fimmtudagur, mars 30, 2006

Bara óttalegur drullupollur...

Ég fór á fund með leiðbeinandanum mínum í gær. Ég var orðið svoldið stressuð fyrir fundinn því við Malin höfðum ekki valið okkur alveg auðveldasta leiðbeinandann. Hún er reyndar fræg fyrir að vera óttalegt skass (sumir kalla hana "the bitch from hell") en hún er með hrikalega gott track record og helvíti klár, þannig að við ákváðum að velja hana. En sem betur fer þurftum við ekki að hafa miklar áhyggjur af verkefninu og var hún frekar ánægð sem komin var. Við áttum meira segja að vera öðru leveli en aðrir, apparantly þá vorum við að skrifa svo heimspekilega ritgerð (sem fór alveg framhjá mér). Hún vildi meira segja endilega fá okkur í doktorsnám til sín, sagði að ritgerðarsmíðin bæri vott um mikla "rannsókna-hæfileika" (ég held að það sé besta þýðingin). En kellingin gat að sjálfsögðu ekki látið það fréttast að hún væri byrjuð að linast í attitjúdinu þannig að hún endaði samtalið á að spyrja hvað í ósköpunum ég ætlaði mér með því að flytjast aftur til Íslands, "hva, ætlarðu að keyra upp og niður þessa eina verslunargötu í RVK, með öllum hinum Íslendingunum?". Ég hló nú bara og útskýrði að launin væri nú svo miklu hærri þar en hér og þá svaraði hún "Ja, það er ekki skrýtið, þið vinnið eins og vitleysingar! Enda svo sem ekkert annað að gera á Íslandi, nema vinna og drekka vodka!". Malin stóð þarna með opin munninn og hún var svo hneyksluð að hún átti ekki til orð. Fór meira segja eitthvað að malda í móinn fyrir Íslendinga og fór að tala um fjallaferðir og fallegt landslag. Þá svaraði grýlan "iss, ég fór nú í þetta Bláa Lón og mér fannst það nú bara óttalegur drullupollur!" Svo klykkti hún í endann með "og umhverfið í kringum það er nú bara eins og á meðal öskuhaugum." Svo hló hún hrossahlátri og smellti á hnéð á sér. Jæja, ég glotti nú bara að henni og móðgaðist ekkert þannig séð. Það hafa allir sína skoðun og skiljanlegt ef íslenska náttúran heillar ekki alla þó að við hin hreinlega dáum hana. Ég er sátt svo lengi sem grýlan elskar verkefnið þó hún elski ekki Ísland. En eins og tengdó benti réttilega á að þá er fínt að fólk er ekki eins ástfangið af landinu eins og við Íslendingar, því að þá myndum við sitja uppi með svona skass.

P.s. Malin er ennþá mjög móðguð fyrir Íslendinga hönd og á langt í land með að fyrirgefa leiðbeinandanum

mánudagur, mars 27, 2006

Skúra, skrúbba, bóna!

Jisssúss hvað mér finnst ég hafa verið dugleg í dag! Vann í lokaverkefninu til fjögur, tók svo til í húsinu, viðraði Jón, þreif (húsið, ekki Jón), eldaði pestó kjúlla, fór með dósir og toppa nú allt með því að nenna blogga!

P.s. veðurspáin segir að vorið eigi að koma í vikunni.

Vorið er komið og grundirnar gróa, gilið og lækirnir...

Tvær sannanir fyrir því!
a) Getið hver sólbrann í dag!
b) Við erum komin á sumartíma. Þegar kl. er tíu á Íslandi er hún tólf hér.

laugardagur, mars 25, 2006

Gula Sidornar på väg!

Dagurinn í dag fór í að anda að sér útblæstri bíla, safna örfáum freknum og dreifa Gulu Síðunum í vasa-stærð. Ég, Kolla og Dagný vorum að vinna í verkefni sem Markaðsakademían tók að sér og felst það í því að standa í fallega gulum vinnugalla og dreifa þessari bók í verslunarkjörnum Stokkhólmar. Þetta var bara ekkert svo slæmt þegar Raggi og Heiðrún kíktu á okkur þá urðu þau eiginlega bara fyrir vonbrigðum að við skyldum ekki vera í kjánalegri galla. Ég upplifði mig samt alveg eins og páskaunga, þarna á miðju hringtorgi, veifandi gulu síðunum!

