föstudagur, apríl 29, 2005

Valborgarmessa

Prófið búið, afgreitt og sent, ekki meira um það. Dagurinn í dag fór útréttingar með Möddu og Jóni í morgun og eftir hádegið fór ég og Jón í heljarinnar göngutúr. Gengum frá T-Central niður á Skanstull. Það var bara svo yndislegt veður að það var varla hægt að sleppa þessu. Æðisleg sól og hiti. Ég var í nýju sandölunum mínum og ég er ekki frá því að tærnar mínar hafi flissað af kæti yfir að hafa fengið að vera berar í smástund. Sérstaklega því þær fengu líka smá naglalakk... nohohoho!

Í fyrramálið verður stefnan tekin á Uppsali, þar er víst verið að fagna Valborgarmessu með öllu tilheyrandi. Hvað það er nákvæmlega, veit ég ekki alveg, en þið fáið kannski að frétta af því þegar við komum heim.

Á sunnudaginn verðu lagt af stað seinnipartinn með M/S Victoria til Tallinn og er áætluð heimkoma á þriðjudaginn. Þið fáið vonandi að sjá myndir og fréttir af þeirri ferð seinna meir.

Góða helgi!

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Bara ef einhver hefur áhuga...

Kl: 12 stundvíslega fékk ég prófið sent. Spurningarnar afar áhugaverðar og byggðar upp þannig að það er ekki auðvelt að nota bækurnar til að hjálpa sér. Ef einhver hefur áhuga á að senda mér athugasemdir eða punkta um málefni þá er það velkomið.

  1. Samkvæmt post-modernisma er einstaklingurinn ekki sjálvirkt fyrirbæri. Útskýrðu og ræddu neytandann út frá modern og post-modern viðhorfi í sambandið við viðeigandi dualisma, svo sem einstakling og samvitun og neytenda og framleiðanda.
  1. Post-modernism efast um alheims-sannleika og gildi. Útskýrðu hina post-modernísku nálgun með tilliti til hugtaka svo sem; fragmentation, de-differentiation og hyperreality. Notaði viðeigandi dæmi til að útskýra hugtökin.
P.s. Ég opnaði grænt ópal og N&S suðusúkkulaði til að nota sem heilafóður :)

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Þokkaleg þrautraun

Það bíður mín þokkaleg þrautraun næstu dagana. Ég er víst á leið í 48 tíma próf. Það byrjar á morgun kl: 12 og því lýkur á föstudaginn kl: 12. Eins og þið getið gert ráð fyrir þá hlakkar mig alveg svakalega til. Þetta er próf sem er sent heim til mín og fær maður að takast á við það með öllum tiltækum ráðum og hjálpargögnum og senda það svo tilbaka. Jón er búin að undirbúa það að elda góðan og hollan mat handa mér, nudda axlir og hvetja. Frekar gott að geta haft hann svona með í prófi. Eníhú... ég verð s.s. upptekin næstu daga.

Annars var síðasti tíminn í Salsa í kvöld. Kennarinn gaf okkur CD að kveðjugjöf. Nú verður bara dansað heima eða jafnvel kíkt á Salsaklúbb í og með. Við sjáum til.

Þar til næst, verið þið hress, ekkert stress og bless, bless!

sunnudagur, apríl 24, 2005

Myndaalbúm

Loksins kom að því að ég henti upp myndaalbúmi á vefsíðuna. Það er mikið búið að biðja um slíkt og ég vona að fólk sé ekki alveg búið að gefa upp öndina. Núna eru komnar inn nokkrar myndir síðan fyrir jól og ég er að vinna í því að koma öllu heila klappinu inn. Þetta kemur smátt og smátt...

Annað mál á dagsskrá. Guðrún Þóra mágkona og litla systir átti 25 ára afmæli í gær. Til hamingju með það, skvís! Vona að þú hafir skemmt þér vel í afmælinu á Íslandi.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Bæði gleðilegt sumar og gleðilegar nærbuxur!

Gleðilegt sumar, smumar! Pfifff... haldið að það hafi ekki bara snjóað á okkur í dag. Sem hefði kannski verið allt í lagi, ef ég hefði ekki fattað eftir hádegið að það væri "Sumardagurinn fyrsti". Jæja, það fraus þó alla veganna saman sumar og vetur hér hjá okkur, ef það má kalla það það.

