þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Should make a career out of this...

Og þá er pökkunin formlega byrjuð. Mikið rosalega getur maður safnað að sér drasli. Ég hefði haldið að þetta væri minna eftir bara 3,5 mánuði, en neibb... þetta virðist sogast að manni úr öllum áttum og troða sér inn í allar hillur, skápar, horn og skúmaskot. Mér finnst drasl haga sér mjög svipað og ryk. Geymslan er á lokasprettinum og eldhúsið klárt, skildi eftir 2 glös, 2 diska, 2 hnífapör og ostaskera. Maður fer nú að verða svoldið klár í þessu, ekki nema 3 búslóðaflutningurinn hjá okkur á þessu ári. Já, spáið í því, þrír bara á þessu ári. Should make a career out of this!

Annars höfum við jón tekið upp afar sérkennilegt áhugamál. Núna er keppst um að ná handtölvunni hans jóns til að spila solitaire kapallinn. Sá sem nær henni ekki fær að húka í tölvunni að spila Solitaire. Ég veit ekki alveg hvað kom fyrir hausinn á okkur en mig er farið að gruna að við höfum andað einhverju undarlega að okkur. Gæti mjög vel hafa verið ruslið...

Annars heldur bara áfram að vera kalt í Stokkhólmi. Veðrið virðist fara svoldið í skapið á fólki því áðan var 22 ára gamall leigubílstjóri skotinn fjórum sinnum inn í verslunarmiðstöðinni sem Jón labbar alltaf í gegnum til að fara í skólann. Sem betur fer lifði gaurinn af. Löggan heldur að þetta hafi verið eitthvað uppgjör. Þannig að jón er í engri hættu, jú nema hvað að MacDonalds er víst stöðug ógn við heilsu ungra manna sem villast inn í Kista verslunarmiðstöðina.

Sí jú leiter, aligeiter.
After væl, krokkadæl!

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Misstum næstum af aðventunni...

Þá er bara fyrsti í aðventu kominn. Og að hugsa sér, hann fór næstum því fram hjá okkur. Við ákváðum bara fyrir tilviljun að hita heitt súkkulaði í dag og fá okkur piparkökur. Við stálumst til að setja jólalög og sátum við kertaljóst inn í stofu í þvílíkum jólafílíng... bara einn hængur á gjöf Njarðar. Við héldum að við værum að stelast og að það væri vika í aðventuna. En svo kom annað í ljós. Það var samt ferlega kósí hjá okkur og jólalegt. Munaði litlu að maður brunaði út í snjóinn og byggi til snjókall. En svo mundi maður eftir því hversu leiðinlegt er búið að vera að vaða snjóinn á leið í strætó og hversu rosalega kalt er úti. Veruleikinn skall mjög fljótt framan í mann og maður dró bara teppið ennbetur upp að höku og við ákváðum að fá okkur bara fleiri piparkökur í staðinn.

Við erum aðeins byrjuð að pakka. Við byrjuðum á bókunum í geymslunni og svo ætlum við að halda rólega áfram í þessari viku. Ég er bara að vinna á morgun og hinn, og fer svo í viðtalið í skólann á miðvikudag, fáum lyklana að íbúðinni á fimmtudag, og flytjum á föstudag. Þetta verður viðburðarríka vika hjá okkur.

