mánudagur, mars 31, 2008

Líf mitt sem flóðhestur

Hlutverk mitt undanfarið sem flóðhestur, hefur líklega ekki farið fram hjá fólkinu í kringum mig. Ég verð að segja að þetta er áhugaverð reynsla að miklu leyti. Fyndið að upplifa það allt í einu að líkamsímynd manns í huganum er allt önnur en raunveruleikinn. Ég hef velt nokkrum börnum um koll með því að þruma bumbunni í þau, sem betur fer eru fullorðnir aðeins stöðugari á fótunum og því erfiðari að velta þeim. Ég geri samt mitt besta og sópa bæði hlutum af borðum, treð mér í þröng bil og er sífellt að festa mig.

Um daginn var ég frekar léttklædd (mjög léttklædd) að teygja mig undir rúm eftir bókinni minni. Jón var kominn upp í rúm og var að lesa sína bók, þegar ég allt í einu uppgötva að ég er föst. Ég kom hendinni engan veginn undan rúmminu, og gat hvorki beygt mig neðar út af bumbunni né ofar. Þannig að þarna lá ég á fjórum fótum með rassinn beint út lofið, og aðra hendina teygða langt undir rúmmið. Svo veinaði ég og hló í einu, því þetta var náttla alveg einstaklega heimskuleg og óvirðuleg staða sem ég var kominn í. Jón var fljótur að stökkva til og lyfta rúmminu, og honum fannst þetta ekki nærri því eins fyndið og mér. Ég veinaði gjörsamlega úr hlátri. Núna má ég ekki beygja mig undir rúm né sófa nema Jón sé heima.

Það var svo í eitthvað annað skipti sem litli frændi hans Jóns kom hlaupandi á móti mér og ætlaði að gefa mér knús. Ég beygði mig fram og knúsaði litla gaurinn að mér og kyssti hann á kinnina. Svo rétti ég bara úr mér, greyjið barnið fékk náttla þessa þrusu bumbu beint framan í sig og flaug aftur á bak á rassinn. Þarna sat hann og horfði alveg sármóðgaður á mig. Ég flýtti mér að hjálpa honum á fætur, frekar rauð í kinnum og velti fyrir mér hversu margir af þessum 400 manns sem voru staddir þarna hefðu orðið vitni af þessu.

Já, það er gaman að vera jafn tígulegur og flóðhestur þessa dagana.

P.s. svona víst að ég er að tala um flóðhesta þá datt mér þetta í hug (reyndar nashyrningur fyrir þá sem vilja vera nákvæmir). Ég heyrði af einni sem í miðjum rembings hríðunum sprakk allt í einu úr hlátri og það var ekki hægt að ná neinu sambandi við hana því hún bara veinaði úr hlátri. Ljósan og pabbinn horfðu víst bara á hvort annað, ypptu öxlum og héldu að hún hefði bara farið alveg yfir um. Orsökin var víst þá þetta atriði úr Ace Ventura sem konan gat ekki hætt að hugsa um. Skil hana svo sem ágætlega.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Já þú ferð nú vonandi bráðum að verða léttari ;) En gott að þú sérð spaugilegu hliðina á þessu, ennþá........maður passar bara vel uppá að börnin manns séu ekki nálægt þér þangað til :-/

01 apríl, 2008 15:08  
Anonymous Nafnlaus said...

Hehehe var búin að gleyma þessu atriðið, algjör snilld:)
Sjáumst
Kv.
Vala

08 apríl, 2008 17:24  

Skrifa ummæli

<< Home