föstudagur, september 19, 2008

Boys and their toys!


Ég fór í afmæli í gær og eins og svo oft þá var ég í stökustu vandræðum með að finna afmælisgjöf. Ég fór með litlu frændur mína í Toys 'r us og fundum við hina fullkomnu gjöf handa spenntu afmælisbarni, Robosapien vélmenni. Við systurnar slógum allar saman í púkk því þetta var aðeins meira en budgetið leyfði. Jæja, í afmælið var brunað og gjöfin afhent. Hún sló ekkert smá í gegn, enda bæði í stórum kassa og svo var innihaldið þvílíkt spennandi. Allir í afmælinu hjálpuðust að við að koma ferlíkinu úr kassanum. Þegar það loksins tókst þá uppgötvaðist að við hefðum keypt vitlaus batterí, það var þvílík sorg enda hafði allt afmælið verið upprifið yfir gjöfinni. En Rósa systir bjargaði því með að hringja í Jón sinn og segja honum að koma með batterí þegar hann kæmi í afmælið. Á meðan sat móðir afmælisbarnsins og las í gegnum leiðbeningarnar, því þær voru bara á norðurlandamálunum og þar sem hún bjó eitt sinn í Danmörku þá fannst henni tilvalið að hún tæki það að sér. Loksins komu batteríin og vélmennið var sett af stað, og þvílíkt stuð. Yngstu börnin földu sig fyrir skrímslinu og leist ekkert á það en við hin vorum að deyja úr spenning í að fá að prófa. Við erum svo að fara í afmælismatarboð í kvöld til afmælisbarnsins. Það sagði mér í gær að það ætlaði að stúdera vélmennið og fjarstýringuna vel áður en við kæmum í kvöld, til að sýna hvað væri hægt að gera með því.

Já, sumt breytist aldrei þó aldurinn færist yfir.
Til hamingju með 66 ára afmælið pabbi!


Ég get ekki annað en velt fyrir mér hverskonar leiðbeiningar ég verð að lesa fyrir Nikulás þegar ég verð 91 árs.