Annars er Jón búin að kynnast skemmtilegum strák í skólanum sem heitir Asim og hann er frá Pakistan. Það fyndna við hann er að hann talar með mjög sterkum pakistönskum hreim (svona "bdnh" hljóð upp í nefið) og svo talar hann alveg rosalega hratt. Ég hef ekki glóru hvað maðurinn er að segja en jón skilur hann alveg. Nema hvað... Asim er mjög trúaður múslimi og kemur frá frekar strangtrúaðri menningu. Þannig að greyi hann má ekki borða neitt nema kjöt af dýrum sem er slátrað á "réttan" hátt (held það hafi heitið "halelh" eða eitthvað solleis), þetta er ekkert smá mikið mál í hádeginu í skólanum hjá þeim þegar þeir eru að reyna ákveða hvert á að fara og fá sér að borða. Greyi Asim verður að yfirheyra kokkana allstaðar. Jóni langaði að bjóða honum og Henna, konunni hans, í heimsókn til okkar en ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að elda. Mohammed (yfirmaðurinn minn) er minn aðalsource í svona málum og er búin að útskýra þetta allt fyrir mér og segja mér hvar ég get keypt svona kjöt. Þannig að þetta reddast kannski ef ég býð þeim í mat. Spurning um að elda indverskan? ... djók
Það sem er líka gaman við að eignast vini frá svona allt öðru samfélagi er að maður sér sitt eigið samfélag frá allt öðru sjónarhorni. T.d. Asim og konan hans eru búin að vera gift í 3 mán. Hjá þeim er kynlíf fyrir hjónaband algjörlega bannað og þegar Asim varð skotin í konunni sinni þá fóru foreldrar hans og sömdu við foreldra hennar um hjónaband. Svo varð hann greyið víst að stinga af úr honeymoon-inu þeirra til að fara læra í Svíþjóð. Hún kemur svo til Svíþjóðar í þessari viku. Þá verður nú kát í höllinni. Þetta er nú svoldið öðruvísi menning en níu árin okkar í synd. Og við erum ekki einu sinni hringtrúlofuð eins og ein heldri konan úr fjölskyldunni minni myndi orða það (þið heima vitið alveg við hverja ég á!).

Fyrir þá sem vilja vita þá mælum við með því að vinir okkar heima sendi okkur bara jólakort heim til foreldra minn þar sem að við komum til með að vera þar um jólin. Addressan er :
Jón Grétar og Elísabet
Breiðvangur 39
220 Hafnarfjörður

Þeir sem vilja senda okkur kort út, verða bara að bíða því ég man engan veginn hvað addressan á nýja staðnum.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Tilraunadýrið ég...

Jæja, loksins lætur maður heyra í sér hérna. Það er búið að vera ansi mikið fjör í skólanum og ég var að skrá mig í tilraun. Þetta er voða fín tölvu og félagsfræði tilraun þar sem notkun á lófatölvum og hugbúnaði til hópvinnu. En ég skrifaði einmitt undir samning sem bannaði þeim að pota í mig með einhverjum mælum og lækningartækjum, þarf bara að fylla úr spurningalista.

Annars er það að frétta að ég er búinn að fá úr öllum prófunum mínum fyrir þennan fjórðung og eru þau öll upp á hæstu einkun. Sem er gott, og slæmt... Núna þarf ég að fara að standa undir einhverjum væntingum um besta árangur, sem hefur ekki verið minn stíll í gegnum tíðina. En batnandi mönnum víst best að lifa.

Óver and át...

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Bolla, bolla, bolla...

Það er langt síðan að það heyrðist í okkur síðasta, enda lítið að frétta og dagarnir allir nokkuð eins. Það sem er merkilegt að frétta er að Jón fékk 5 í öðru prófinu. Nokkuð góð byrjun hjá honum (skalinn er upp í 5). En hann á ennþá eftir að fá úr hinu prófinu.
Mohammed og Suzanne komu í síðustu viku og gáfu mér tvenn dansskópör fyrir að passa búðina. Þannig að núna á ég bæði gyllt og silfrað par, voða fínt!

Við getum varla beðið eftir því að fá íbúðina og það er alltaf að verða lengra og lengra heim. Við segjum alltaf á leiðinni heim, "ef við værum flutt þá værum við núna komin heim og byrjuð að borða eða komin í sófan." Sem er ekki leiðinlegt hugsun miðað hvað það er byrjað að kólna. Svo á víst að fara að snjóa í vikunni. Brrr...