Ég fékk Dagný til að byrja syngja (kannski var það afleiðingar útblástursins) og vorum við aðeins að fíflast. Öskruðum orð yfir götuna og hin varð að finna lag sem hafði orðið í. Það mátti þýðast á hvaða tungumáli sem var. Var bara nokkuð skemmtilegt, við fórum svo í það að þýða lög yfir á önnur tungumál og hinn átti svo að komast að því hvaða lag þetta væri. Dagurinn á morgun verður líklega svipaður og ég vona að það verði jafn mikil sól og það var í dag.

En að lokum fyrir ykkur þarna úti, hvaða lag er þetta?

"Í mínum myrkustu stundum, stendur hún fyrir framan mig.
Mælir vísdómsorð, látum það vera!"

fimmtudagur, mars 23, 2006

Að draga höfuðið út úr rassinum!

Jæja nú er ég pirruð! Hvenær ætla Íslendingar að hætta sleikja rassinn á Dönum og horfa svona upp til þeirra eins og ástfangnir unglingstrákar til vinsælu stelpunnar í bekknum, sem vill svo ekkert með þá hafa. Í hundruði ára hafa Íslendingar mænt upp til þeirra og fundist allt fínt og flott sem Daninn segir eða gerir. Þetta væri allt gott og blessað ef Daninn endurgeldi þessar tilfinningar landans. En svo er nú aldeilis ekki og kemur það einna gleggst í ljós þessa síðustu daga þegar danskir bankar hafa möguleikan að skjóta á íslenskt efnahagslíf (líklegri með þá von í hjarta að koma höggi á Íslendinga) Það hefur nú líka heldur betur farið í taugarnar á þeim þessi kaup Íslendinga í Danmörku, enda hafa Íslendingar aldrei þótt fínn pappír í Danmörku, frekar en Grænlendingar og Færeyingar.
Og hvað er með þetta snobb fyrir Köben og þessa rómantísku ímynd sem Köben hefur í hugum Íslendinga? Borgin var hérna í denn höfuðborg Íslendinga og var sjálfsagt afar glæsileg þá. En síðan eru liðin mörg ár og ef fólk opnar augun virkilega fyrir því þá má Köben aldeilis sjá fífil sinn fegri og er hreinlega orðin að skítugri borg þar sem strætin eru full af rónum, dópistum... og þá hef ég ekki einu sinni byrjað á bullinu í innflytjendamálunum þeirra... og hananú!!!

miðvikudagur, mars 22, 2006

Eurovision brjálæðið

Við erum búin að vera að fylgjast spennt með Evróvísjón hérna úti í Svíþjóð. Get ekki sagt að einhver keppandanna hér hafi átt séns í sjóið hennar Silvíu nætur. Hinsvegar lítur allt út fyrir að hún þurfi að vinna duglega fyrir því að komast upp úr undankeppninni. Ég rakst á framlag Finna í Eurovision ....

mánudagur, mars 13, 2006

Vorfílingur, eller hur?

Og þar með lauk þessari prófatörn. Jón kláraði sitt síðasta próf á þessari prófatörn í dag. Nánar tiltekið kl:19.00 eftir 5 tíma próf. Nú er mér spurn, hvaða hálfviti skipuleggur 5 klst próf milli kl:14-19 á daginn? Jaaa eða hvaða manni dettur í hug að hafa 5 klst próf yfir höfuð. Hvaða þekkingu halda þeir að þeir nái að mjólka úr höfðinu á manni á 5 klst sem þeir geta ekki gert á 3 klst?

Við fórum niður í bæ og borðuðum kvöldmat með Kollu. Það fer eiginlega að vera siður hjá okkur að borða með Kollu eftir prófin. Svo kíkti hún með okkur heim og við tvær létum fara vel um okkur og drukkum rauðvín og gláptum á Brokeback Mountain (...ekki á spænsku). Við Jón áttum nefnilega leifar af rauðvíni síðan í gær. Ég er nefnilega búin að vera í svo rosalegum vorfíling um helgina. T.d. á föstudaginn fór ég og keypti bæði túlípana og páskaliljur og er núna að dunda mér við að murka úr þeim lífið með því að annaðhvort vökva þau of mikið eða lítið. Ég keypti líka lambasteik fyrir okkur og marineraði hana í rosa sumarlegri mareneringu. Grillaði hana svo á fínu "anti-brand" pönnunni okkar, kryddbrúnaði kartöflur og bauð upp á rauðvín með. Nammi,namm rosa vor fílingur hjá okkur, með hálfdauðin blómin sem skraut. Já, ég var hreinlega svo hress að ég keypti heila belju af rauðvíni. Úff hvað það verður næs að geta fengið sér glas og glas...
Án gríns þá var ég í svo miklum vorfíling að ég íhugaði alvarlega að kaupa mér sumarsandala á laugardag. En svo tók ég þá af mér, hristi hausinn yfir sjálfri mér, setti á mig vettlingana og labbaði heim í 15°frostinu.