Ég og Madda drifum okkur í H&M í gær því það var afsláttur í gangi fyrir klúbbmeðlimi. Við hengum í kalla deildinni og skemmtum okkur við að skoða nærföt. Þeir sem hafa fylgst með á blogginu hafa kannski komist að því að karlmanna-nærföt eru einstaklega áhugaverð í Svíþjóð. Þarna stóðum við og flissuðum að öllu gegnsæju, litskrúðugu nærfötunum og skemmtum okkur alveg konunglega. Það voru einar sem voru í algjöru uppáhaldi hjá okkur. Það var pinkulítlar boxer-nærbuxur úr glansandi teygjuefni. Til að gera þær svona extra kjút, þá var klauf á hægri mjöðminni og til að halda klaufinni saman þá voru tvær lengur af semalíusteina-bandi þvert yfir mjöðmina. Sérlega karlmannlegt of glæsilegt, híhíhí. Gegnsæju g-strengirnir eru samt eiginlega allra fyndnastir... jaa, það eina sem toppar það eru veslings sænsku karlmennirnir sem eru að kaupa sér þá. Þeir minna helst á 15 ára unglingsstráka að kaupa sér smokka. Horfa helst í gaupnir sér, skipta litum, rauðir, hvítir og fjólubláir í framan og brosa svo hrikalega vandræðalega framan í afgreiðslumanninn "ehhh... þetta er sko gjöf!" . Við sáum einn í gær sem hélt því einmitt vandræðalega fram að þetta væri gjöf og þá fór afgreiðslumaðurinn að leita út um allt að "gjafa-límmiða" til að setja yfir verðið. Það tók hellings tíma og vakti ágætis athygli hjá viðstöddum. Afgreiðslumaðurinn stormaði um þarna fyrir innann borðið sveiflandi g-strengnum á einum fingri eins og stoltur bíleigandi með lyklakippuna sína. Greyi nærbuxna-viðskiptavininum leist greinilega ekki á alla athyglina sem g-strengurinn hans var að fá þannig að hálf stamaði út úr sér við afgreiðslumanninn "herru, slepptu þessu bara, þetta er ekkert mál!! Afgreiðslumaðurinn snéri sér ákaflega hissa að honum og sagði : " Já, en þá getur vinur þinn ekki skipt þessu!" Ég hélt ég ætlaði að pissa í mig af hlátri, greyi maðurinn! Þetta snérist ekkert smá í höndunum á honum. Hann tók svo g-strenginn og afþakkaði poka og tróð honum ofan í vasann á buxunum sínum. Alveg sá ég fyrir mér að einhver vasa-þjófurinn væri við það að detta í lukkupottinn.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Travolta-fílingur

Ég átti frí í skólanum í dag. Frekar fínt, stundum þarf maður bara rólegan dag inn á milli þar sem maður getur eytt smá tíma með sjálfum sér. Dagurinn hjá mér fór í smá heimilisverk en þar sem Madda dugnaðarforkur hjálpaði mér með innkaupin í gær, þá hafði ég slatta aukatíma afgangs. Sá tíma var eytt mjög samviskulega í Opruh þátt, ræktina og ljós. Alveg dásamlegt, verð ég að segja! Við fórum svo í Salsa tíma í kvöld og Jón var alveg að brilla. Stelpurnar hringsnérust í fanginu á honum og ég er ekki frá því að hafa séð smá Travolta-fíling þarna inn á milli. Það er svoldið að koma okkur á óvart hversu gaman við erum að hafa af þessum danstímum. Hver veit hvað við tökum okkur fyrir hendur næst. Hugmyndir eru vel þegnar í kommentin!
Kv,
Elísabet

Væmnikast!

