miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Lakkrístoppar Betu

Við bökuðum aftur smákökur í gær. En þar sem við réðum ekki við græðgina þegar við fengum hráefnið sent og átum helmingin af því (en vandræðalegt að viðurkenna það!) þá urðum við að finna eitthvað í staðinn. Þar sem að Lionbar hafði heppnast vel í hina uppskrift þá skelltum við 2 stk af Lionbar út í deigið. Og vitið hvað, þetta heppnaðist svona hrikalega vel. Ég er alveg í vandræðum með að troða þeim ekki bara öllum upp í mig í einu. Hér er uppskriftin ef einhver vill.

Lakkrístoppar, Betu útgáfa...

3 eggjahvítur
200 gr. púðursykur
100 gr. rjómasúkkulaði
1 poki súkkalaðihúðað lakkrískurl
2 stk Lion Bar

Stífþeyta eggjahvítur og bæta sykri úti og þeyta áfram þar til sykur er alveg horfin.

Bæta þá söxuðu súkkulaði, söxuðu LionBar + lakkrískurli útí (hræra með sleif). Set með teskeið á plötu með bökunarpappír og bakað við 175 gráður í c.a 12-14 mín

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Let it snow, let it snow, let it snow!

Við fórum út í göngutúr í góða veðrinu hérna. Það snjóaði í fyrsta sinn af einhverju viti í vetur og þessvegna ákváðum við að taka okkur pásu og kíkja niður að vatni.





Það á svo að halda áfram að snjóa á morgun og kanski tökum við fleiri myndir seinna :)

Winter wonderland



Það byrjaði loksins að snjóa! Jibbííí!!!

mánudagur, nóvember 28, 2005

...sjúga spilið fast

Kolla hefur verið síðustu dagana að útskýra skemmtilega frasa og orð á sænsku. Hún fyllti mig að innblæstri og ég mundi eftir einu sænsku "orði" sem mér finnst algjört brill. Maður setur varirnar í stút, og blæs svo hratt inn. Þetta er mjög svipað eins og í gamla partíleiknum þar sem maður reynir að halda spili á vörunum með því að sjúga því að sér. Þegar maður gerir þetta þá er maður víst að samþykkja það sem er sagt við mann. Nokkurs konar íslenskt "ahamm!". Þetta hljóð er ættað frá Norður-Svíþjóð, en þar er víst lagður mikill metnaður í að segja jafn lítið og mögulegt er.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Nonni listamaður

... ef ég nenni!

"...lalala, ef ég nenni" fer að verða það algengasta sem kemur út úr mínum munni þessa dagana. Er ég alveg að sleppa mér í framtaksleysinu og letinni??? Nei, ég kolféll í jólaskapið og syng nú þessi undarlegu íslensku jólalög með ennþá undarlegri textum.
Annars ruku smákökurnar okkar út og komin tími á næstu umferð. Síðan var Randalínan bökuð í gær og þá fyrst kom alvöru jólalykt í íbúðina. Við fengum reyndar"alvörru" Randalínu senda í póstinum í dag, þannig að hana ætti ekki að skorta á aðventunni.
Raggi og Heiðrún kíktu til okkar í gærkvöldi og spiluðum við Scrabble saman, langt fram á nótt. Það hjálpaði nú ekki jólaskapinu hjá mér, ég varð gjörsamlega hjálparlaus í þessum heljarpytt sem jólafílingurinn getur orðið. Sitjandi við birtuna af jólaseríunum, lyktin af Randalínunni í loftinu og spila saman fram á nótt... hvað segir meira "Jól" en akkúrat svona stemming.
Annars erum við að hamast við að skrifa ritgerðir þessa dagana. Við sitjum við skrifborðin okkar bak í bak og pikkum í takt. Svo er öðruhvoru snúið sér við, pikkað í öxlina á lærifélaganum og spurt "kaffihlé?" eða "hjálp?". Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá grunar mig að fyrra "pikkið" sé bæði vinsælla og algengara hjá okkur báðum.
Gleðilega aðventu!

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Allt er gott sem...

