuð kaka þegar hann kemur þreyttur heim úr skólanum. Spurning um að taka þetta ala Guðrún Þóra mágkona og hella smá rauðum matarlit út kremið, svona í tilefni dagsins...

sunnudagur, febrúar 13, 2005

...ryksuga harðfiskinn

Þetta var afkastamikil helgi. Á laugardaginn var farið með Gumma og Sveinbjörgu í IKEA þar sem var keyptur fjórði eldhússtóllinn (tengdó er að koma í heimsókn og við vildum geta boðið þeim sæti) og ýmislegt fleira, svo fórum við heim með pakkafullan steisjón bílinn. Við litum út eins og 5 manna fjölskylda á leið heim úr Verslunarhelgarferðalaginu. Svo fórum við í Willy's sem er svona bónusbúð og gerðum þvílík kjarakaup.
Á meðan sat Jón heima og var voða duglegur að læra. Jaaa... svo var hann voða duglegur að setja saman hluti úr Ikea meðan við hin fórum að versla í matinn.
Svo var haldið afar þjóðlegt Þorra/Júró-blót. Þjóðleg í þeim skilningi að þarna var mjög þjóðlegur matur, samt meira svona alþjóðlegur... en þjóðlegur í hverju landi fyrir sig. Það var , t.d. mexikanskur enchiladas, þýskur jagermeister, sænskur bjór og íslenskur harðfiskur á boðstólum.

Þegar við vöknuðum í morgun til að fara ryksuga allan harðfiskinn af gólfinu þá var þvílík snjókoma úti og allur glugginn hvítur af snjó. Furðulegt... á föstudaginn var svo mikil sól og fallegt veður að ég hélt að það færi bara að koma sumar. Týpískt...

Annars er íbúðin okkar öll að verða hreiðurlegri með hverri Ikea ferðinni. Næstum komnar gardínur fyrir alla gluggana, nokkrar myndir á veggina, ein planta og skógrind. Við erum bara voðalega ánægð í litlu íbúðinni okkar á Emmylundsveg. Er hægt að biðja um mikið meira?

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Júró-blót!

Við skelltum okkur á Onsdagspub í gær. Kiddi hafði samband við okkur og notaði trikkið "en það eru allir að fara!". Síðan hringdi hann í alla hina og notaði sama trikk á þá. Þetta viðurkenndi hann svo stoltur í lestinni á leiðinni á pöbbinn. Annars dró hann Möddu, gömul bekkjarsystir hans úr Kvennó, með sér. Það var frekar fyndið því að Madda var líka besta vinkona hennar Guðrúnar, litlu systur hans Jóns Grétars. Þannig að þau þekkjast svoldið, já og við tvær líka því að hún vann heima í sumar hjá Halló Norðurlönd þar sem ég notaði þjónustu hennar óspart. Hún ætlaði að draga mig og Heiðrúnu á Jujitsu æfingu í kvöld (það sem maður samþykkir eftir nokkra bjóra!!!) en það datt svo uppfyrir því að hún átti að fá nýju tölvuna sína senda heim í kvöld.

Annars er planið að fara ekki á íslendinga þorrablót sem verður haldið hérna í Stokkhólm á laugardagskvöldið, heldur halda sitt eigið Júró-blót þar sem fyrsta undankeppnin af milljón fyrir júróvisíjón verður einmitt á laugardagskvöldið. Við eigum harðfisk og Egils appelsín og finnst við vera alveg fær í allan sjó að halda júró-blót. Ég luma meira segja kannski á smá N&S súkkulaði og appolló, lofa samt ekki að það verði ennþá til á laugardagskvöldið.... þið þekkið mig :)

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Einn, tveir, þrír, einn, tveir, þrír...

Við tókum stórt skref í dag. Ja reyndar tókum við mjög mörg stór skref, sem áttu að vera aðeins minni og hefðu mátt vera liprari. Það var s.s. fyrsti tíminn í salsa í kvöld. Við skemmtum okkur bara alveg konunglega og það ótrúlega var að það voru fjórum fleiri strákar en stelpur í tímanum. Frekar óvenjulegt! Þetta voru allir byrjendur eins og við og ég held að það hafi komið öllum jafnmikið á óvart hversu erfitt er að telja upp á þremur þegar maður þarf að hlusta á tónlistina, stíga sporin, elta partnerinn eða stýra honum og passa að stíga ekki á neinar tær. "Einn, tveir, þrír, einn, tveir, þrír..."