Ég fékk umslag í dag frá systur minni. Í því voru myndir og myndband sem sýnt var í fermingunni hjá Svölu litlu frænku minni. Oooohhh... hvað ég hefði viljað vera þar. Ég sat hérna fyrir framan tölvuna í kvöld og hló svo hjartanlega að myndbandinu, það var yndislegt. Mér fannst hálf undarlegt að horfa á þessar myndir og finna fyrir söknuði fyrir litlu frænku minni. Minningarnar blossuðu upp og maður varð alveg ferlega væmin. Furðulegur þessi söknuður sem maður getur fundið fyrir yfir liðnum hlutum. Þessi litla frænka mín er horfin í staðinn er komin falleg ung kona (mun hávaxnari en ég er og stór glæsileg). Mér finnst pínku skrýtið að litla krúttið sé orðið svona stórt og fullorðið. Ég fæ vonandi tíma til að venjast því þegar hún kemur í heimsókn til okkar Jóns í sumar.

Ætli foreldrar hennar verði fúlir ef hún kemur heim með tattú?
En hring í naflann?
Bara spurði ;)

Bíddu, hver er þetta?

Hvað get ég sagt? Mér finnst ég hafa ósköp lítið og ómerkilegt að segja þessa dagana. Það er bara bidsniss as júsjúal hjá okkur svíalíngunum, þeas. éta, læra, sofa, þvo þvott, éta meir, vaska upp og versla inn. Ég reyndi í kvöld að hringja í fjölskylduna en það var bara enginn heima, enginn... Eftir að Þórdís mömmusystir svaraði ekki einu sinni símanum leist mér ekki á blikuna (hún er alfræg fyrir að vera farin í rúmmið fyrir tíu og vöknuð fyrir sex... ótrúlegt að við séum vera skyldar, merkilegt nokk!). Ef hún var ekki heima þá hlaut eitthvað að vera í gangi. Ég var farin að hafa áhyggjur af því að það væri búið að rýma Hafnarfjörð vegna eldgoshættu og kíkti á mbl.is . Helstu fréttirnar þar voru að það hefði Kviknað í dráttarvél við Þórustaði í Bitrufirði, sem er hvergi nálægt Hafnarfirði þannig að ég gerði ráð fyrir því að þau heima hefðu sloppið ómeidd frá þessum hildarleik og þetta væri ekki ástæðan fyrir hinu dularfulla hvarfi Hafnfirðinganna. Ég hringdi að lokum í gemsann hjá mömmu (mjög ráðagóð stúlka á ferð) og spurði hvað væri eiginlega í gangi og hvar í ósköpunum allir væru? Hún svaraði mér að bragði "Nú hér elskan!". Haldið að allt heila liðið hafi ekki bara ákveðið að hittast í mat og hugga sig. Ég er bara farin að hafa áhyggjur af þessu liði, bara byrjað að hittast og skemmta sér á mánudagskvöldum. Sjálfsagt sagt brandara eða tvo og jafnvel hlegið svoldið. Hvað varð um þá gömlu góðu daga þegar fólk hélt sig bara heima hjá sér, húkti fyrir framan sjónvarpið og sagði helst ekki eitt orð heilu kvöldin. Það varð þá alla veganna fegið þegar maður hringdi í það! Svona í lokinn verð ég að bæta því við kvörtunarpóstinn minn, að þegar ég náði svo loks í mömmu þá þekkti hún mig ekki. "Ha? Bíddu hver er þetta?" ég hélt nú ekki, ég ætlaði sko ekki að fara kynna mig fyrir minni eigin mömmu, kom ekki til mála, ekki séns. Já og Ásta frænka, þekkti mig heldur ekki... ég er virkilega farin að halda að fólk sé farið að gleyma mér. Right, who am I kidding... ég er bara komin með svona djúpa sexí rödd á allri menguninni í neðanjarðarlestinni.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Rómantík í allra kvikinda líki

Bloggið er búið að vera hálfbilað og því kemur núna póstur sem ég skrifaði síðasta fimmtudag. Betra er seint en aldrei!