Þetta var frekar leiðinlegur dagur. Fór í skólann í morgun í hópa-tímann minn þar sem hópurinn sat saman í hring og átti að diskuter tilfinningar sínar. Umræðurnar fóru fljótt út í afhverju fólk vill ekki segja frá tilfinningum sínum heldur fer í kringum þær eða ræðir í staðinn um efnið "að segja frá tilfinningum sínum". Sem mér fannst svoldið fyndið því að þá talaði fólkið í kringum tilfinningar sínar með því að tala um það "að tala um tilfinningar sínar". Eníhú... frekar boring... lá við að ég sofnaði. Beið alltaf að hetjan mín Mr. T myndi saka einhvern um rasisma og sprengja þannig allt í loft upp. Ég segi ykkur kannski betur frá því seinna.
Eftir tímann lá leið mín niður á Kungliga Biblioteket þar sem ég hafði tekið frá bók um samtöl kvenna og karla í hópastarfi (einmitt, ýkt áhugavert eða þannig). Nema hvað, þegar ég var þangað komin, búin að ná mér í skáp og troða í hann öllu mínu hafurtaski og setja það sem ég ætlaði með inn í glæran plastpoka (skemmtilegar svona sænskar umgengnisreglur, finnst ykkur ekki?) þá komst ég að því að ég mátti ekki fá bókina lánaða til að lesa í henni í 2 tíma. Ástæðan... jú ég var hvorki með sænskan passa né sænsk skilríki! Önnur skilríki eru ekki gild þarna, því miður, takk og bless!
Það skipti engu að ég suðaði í þeim og benti á að þessa bók væri ekki hægt að nálgast annars staðar og að ég væri með íslensk skilríki sem þau gætu borið saman við sænsku kennitöluna og séð að ég var virkilega þessi Elísabet Grétarsdóttir sem ég þóttist vera. Neibb, og aftur neibb...takk, takk og bless! Sænsku pappírstígrisdýrin leynast víst víða!
Nema hvað, ég varð því að labba niður í bæ og fara í bókabúð til að redda mér einhverju til að lesa fyrir ritgerðina mína. Og þar sem það rigndi líka á mig, þá var ég orðin verulega pirruð! Ég hef nóg að gera og það er óþolandi þegar dagarnir fara svona í ekki neitt.
Nema hvað, þegar ég kom heim pirruð og úrill, þá ákvað ég að kíkja í pósthólfið. Haldið að þar hafi ekki bara legið umslag frá H&M. Jei! Það er alltaf gaman að fá póst frá H&M því þeir senda manni oft afslætti eða inneing upp á 50 til 100 sek. Og merkilegt nokk, þá virðast þeir vera ótrúlega lunknir við að senda mér svona á þeim dögum sem virkilega þarf að koma mér í gott skap. Nema núna opnaði ég umslagið um leið og ég steig inn í lyftuna og sá slatta af auglýsingum um jólatilboð (vei, vei!)... og enginn ávísun á inneign! Böhöhöhööö... þegar ég náði samt að leggja frá mér draslið inn í íbúð þá sá ég að þarna í bunkanum var bréf til mín. Og getið hvað!!! Mín er víst einn af þeirra bestu viðskiptavinum og orðin Gullmeðlimur í H&M klúbbnum og hvað fá slíkir viðskiptavinir??? Þeir fá hvorki meira né minna en 1000 sek í inneign í H&M!!! VEIIIII!!!! Ég held að H&M hafi komið mér í gott skap fram að jólum!!!

mánudagur, nóvember 21, 2005

Smákökur

Haldiði að við höfum ekki tekið okkur hlé frá amstrinu til að baka smákökur. Aldeilis fínt, Lionbar smákökur, ekki verra að setja súkkulaðistykki saman við smákökur :) Við ætlum að setjast fyrir framan Scrubs núna og slappa af og undirbúa okkur undir komandi törn, það lítur út fyrir að við höfum nóg að gera fram að jólum. Ég hélt að þetta væri bara smooth sailing framundan en þá uppgötvaði ég að ég hafði gleymt að taka nokkur verkefni með í reikninginn. Ekkert alvarlegt þó...

Ég var áheyrandi í vörn hjá strák frá Jórdaníu í dag, hann var víst að fá starf sem ráðgjafi í öryggismálum í Saudi-Arabíu og fer þangað eftir viku. Ég var svo mikill bastarður að tilkynna yfirmanni deildarinnar hans að hann hafði coperað megnið af verkefninu beint af einhverjum vefsíðum án þess að nefna það, þannig að það stefnir allt í það að hann útskrifist ekki í náinni framtíð. Annars var hann Niko félagi minn svo æstur í vörninni að það þurfti að róa hann niður, ég beið bara eftir að hann færi að kalla strákinn einhverjum nöfnum. Hann hefur ekki verið þekktur fyrir að vera rólegur svo sem strákurinn, enda frá Grikklandi :)

Jæja, ætla að fara að smakka á afrakstri kvöldsins...

