mánudagur, desember 25, 2006

Gleðileg jól!




Elsku vinir og fjölskylda nær og fjær!
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og hlökkum til að hitta alla þegar við komum aftur til landsins. Aðfangadagskvöld var alveg yndislegt og steikin hjá Jóni alveg guðdómleg, ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um hana. Við vorum rétt að skríða á fætur og nú er planið að hlamma sér í sófann með sæng og í jólanáttfötunum og lesa bók og borða Nóakonfekt. Klukkan þrjú ætlum við svo að kikja í hangikjöt hjá Sveinku og Gumma.
Þökkum fyrir allar góðar kveðjur og jólapakkana!
Söknum ykkar!
Jóla-Jón og Jóla-Beta

sunnudagur, desember 24, 2006

Þorláksmessuhugleiðingar

"Tadamm,damm,damm,damm, ég vil rjúpu, tadamm,damm,damm,damm, ég vil rjúpu". Ég er að hlusta á Þorláksmessutónleika Baggalúts á netinu og við höfum það bara nokkuð kósí. Þetta hefur verið sá allra stresslausast jólaundirbúningur sem ég hef haft reynslu af. Ég er þekkt fyrir að vera yfirleitt á síðustu stundu, en núna er bara allt reddí, "sjö, níu, þrettán", *bank,bank*. Íbúðin er orðin hrein og skreytt, jólatréð stendur skínandi inn í stofu hlaðið glingri, jólapakkarnir undir trénu og maturinn í ísskápnum. Í kvöld erum við búin að hlusta á jólakveðjurnar á Rás 1, horfa á jólabíómynd, drekka jólaöl og núna sit ég hérna og bíð eftir að síðustu smákökurnar mínar komi úr ofninum. Ég hafði ekkert meira að gera í jólaundirbúningnum þannig að ég ákvað að skella í einn umgang. Þessar kláruðust nefnilega um síðustu helgi, þannig að það var alveg komin tími á að baka fleiri. Svo erum við búin að versla jólanáttföt á hvort annað og erum orðin alveg sett í bíómyndagláp og nammiát næstu daga. Hver veit, kannski skellum við einni náttafatamynd hérna inn! En ódýra jólatréð okkar stendur sig eins og hetja og ég er orðin alveg ástfangin af því. Þessu tré verður pottþétt dröslað með til Íslands.

Við fengum náttla enga skötu til að borða í dag. Jón gerði sitt besta í að bæta okkur það og eldaði bara þorsk í staðinn. Ég var bara nokkuð sátt þar sem skata er ekki sá siður sem ég sakna mest frá Íslandi. Hinsvegar saknar maður fjölskyldunnar afar mikið. Það er skrítið að vera í burtu frá öllum svona á jólunum og í jólaundirbúningnum. En ég held við lifum þetta svo sem alveg, notum bara skype og msn yfir jólin. Annars er jólaundirbúningar erlendis bara skemmtilegur verð ég að segja. Það verður fróðlegt að sjá hvar og hvernig næsti jólaundirbúningur verður hjá okkur.

miðvikudagur, desember 20, 2006

I'm a lumberjack and I'm ok...

Við fórum í dag að ná okkur í jólatré. Sem væri ekki í frásögur færandi nema hvað... það virtist ekki vera svo mikið úrval eftir og þó nokkuð orðið uppselt. Svona eru Svíar framtaksamir, skipulagðir og snemma í því (heyrir einhver kaldhæðnina?). Eníhú, við Jón röltum á milli búða og blómatorga til að leita að jólatré. Við enduðum svo á því að finna jólatré sem okkur leist ágætlega á, og það besta var að verðið var eins og við höfðum hugsað okkur (s.s. afar ódýrt) þó að tréð sjálft var ekki eins og við höfðum planað. En allt er nú hey í harðindum og ekki hægt að vera pikkí þegar er orðið lítið úrval. Þannig að heim drösluðumst við með tréð okkar í neðanjarðarlestinni. Jón bögglaðist með tréð undir forvitnum augum samferðamanna okkar á meðan ég sönglaði fyrir hann "I'm a lumberjack and I'm ok". Hann virtist ekki kunna meta sönginn minn mjög vel. Og upp fór tréð í íbúðina okkar og sómir sér vel inni í stofu (það var spurning um að koma því fyrir þar í horninu eða geyma það inn í sturtu yfir jólin).
Þetta glæsilega ekta gervijólatré er framleitt í Tælandi og er ekki nema 2,1 meter. Ég giska á að jólastjarnan muni snerta loftið hjá okkur þegar hún verður sett á. Við erum ennþá hálf flissandi yfir þessu über jólalega framtaki okkar.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Teknologie Magister Jón

mánudagur, desember 11, 2006

Dauði á autobahn-anum

"Smökkum sörurnar,
mömmukökurnar,
makkarónurnar,
eplabökurnar.
Hvernig smakkast svo?
Þetta er dásamlegt.
Jahá, þá mest er nú gaman, ahaaa!
Að við skulum vera saman, ahaa!"

Ég sit hérna í rökkrinu í litlu sætu íbúðinni okkar í Stokkhólmi og raula þetta lag fyrir munni. Ég las bloggið hennar Möddu í gær og hef verið alveg húkkt með þetta lag á heilanum síðan. Hef oft heyrt það áður, en í gær límdist það alveg gjörsamlega.