Mér hefur ekkert liðið alltof vel síðustu daga. Ég er búin að vera hálfveik í bakinu og með í maganum síðan fyrir helgi. Í gær var síðan algjör botn áþessu volæði hjá mér. Ég vaknaði og ætlaði engann veginn að komast fram úr rúmminu og ég ákvað strax að þetta væri ömurlegur, ömurlegur dagur. Lífið var bara ofsalega leiðinlegt og fúlt. Ef Jón hefði ekki dregið mig fram úr þá hefði ég legið þar vel fram yfir hádegi. Bekkurinn ætlaði að fara út að borða um kvöldið en þar sem að ég átti svona ömurlegan dag, sagðist ég vera veik og kæmist ekki með. Ég skreið heim og upp í sófa og bað Jón með vesældarlegri röddu hvort hann væri til í að hugsa svoldið um mig í kvöld og gefa mér verkjatöflu. Mér fannst ég eiga alveg ferlega bágt. (Svona skap í mér má yfirleitt skýra með næringarleysi og þar sem ég hef verið ferlega lystarlaus út af magaveseninu er það líklega skýringin núna.)
Jón ákvað að gera tilraun til að lækna mig og bauð mér því uppá uppáhald til fá mig til að borða eitthvað... og jú, haldið að hann hafi ekki dregið upp ekta íslenskar SS pulsur með öllu nema hráum. Það þarf ekki að spyrja að því, ég át á mig gat. Þessi maður er algjört gull!
Í framhaldi af góðu pylsuáti/pulsuáti vaknaði ég í miklu betra skapi í morgun. Ég var samferða (ofboðslega spíralyktandi) bekkjarfélögum í skólann og fannst það bara ferlega fyndið. Í hádeginu fór ég yfir á aðalsvæði Háskólans og beið eftir strætó í 20 mín í grenjandi rigningu og kulda. En ég var bara nokkuð ánægð því ég hafði munað eftir regnhlífinni minni um morguninn. Þegar inn á háskólasvæðið var komið gekk ég skjálfandi og með glamrandi tennur inn á tyrkjabúllu og afgreiðslumanninn spurði mig með áhyggjutón í röddinni hvort mér væri kalt. Mig grunar að þarna hafi ég verið orðin hálfblá í framan. Ég settist niður í eitt hornið í búllunni og sterk steikingarlyktin af frönskunum vakti hjá mér hálfgerða heimþrá eftir pulsuvagninum heima. Merkilegt hvernir rómantíkin getur hellst yfir mann, jafnvel inn á subbulegri tyrkjabúllu. Eftir að hafa borðað kebabið mitt, sat ég þarna í nokkra stund með bók í annarri hendinni og kók í hinni og horfði á fólkið hlaupa undan rigningunni. Ég hálf dáleiddist við að horfa á mannstrauminn á gangstéttinni fyrir neðan og ég fann fyrir því hvernig innri ró lagðist yfir mig alla. Þegar ég var lítil talaði mamma alltaf um það hversu gott það er að vera inni, þegar óveður bylur úti og ég hef einhvern veginn alltaf tengt vont veður við notalega inniveru. Regnið hélt áfram að bylja á glugganum og þar sem mér var orðið nokkuð hlýtt og var orðin nokkuð tilbúin að takast á við regnið aftur þá lokaði ég bókinni og stóð upp. Með bros á vör setti ég fyrir mig regnhlífina og lagði aftur af stað, sátt með hversu lífið getur verið yndislegt þegar maður er með rétta viðhorfið.
Svona rétt í lokin verð ég að bæta því við að maðurinn minn gulltryggði síðan hamingju mína. Þegar ég loksins komst heim úr rigningunni þá hafði hann tekið til í öllu húsinu og þrifið baðherbergið. Siðan var allt annað í íbúðinni þrifið hátt og lágt, farið í ræktina, tómum dósum skilað, keypt í matinn, eldað, vaskað upp aftur, 4 þvottavélar þvegnar og nú situr hann og lærir.
Ég sit hérna í algjörlega glansandi fínni íbúð með bros eyrnanna á milli. Er ekki lífið gott?

mánudagur, apríl 04, 2005

Velkomin hérna megin!

Þær merku fréttir gerðust á föstudaginn að Sveinbjörgu og Gumma fæddist meybarn, hraust og fallegt barn. Okkur Jóni langar að óska þeim innilega til hamingju ásamt því að bjóða litlu stelpunni velkomna hingað hinum megin við bumbuna. Ég get ekki beðið eftir að fá að klappa henni aðeins og kynnast og ég er viss um að við eigum eftir að verða góðar vinkonur.
P.s. Pant fá að passa, liggaliggalái!