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Tallinn, jólaskapið og veturinn

Við skelltum okkur í siglingu til Tallinn um helgina. Nokkuð hress ferð! Með okkur í för voru 10 félagar hérna úr Stokkhólmi. Það var haldið kojufyllerí og þá var það sko ekta kojufyllerí, 12 manns í 9 fm klefa með 4 kojum! Svo var sungið í karokee, bæði "Diggiloo digilæ" og "I will survive" svo voru fæturnir dansaðir af. Næsti dagur fór í að skoða Tallin, mér finnst þetta svo mögnuð borg. Svo að sjálfsögðu fylltum við vel á barinn okkar hérna heima.
Annars er ég búin að vera að taka þátt í Future Design Days með bekknum mínum. FFD er hönnunarsýning sem leggur áherslu á hönnun og framtíðina. Þetta var frekar kúl allt saman.
Svo er jólastuðið alveg að hellast yfir mann, haldið að við höfum ekki afgreitt bara 4 jólagjafir í dag. Nokkuð gott myndi ég segja, svona miðað við fólk sem reddar þessu yfirleitt á síðustu stundu. Mikið erum við að verða sænsk. Svo er planið næstu daga að læra, baka smákökur og jafnvel setja upp svona eins og eina jólaseríu.

Sjáumst seinna,
P.s. það er ekki komin snjór, en veturinn kom samt klárlega í gær. Bæði kom frost og úlpan var tekin í notkun... birrrr!

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Til hamingju!


Vörnin gekk víst bara vel fyrir sig, engar erfiðar spurningar sem ekki var hægt að svara og almenn ánægja var með verkefnið. Strákarnir stóðu sig eins og hetjur við að kynna verkefnið.
Eftir vörnina fékk Jón sendan blómvönd og kampavín frá fjölskyldunni heima á Íslandi, með þeim skilaboðum að þau væru hreinlega að rifna úr stolti.Ég gæti ekki verið meira sammála þeim því að ég er alveg að springa úr monti af manninum mínum.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Aldeilis stór dagur framundan...

Á morgun er aldeilis stór dagur fyrir Svíalingana. Vörnin á að hefjast kl:10 að sænskum tíma upp í Kista. Jón gerir ráð fyrir að þetta verði sirka 2 klst. prósess. Eins og venjulega þegar eitthvað mikið liggur við, þá höldum við um þumlana fyrir strákinn!!!

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Bleika helgin

Prófið á föstudaginn gekk svona lala. Við fáum að sjá árangurinn úr því seinna. Annars skelltum við okkur beint í partí eftir prófið og að sjálfsögðu mættum við í bleiku. Ég er ekki frá því að við höfum tekið okkur bara ágætlega út, það gæti svo sem líka alveg verið áfengið sem villti mér sýn. Ætli það sé ekki bara best að óska eftir myndum?
Partíið tókst dúndurvel hjá þeim niðrí Necklinge. Ætli það sé ekki best að segja að það hafi verið rosa stuð og rosa mæting, sérstaklega þar sem rosa þýðir bleikt á sænsku.
Í gær lönuðu svo strákarnir allan daginn þannig að við Heiðrún skelltum okkur saman í bæinn og enduðum svo heima hjá henni í föndurstuði. Bjuggum til í samvinnu tvo engla... og að sjálfsögðu kom ekkert til greina en að þeir væru bleikir svona í stíl við helgina. Við Jón vorum síðan ekki komin heim til okkar fyrr en um eitt leytið í nótt.
Á eftir er planið að hitta aðra á hæðinni okkar og snæða með þeim pizzu. Það verður gaman að sjá með hverjum maður býr!
Sjáumst!

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Snýtingar

Afhverju er dónalegt að snýta sér fyrir framan fólk á Íslandi, en ekki annars staðar?

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Jag vill leva la dolce vita!

Mikið er áhugavert að gera allt annað, þegar maður á að vera læra undir próf. Ég get svo svarið það að áðan fannst mér algjörlega nauðsynlegt að snyrta til kertin mín. Ég gat bara ekki látið þetta sitja lengur á hakanum. Ég er þó allaveganna ekki eins slæm eins og hann Guðmundur sem á að hafa þrifið hjá sér klóstið... það gekk bara ekki lengur að hafa það í þessu ásigkomulagi.

Veturinn ætlar að láta eitthvað bíða eftir sér. Mig er byrjað að dauðlanga í snjó og snjókomu... sniff, sniff. Ekki nóg með að fjölskyldan öll sé heima á fróni, heldur fá þau veðrið sem manni langar í líka. Mér finnst það eigi að vera regla að ef maður býr erlendis og hefur ekki fjölskylduna sína, þá á maður alltaf að fá það veður sem manni langar í.

Vistfræðingurinn og náttúruverndarsinninn á heimilinu fékk að vita einkunnina sína, það var staðist með glæsibrag... heilir fjórir skiluðu sér alla leiðina heim.

Eftir prófið á föstudaginn er okkur hjónaleysunum boðið í partí þar sem er skylda að klæðast rauðu eða bleiku. Það verður vægast sagt fróðlegt. Spurning um að hella vel í manninn, klæða hann upp í bleikt og mæta svo í partíið syngjandi "jag vill leva la dolce vita woohoo!"