Ég efast um að við förum að sýna einhverja takta á dansgólfinu í bráð en ég held það muni ekki taka okkur nema rétt um tíu ár að verða sýningarhæf. En það sem mikilvægast er að okkur fannst þetta rosalega gaman og er strax farið að hlakka til fyrir næsta tíma.

Fyrir utan eitt... þegar við fórum í tímann þá gengum við framhjá rottu sem var eitthvað að spóka sig nálægt íþróttahúsinu, frekar stór og pattaraleg. Hún starði beint í augun á okkur og ég get svo svarið fyrir það að hún gaf okkur fingurinn áður en hún hljóp í burtu. Greinilega "borgar-rotta" Má ég þá frekar biðja um sæta "Solna-kanínu"!

Góða nótt! Einn, tveir, þrír, einn, tveir, þrír...


mánudagur, febrúar 07, 2005

En þær staflast mjög vel!

Við sáum nýja nágranna á föstudagskvöldið þegar við komum frá innflutningspartíinu hjá Erni og Böngu. Við vorum samfó Sigurgeir og efnafræðifrúnni hans heim (þau eiga heima í blokk á móti) og vorum rétt búin að kveðja þau þegar tvær kanínur skoppuðu yfir gangstéttina. Þær voru svo hrikalega sætar, manni langaði bara hreinlega að taka þær inn til sín. Ég hef reyndar séð kanínur á ferðinni áður en þetta var í fyrsta skipti sem Jón sá þær með mér. Þær eru s.s. á ferðinni hérna fyrir utan á nóttinni. Ekki amalegir nágrannar finnst mér! Koma mér alla veganna alltaf í gott skap þegar ég rekst á þær. Ég spurði í skólanum í dag hvort þetta væri bara algengt, að fólk hefði kanínur í garðinum hjá sér, og þá var mér sagt að það væri bara kanínur á Kungsholmanum og aðeins í Solna. Við heppin! :)

Annars gekk bollubaksturinn frekar illa í gær. Þær vildu bara ekkert lyfta sér hjá mér. Jón kætti mig með því að benda mér á að þær stöfluðust mun betur en þessar venjulegu. Svo settum við bara tvær og tvær saman og átum þær þannig með bestu lyst. Svo tók Jón að sér bollubaksturinn í dag og eins og alla hina bolludaganna, þá gerir hann þetta með snilldarbrag og bollurnar verða að bollum. Get ekki beðið eftir að fá að smakka!

P.s. Frábært að heyra frá þér Svala og Ólöf! Og Svala ef þú nærð að fara niður fyrir 8 í næstu mælingu þá sendi ég þér pakka heim. Ég lofa!

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Gefur orðunum "eitursterkt kaffi" alveg nýja merkingu

Nú er komið að degi nr 3 í heilsuátakinu mínu. Ég veit ekki hversu hollt það er að vera í svona átaki því að ég vaknaði frekar slöpp með risafrunsu á vörinni og með dúndrandi hausverk. Ákvað að vera bara heima í dag, en þar sem ég fékk smá móral yfir því þá moppaði ég gólfið, þvoði 3 þvottavélar og bakaði eina köku, allt fyrir hádegi! Svo gerði ég ekkert eftir hádegi, át bara verkjalyf og horfði á CSI og því miður minnkaði hausverkurinn ekkert. Ég vil kenna lélegri námsaðstöðu í skólanum um þennan hausverk. Í hópavinnunni getum við valið um sófaborð til að læra á, eða borð úr stáli með tveimur stálbekkum með, og þeir eru bæði mjög óþægilegir og kaldir.

Það gæti líka verið að ég sé með hausverk því ég hætti að drekka kók, já og kaffi. Ég var aðeins byrjuð að sötra kaffi í skólanum. Hafði nú ekki hugsað mér að hætta því neitt í heilsuátakinu, nema hvað, á degi tvö í heilsuátakinu (s.s. í gær) kom frétt í blaðinu að það hefði einhver bilaður efnafræðinemandinn (einn búin að anda aðeins of miklu að sér) sett eitur út í einn kaffisjálfsalann upp í Stokkhólmsháskóla og 15 veiktust. Mér fannst þetta gefa orðunum "eitursterkt kaffi" alveg nýja merkingu. Þetta var sem betur fer ekki þar sem ég er núna, heldur nálægt þar sem ég var að læra sænsku á síðustu önn. Þannig að mín ákvað að það væri nú betra að hætta að drekka kaffi líka, svona áður en einhver annar efnafræðinemandi missir tilraunina sína út í kaffið.

Annars fengum við okkur inneign á skypeout um helgina. Algjört brill só far. Ef einhver hefur heyrt eitthvað slæmt, endilega látið mig vita því þetta er svoldið too good to be true!