Kanínur sem fjölga sér eins og kanínur

Það er alveg yndislegt veður í Stokkhólmi og kanínur út um allt. Í gærkvöldi sáum við 12 kanínur á leiðinni heim... þær fjölga sér greinilega eins og kanínur.
Í hádeginu í dag varð ég að skjótast niðrí bæ til að erindast aðeins og mér fannst það bara gott mál því veðrið er eins og áður sagði dásamlegt. Svo á ég líka nýjan jakka, og það er alltaf gaman að spóka sig þegar maður er í nýjum fötum. Mér finnst ég voða töffaraleg í nýja jakkanum, upplifi sjálfa mig sem mun klárari en venjulega, og ég er ekki frá því að ég sé bara klárari en venjulega.
Nema hvað... þegar ég var nýbúin að hoppa út úr strætó á Odinplan þá koma tvær strákar galvaskir upp að mér og spyrja voða sakleysislega hvort þeir megi ekki spyrja mig spurninga. Þar sem ég sá að annarr þeirra var með ansi fagmannlega myndbandsupptökuvél á öxlinni þá var ég hálf efins og stamaði bara það væri kannski ekki sniðugt því ég talaði varla sænsku. Sá sem sá um mækinn horfði á mig hugsi og sagði svo: "Iss, það skiptir engu máli, þú talar fínt, þetta er líka svo einfalt og létt!". Ég sá fyrir mér einhverja fáránlega spurningu um hvað ég ætlaði að gera í sumar eða hvernig mér litist á vorið þannig að ég lét tilleiðast á endanum. Mæk-strákurinn leit yfir öxlina á sér og upptökugaurinn kinkaði kolli og gaf þumalinn upp. Hann rak svo mækinn upp í nefið á mér og sagði " Nú berast fréttir af því að Gudrun Schyman stefni á að stofna feminista-flokk í Svíþjóð, hver eru þín viðbrögð við því?" (Reynið að ímynda ykkur hvernig þessi setning hljómar á sænsku.) Ég starði bara á hann "Bíddu ha?" Augun á mér urðu eins og undirskálar og svo reiddist ég og það munaði litlu að ég svaraði "Ertu ekki að fokking grínast í mér?" Að detta í hug að spyrja illatalandi innflytjanda um eitthvað álíka... ég varð alveg kjafstopp. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að segja, og hver í ansk. er Gudrun Schyman!!! En það var einmitt það sem ég sagði... nema hvað, þeir hlógu bara og útskýrðu málið fyrir mér og fóru svo að ræða feminisma við mig. Jedúddaamía... guði sé lof fyrir eitt gott samtal um feminisma sem ég átti við Helgu Árnadóttur þegar við vorum að vinna saman á Egilsstöðum. Ég held að ég hafi náð að hljóma ágætlega gáfulega þegar ég myndaði mér neikvæða skoðun gagnvart fröken Schyman (aðallega fyrir að eiga smá sök á þessari aðstöðu sem ég var komin í) rökstuddi það að kvennaflokkar er gamaldags og úrelt 70-tals hugsun. Jafnrétti og feminismi á að eiga heima á stefnuskrá allra flokka, sérstaklega þar sem til er "hægri" og "vinstri" feminismi og því erfitt að stofna einn flokk fyrir allar konur. Þegar þarna var komið hélt ég að ég væri nokkuð vel sloppin og fengi að fara... en nei, þá ældi gaurinn upp úr sér "Hvernig er fyrirkomulagið í þínu heimalandi, er sérstakur kvennaflokkur þar? " Og ég gat svarað nei, en gat sagt frá því að það hafi verið til einn sem sameinaðist í stærri vinstriflokk og blaðraði eitthvað meira um það. Þarna hætti hann að spyrja því ég held að hann hafi séð svitaperlurnar á enninu á mér. Það hefði ekki komið mér á óvart ef hann hefði ákveðið að fara ræða um skattalækkanir á áfengi næst við mig. Þetta minnti mig helst á Gettu Betur og mér fannst ég rétt hafa verið að klára hraðaspurningarnar. Ég hálf staulaðist flissandi í burtu og gat ekki annað en velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum þeim datt í hug að ræða þetta við mig. Ég held það það hafi verið jakkinn...

P.s. Elsku Erna (fyrrum starfsmannastjórinn minn) ef þú ert að lesa þetta, ekki verða mjög móðguð yfir vankunnáttu minni á feminisma. Ég lofa að fara kynna mér þessi mál! Ég lofa!