Ég skellti í bollur áðan, ferlega dugleg fannst mér. Er að reyna nota upp öll hráefnin á heimilinu fyrir flutningana. Virkaði samt ekki nógu vel hjá mér þar sem deigið varð of blautt og hveitið kláraðist, þannig að ég varð að hlaupa eftir meira hveiti. Ætli Jón græði ekki bara súkkulaðiköku í næstu viku.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Seinkunn vegna laufa

Ferðin til Helsinki var hrein snilld! Skipið var alveg frábært þrátt fyrir litla káetu. Það voru öll þægindi þarna og við nýttum þau að fullu. Helsinki sjálf var samt ekkert að skarta sínu besta fannst mér. Held að það sé líka skemmtilegra að fara að sumri til. En skipið var alveg það besta við ferðina. Þegar við förum aftur, þá stefni ég á að sofa fram að hádegi (eftir djammið) þegar við lendum í Helsinki, skríða út á Hesburger (hin finnska útgáfa af MacDonalds) og fá mér að borða. Fara svo aftur upp á skip og leggjast í heita pottinn, þaðan er nefnilega útsýni yfir borgina. Það gerðist margt markvert í þessari ferð og ég mæli með því við alla að fara í slíka ferð, og ef ykkur vantar ferðafélaga, þá erum við alveg til! Þar sem ég er ekki alveg búin að læra á myndakerfið hans Gumma þá linka ég bara á myndirnar þeirra. Já og þeir sem vilja vita meira um ferðina geta bara lesið bloggið hennar Sveinku.

Annars erum við með merkilega frétt. Nibbb, ég er ekki ólétt. Merkilegu fréttirnar eru þær að við erum komin með nýja íbúð. Hún er í Västra Skogen á bláu línunni (lestarlínurnar eru merktar með litum). Þannig að nú er stutt bæði fyrir mig og Jón í skólan. Jón er t.d. 10 mín með lest í skólan núna. Íbúðin er alveg heilir 44 fm og á fjórðu hæð. Við erum með lítið baðherbergi, minnsta eldhús í heimi, risa-risa svefnherbergi og kompu/skrifstofu. Það er nefnilega mjög furðulegt skipulagið á íbúðinni. En sem betur fer höfum við mánuð til að finna út úr því hvernig við skipuleggjum hana. Við fáum lyklana afhenta þann 2. desember og strax komin með langan lista af fólki sem ætlar að koma að hjálpa að flytja/klára bjórinn. Meira segja Sveinka ætlar að koma með bumbuna sína og er búin að panta tusku.

Hins vegar eru vondu fréttirnar þær að Vala ætlar að fara aftur heim. Sniff, sniff! Hún fær enga vinnu hérna og getur líklega fengið vinnu heima. Það er búið að skipuleggja kveðjuathöfn sem byrjar eftir vinnu á morgun (föstudagur) og ef vel fer þá er áætlað að hún endi snemma á sunnudagsmorguninn. Við Vala erum strax búnar að skipuleggja hitting um jólin.

Annars er maður að smitast af Svíunum. Ég og Sveinka vorum að spjalla saman í gær á Íslendinga-Onsdagspub að við ættum að gera smákökur fyrir jólin. Einhver spurði okkur hvað við værum að spjalla um og við svöruðum "erum að spá í að hittast annan sunnudaginn í aðventu og baka smákökur!" ... um leið og við höfðum svarað fölnuðum við og litum á hvor aðra, "ehhh... spáum bara í þessu seinna".
Ég get ekki annað en spáð í því að ég er bara búin að vera hérna í 2 og hálfan mánuð, hvernig verð ég þegar ég kem heim?

Jón brilleraði í einum áfanganum sínum sem hann var að klára. Hann var sá eini í bekknum sem náði að klára öll verkefnin sem voru sett fyrir og skila þeim á réttum tíma. Enda sat hann hérna öll kvöld og hamaðist við að gera þau. Enda var bloggið svoldið svelt á þeim tíma.

Mohammed og Suzanne fóru til Kairó í morgun og því mun ég sjá ein um búðina á meðan, það er bara kúl. Annars verð ég að fara safna saman einhverjum sögum úr vinnunni og skrifa hérna. Þið trúið ekki í hverju ég hef lent þarna, frekar fyndinn staður.

Já, og eitt í endann. Maður gæti trúað því að það verði seinkun á lestunum vegna bilana, hálku og snjós. Aldrei bjóst ég við því að það yrði seinkunn á lestum vegna laufa.

Farin að kúra hjá Nonna fyrir framan boxið.