"Og þarna stóð hún og starði undrunaraugum á tölvuna og velti sjálfsagt fyrir sér hvort hún ætti að bjóða henni snýtibréf!"

Ég var á fundi í morgun með masters-hópnum og handleiðaranum (mín íslenska útgáfa af orðinu handledare=leiðbeinandi) mínum. En þar sem að Malin var stödd í Frakklandi þá sáum við fram á að hún myndi missa af þessum fundi, en eins og svo oft áður þá bjargaði tæknin okkur. Þegar fólkið kom sér fyrir á fundinum þá hringdi ég í Malin á Skype og hún sat fyrir framan tölvuna hans Chris (kærastinn hennar) og fylgdist með þannig. Alveg er Skype þvílík snilld. Þið hefðuð samt átt að sjá andlitið á kennaranum þegar hún var að tala yfir hópinn og tölvan mín fór að hósta, sjúga upp í nefið á sér og snýta sér. Hún (virðuleg kona um sextugt), starði á mig og tölvuna á víxl og var greinilega að vega og meta hvort þetta væri einhver hallæris-hrekkur. Greyi Malin hafði þá kvefast svona hrikalega í skíðaferðinni sinni og gerði sér engan veginn grein fyrir því að hreppstjórasnýturnar hennar glumdu yfir fundarherbergið. Ég var orðin rauð í framan við að halda ofan í mér hlátrinum, sérstaklega þar sem að Malin er einstaklega fín og pen kona sem kann sko sína mannasiði vel. Ég gat samt ekki þagað lengur eftir augngotur kennarans og benti á tölvuna og sagði "Malin í Frakklandi!". Svo hvíslaði ég að tölvunni og sagði "Malin, segðu hæ!".
Eftir fundinn varð kennarinn síðan að skoða hjá mér þetta fyrirbæri og fannst það alveg magnað! Ég verð samt að taka það fram að mér tókst að slökkva á hljóðinu á Malin undir rest, en þó þannig að hún hélt áfram að heyra í okkur.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Já, próflesturinn fer svo sannarlega misvel í fólk.



Og nú vitið þið afhverju er talað um "Pirates" eða sjóræningja á netinu!

mánudagur, mars 06, 2006

Löggur og bófar

Við Jón vorum á leiðinni heim eftir kvöldmat, með Gary og Emilio vinum Jóns, þá tókum við eftir eitthvað af löggubílum fyrir utan lestarstöðina hjá okkur. Svo var ein löggan inn í sætu búðinni okkar og var að setja upp svona "crime scene" borða. Ég kíkti á netið og fann þessa grein. Alveg er svona lagað óþolandi, sérstaklega þegar þetta er að gerast rétt við útidyrahurðina hjá manni.
Kv,
Elísabet
P.s. það er próflestur á heimilinu og veðurspáin fyrir næstu tvo daga er -15°. Við stefnum á að halda okkur inni.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Flatur pakki og sexkantur?

Ég hef átt Ikea sófa, Ikea skápa, Ikea diska, Ikea glös, Ikea bolla, Ikea stóla, Ikea borð, Ikea hillur, Ikea skrifborð, Ikea lampa, Ikea ljós, Ikea kerti, Ikea ramma, Ikea gardínur, Ikea skálar, Ikea allt og Ikea ekkert.
Það sem ég er að velta fyrir mér nú er hvort þessi nýja vara frá Ikea komi í flötum pökkum og með sex-kant?

Elska, dýrka og dái

Bara svo þið vitið það þá elska ég masters-verkefnið mitt. Mér finnst það SVO skemmtilegt. Elska það, dýrka það og dái! Ég er að nota tækifærið og segja ykkur það núna, áður en ég byrja að hata það.