þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Einn, tveir, þrír, einn, tveir, þrír...

Við tókum stórt skref í dag. Ja reyndar tókum við mjög mörg stór skref, sem áttu að vera aðeins minni og hefðu mátt vera liprari. Það var s.s. fyrsti tíminn í salsa í kvöld. Við skemmtum okkur bara alveg konunglega og það ótrúlega var að það voru fjórum fleiri strákar en stelpur í tímanum. Frekar óvenjulegt! Þetta voru allir byrjendur eins og við og ég held að það hafi komið öllum jafnmikið á óvart hversu erfitt er að telja upp á þremur þegar maður þarf að hlusta á tónlistina, stíga sporin, elta partnerinn eða stýra honum og passa að stíga ekki á neinar tær. "Einn, tveir, þrír, einn, tveir, þrír..."

Ég efast um að við förum að sýna einhverja takta á dansgólfinu í bráð en ég held það muni ekki taka okkur nema rétt um tíu ár að verða sýningarhæf. En það sem mikilvægast er að okkur fannst þetta rosalega gaman og er strax farið að hlakka til fyrir næsta tíma.

Fyrir utan eitt... þegar við fórum í tímann þá gengum við framhjá rottu sem var eitthvað að spóka sig nálægt íþróttahúsinu, frekar stór og pattaraleg. Hún starði beint í augun á okkur og ég get svo svarið fyrir það að hún gaf okkur fingurinn áður en hún hljóp í burtu. Greinilega "borgar-rotta" Má ég þá frekar biðja um sæta "Solna-kanínu"!

Góða nótt! Einn, tveir, þrír, einn, tveir, þrír...


1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég er viss um að þú sláir öllum við í dansinum, Elísabet, og verður farin að sýna innan skamms

09 febrúar, 2005 00:32  

Skrifa ummæli

<< Home