Síðasta vika var pínu klikk. Ég ákvað á síðustu stundu að koma ekkert heim frá Þýskalandi og eyða helginni bara í Berlín og halda svo áfram til Stokkhólms. Ferðin var s.s. flogið til Frankfurt, keyrt til Nürnberg (reyndar á 220 km hraða, ég hélt ég myndi deyja þar og nú á autobahn-anum), keyrt til Munich, flogið til Hamburg, lest til Berlín til Tótu og Baldurs og svo loks flogið til Stokkhólms.

Helgin í Berlín var algjört æði. Tóta, Baldur, Örnólfur og Lena eru náttla svo frábær að það er ekki annað hægt en að skemmta sér með þeim. Við Tóta og Baldur fórum á Mr.Ping, afar merkilegan PingPong stað á föstudagskvöldið. Hrárri bar hef ég ekki séð, bara lofræstistokkur í loftinu, hálf málað gólf (það var ansi lítið eftir af málingunni) og pingpong borð á gólfinu. Í kringum borðið hljóp svo 40 manns í pingpong. Ef maður tapaði einu stigi, þá varð mar úr og þannig týndist úr hópnum þangað til að bara 3 voru eftir. Þá var sprett ekkert smá í kringum borðið. Ég var skítléleg í borðtennis, en þetta var rosa stuð fyrir því.

En mikið er heimurinn litill, þegar ég sit þarna inni þá kemur labbandi inn strákur. Þá var þetta bara Tommi LeMarque (afsakið mögulega nauðgun á eftirnafninu) sem var með mér í hönnun í Iðnskólanum. Frekar fyndið.. Næsta pleis sem við stefndum á var frekar töff bar sem ég man ekkert hvað heitir. En það kúla var að hann var settur upp eins og heimili. Mar gat sest í eldhúsið, eða borðstofuna eða setustofuna.

Laugardagurinn fór svo í smá búðaráp hjá okkur Tótu og kvöldið í kjúlla og Catan. Afar næs...

En núna er ég s.s. komin til Stokkhólms og er á leiðinni út að borða á Cophanjang með tengdó og Jóni. Þau eru mætt hingað til okkar til að vera á útskriftinni hans Jóns á morgun.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Mele Kalikimaka og sálufélagar

"já, ég hlusta oft á svona spes jólalög, þú skilur" Við Anna vorum að spjalla í bílnum í dag á leiðinni á fund. Ég hélt áfram, "Já, pabbi keypti einhvern tíman voða fína jólageisladisk þegar ég var lítil og hann var spilaður út í eitt fyrir jólin. Við vorum nýbúin að eignast geisladiskaspilarann og það að eiga jólageisladisk var ekkert smá flott. Nema hvað, það voru svo spes lög á disknum að uppáhaldsjólalögin mín eru svoldið öðruvísi en annarra. Hefurðu heyrt Christmas in Killarney? En hvað með MeleKalikimaka?"

Ég hef alltaf átt mín sérstöku jólalög. Þau eru aldrei spiluð í útvarpinu fyrir jólin og eina leiðin til að hlusta á þau er að ná sér í þennan fína jóladisk hans pabba. Það hefur frekar oft verið hlegið að mér og hváð þegar ég byrja að syngja jólalögin mín "Mele Kalikimaka, is a thing to say, on bright hawaiian christmas day" eða "And Santa Claus, you know of course, is one of the boys from home".

Nema í dag, eftir að hafa raulað lögin fyrir Önnu, þá sagðist hún bara þekkja Mele Kalikimaka mjög vel. Ég hélt hún væri að grínast í mér og var handviss um að hafa hitt fyrir sálufélaga minn. Ótrúlegt, pabbi einhverjar annarrar hefur líka séð þennan disk í Japis fyrir 20 árum! Nema hvað, hún sagði mér að hún þekkti þetta lag því að það sé alltaf spilað svo mikið fyrir jólin niður i CCP.

Ef ég er ekki að vinna á réttum stað þá veit ég ekki hvað.

P.s. prófaði Nintendo Wii í vinnunni og það er algjör snilld! Það er ekki lítið sem maður lifir sig inn í tennis, þarf samt aðeins að vinna í bakhöndinni. Kolla veit hvað ég á við.

laugardagur, desember 02, 2006

Síðasti dagur til að senda...

Það er orðið ákveðið að við Jón munum halda jólin saman úti í Stokkhólmi. Ég fer út til hans um næstu helgi og mun vinna í fjarvinnu. Ef það er einhver sem langar að skella jólapakka eða jólakorti í töskuna mína þá er fólki það velkomið. Það er hægt að droppa því af á Breiðvanginum ef fólk vill. Þeir sem eru að spá í hvað addressan okkar er úti, þá er hún eftirfarandi:

Emmylundsvägen 5/302
171 72 Solna
Sweden

Annars var mikið fjör í liðinni viku. Daginn eftir síðasta blogg kom Jón Grétar heim og kom fjölskyldunni sinni á óvart. Það var ekkert smá gaman, þvílík og önnur eins svipbrigði hef ég bara aldrei séð! Svo var farið í sumarbústað og haft það kósí saman. Ferðin var alla staði yndisleg og við föndruðum heilan helling, svo voru bakaðar smákökur og randalína. Jón fór svo aftur á miðvikudag, og enn og aftur var leiðinlegt að kveðjast en ótrúlegt en satt að þá er þessu fjarbúðar-tímabili okkar að ljúka.