þriðjudagur, október 31, 2006

... en þú mátt kalla mig magister Elísabet

Ég kom heim í gær frá Stokkhólmi eftir alveg dásamlega helgarferð með pa og ma. Það var líka æðislegt að fá að hitta Jón og eyða smá tíma í hreiðrinu okkar. Við höfðum það alveg ferlega gott, átum góðan mat og áttum góðar stundir. Pa og ma fengu íbúðina hjá henni Huldu og ég og Jón kúrðum saman í okkar íbúð. Aðaltilgangur ferðarinn var þó sá að útskrifast og gerðist það á föstudaginn. Það var alveg frábært, bæði flott athöfn og ferlega skemmtileg matarveisla á eftir. Þegar fólk er komið upp á stóla í partíum þá flokkast það sem nokkuð hresst á mínum mælikvarða (þó að stóla-standeríið sé einungis vegna undarlegra söngsiða sænskra stúdenta).

Í ferðinni tókst mér síðan að afgreiða flest allar jólagjafirnar, ekkert smá næs. Það var samt ferlega leiðinlegt að kveðja Jón, þó að mar ætti að vera komin í æfingu. En maður verður bara að horfa á björtu hliðarnar og hugsa með sér að það er lúxusvandamál að hafa einhvern til að sakna, sérstaklega þegar maður veit að við hittumst bráðum aftur.

miðvikudagur, október 25, 2006

Beta og pólítíkin

Nú kemur hún Elísabet og foreldrar hennar til Stokkhólmar á morgun. Við ætlum að fara svo út að borða annað kvöld og skoða borgina. Tengdapabbi hefur reyndar komið nokkrum sinnum áður í heimsókn, en tengdamamma er að koma í annað sinn síðan við fluttum út. Síðast þegar foreldrar Elísabetar komu hingað í heimsókn, þá bjuggum við í elliheimili/stúdentaíbúð á Tyska Bottens Väg í Nockeby. Það er nú orðið asni langt síðan það var, þannig að það verður örugglega gaman að skoða borgina.

Annars er maður búinn að vera mikið að fylgjast með atburðum síðastliðinna daga á Íslandi, aðallega með því að lesa fréttir á þeim arfaslöku vefsíðum visi.is og mbl.is. Það er alveg magnað hversu einfaldir þessir fréttamenn eru, vinnubrögðin eru svipað öflug og viðgengust í skólablaðinu sem kom einusinni út þegar ég var tíuára. Eini munurinn, stafsetning og málfræði innifalið, var sá að það blað var ljósritað á kennarastofunni en ekki netlæg fréttaveita. Annars er hægt að gefa út heila bók um bresti þessara rita, en ég held að flestir sem lesa þetta viti nákvæmlega um hvað ég er að tala. Sennilega er þetta afleiðing skorts á mannafli, þó væri skemmtilegra ef þeir gerðu bara copy-paste beint frá ap fréttastofunni, þá væru staðreyndirnar allavega réttar.

Ég vil ég aðeins impra á íslenskum pólitíkusum. Ég les oft pistla eftir hinn og þennann á netinu og á stundum ekki orð yfir því hversu miklir amatörar þeir eru. Skiptir þar engu máli hvaða flokk viðkomandi stjórnmálamaður er, mér sýnist jafn stórt hlutfall af amatörum í öllum flokkum. Besta leiðin til að þekkja amatör í stjórnmálum er að sjá að um leið og einhver finnur eithvað að honum, þá reynir hann að drepa málinu á dreif með því að andskotast út í pólitíska andstæðinga sína, og svo kunna pólítíkusar ekkert í rökfræði, það að hinn sé ekki að standa sig er engin ástæða fyrir því að þú standir þig eithvað betur, afleiðing verður að fylgja orsökum annars er röksemdarfærslan bara froða. Gott dæmi eru nýuppgötvuð símhlerunarmál kaldastríðsins þar sem stærsta issuið er orðið hvort að þeir sem símarnir voru hleraðir á hafi fylgst með öðrum aðilum. Hvað á það að þýða, er það eithvað minni glæpur að fremja glæp á glæpamanni...

Jæja.. hættur í bili, ætli ég sé ekki bara eithvað pirraður því það er ekkert í imbannum og ég er búinn að vera með einhverja flensu í viku. Verð hressari í næsta bloggi.

mánudagur, október 23, 2006

The greatest band of all times ... with a movie

laugardagur, október 21, 2006

Rosalega er ég slappur að blogga

Jæja gott fólk, það er orðið nokkuð langt síðan ég bloggaði síðast. Elísabet bloggar venjulega og eins og tryggir lesendur hafa tekið eftir þá er ég latari en allt latt við að blogga. En nú ætla ég að spreyta mig á stuttum pistli sem lýsir því nokkurn vegin hvað dregið hefur á daga mína í Stokkhólmi.

Ég fór á fimmtudaginn síðasta til Madríd að hitta dygga starfsmenn CCP. Það var þó einn starfsmaður sem ég hafði langt um meiri áhuga á að hitta en hina, (sorrý Kiddi, ekkert persónulegt) og það er hún Elísabet. Enda hittumst við ekki á hverjum degi þessa dagana. Það var svo hörku mikið stuð í Madríd og mikið djammað, enda margir CCP starfsmenn mjög sprækir, og minnti stemmingin mig óneitanlega á vísindaferðirnar í H.Í. Ég var þó alveg búinn að gleyma því hvernig spænska menningin er, og kom sú upprifjun skemmtilega að óvart.

Í dag er Elísabet á ferðinni í Þýskalandi að markaðsetja nýtt spil sem CCP er að gefa út, og ég sit heimavið með smá kvefpest sem ég fékk í Madrid og vinn í lokaverkefni nr. 2. Verkefnið gengur vel og fer kvefpestin vonandi að rjúka úr mér bara hvað úr hverju.

Næst á dagskrá er svo útskrift hennar Elísabetar úr Markaðsakademíunni en hún á sér stað í lok næstu viku. Þá er ég að tala um hátíðarkvöldverð og ræðuhöld og annað fínerí. Allavega, ég vona að ég hafi dug í að blogga eithvað á næstunni og þakka ég áheyrnina að þessu sinni.