fimmtudagur, júlí 17, 2008

Idle hands are the root of all evil


Ég veit ekki hvort þetta sé einkenni af of löngu fæðingarorlofi, of miklu hugmyndaflugi eða nördaskap. Líklega óverdós af þessu öllu saman. Eftir að hafa setið stundakorn ein fyrir framan imban, þá fór ég að velta fyrir mér hvað Jón væir eiginlega að bralla. Ég heyrði í glamri í gleri inn í eldhúsi og leit þangað inn með Nikulás í fanginu. Þar stóð maðurinn minn með glerskálar með vatni, víraflækju út í loftið og einhver tæki. Ég spurði hvað hann væri eiginlega að gera, því þetta leit ekki út eins og nein matseld sem ég hef áður séð. Prakkaralegi svipurinn á honum þegar hann svaraði mér var þannig að ég vissi alveg að ég hefði ekki átt að spyrja.

"Ég er að framleiða vetni"

Einmitt, nú er maðurinn endanlega genginn af göflunum hugsaði ég með mér. Ég get svo svarið fyrir það að ég leit bara af honum í sirka korter.

"Og hvað ætlarðu að gera við það, elskan mín?"

"Kveikja í því"

Mér leist ekkert á blikuna, efna og eðlisfræði hafa aldei verið mín sterka hlið en sagnfræði var það og orðið vetnissprengja var það fyrsta sem ég gat rifjað upp úr minni skólagöngu og myndirnar sem þutu í gegnum hugan pössuðu einhvern veginn ekki við krúttlegt eldhús í Garðabænum.

"... en er það ekki eldfimt?" spurði ég hikandi.

Um leið og stórt bros færðist yfir andlitið á honum svaraði hann ofurhress:

"Jú, alveg rosalega!"


Stuttu seinna hlammaði hann sér í sófann. Ég spurði hvernig hafi gengið. Hann andvarpaði þungt og sagði að helv... vetnisbólan hafi sloppið frá honum áður en hann gat kveikt í henni. Ég verð að viðurkenna að mér var nokkuð létt. Svo leit ég niður í fangið á mér og horfði beint framan í skælbrosandi eftirmynd hans... úff, þeir eiga eftir að verða rosalegir.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

lol.... hehehehe sé þetta alveg fyrir mér! Var búin að gleyma þessari síðu og sé að hún er bara í fullum gangi ennþá. Sjáumst í bíó á fimmtudaginn! hehehehehe þið eruð æði
kv.
Vala

22 júlí, 2008 17:33  

Skrifa ummæli

<< Home