mánudagur, apríl 04, 2005

Kanínur sem fjölga sér eins og kanínur

Það er alveg yndislegt veður í Stokkhólmi og kanínur út um allt. Í gærkvöldi sáum við 12 kanínur á leiðinni heim... þær fjölga sér greinilega eins og kanínur.
Í hádeginu í dag varð ég að skjótast niðrí bæ til að erindast aðeins og mér fannst það bara gott mál því veðrið er eins og áður sagði dásamlegt. Svo á ég líka nýjan jakka, og það er alltaf gaman að spóka sig þegar maður er í nýjum fötum. Mér finnst ég voða töffaraleg í nýja jakkanum, upplifi sjálfa mig sem mun klárari en venjulega, og ég er ekki frá því að ég sé bara klárari en venjulega.
Nema hvað... þegar ég var nýbúin að hoppa út úr strætó á Odinplan þá koma tvær strákar galvaskir upp að mér og spyrja voða sakleysislega hvort þeir megi ekki spyrja mig spurninga. Þar sem ég sá að annarr þeirra var með ansi fagmannlega myndbandsupptökuvél á öxlinni þá var ég hálf efins og stamaði bara það væri kannski ekki sniðugt því ég talaði varla sænsku. Sá sem sá um mækinn horfði á mig hugsi og sagði svo: "Iss, það skiptir engu máli, þú talar fínt, þetta er líka svo einfalt og létt!". Ég sá fyrir mér einhverja fáránlega spurningu um hvað ég ætlaði að gera í sumar eða hvernig mér litist á vorið þannig að ég lét tilleiðast á endanum. Mæk-strákurinn leit yfir öxlina á sér og upptökugaurinn kinkaði kolli og gaf þumalinn upp. Hann rak svo mækinn upp í nefið á mér og sagði " Nú berast fréttir af því að Gudrun Schyman stefni á að stofna feminista-flokk í Svíþjóð, hver eru þín viðbrögð við því?" (Reynið að ímynda ykkur hvernig þessi setning hljómar á sænsku.) Ég starði bara á hann "Bíddu ha?" Augun á mér urðu eins og undirskálar og svo reiddist ég og það munaði litlu að ég svaraði "Ertu ekki að fokking grínast í mér?" Að detta í hug að spyrja illatalandi innflytjanda um eitthvað álíka... ég varð alveg kjafstopp. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að segja, og hver í ansk. er Gudrun Schyman!!! En það var einmitt það sem ég sagði... nema hvað, þeir hlógu bara og útskýrðu málið fyrir mér og fóru svo að ræða feminisma við mig. Jedúddaamía... guði sé lof fyrir eitt gott samtal um feminisma sem ég átti við Helgu Árnadóttur þegar við vorum að vinna saman á Egilsstöðum. Ég held að ég hafi náð að hljóma ágætlega gáfulega þegar ég myndaði mér neikvæða skoðun gagnvart fröken Schyman (aðallega fyrir að eiga smá sök á þessari aðstöðu sem ég var komin í) rökstuddi það að kvennaflokkar er gamaldags og úrelt 70-tals hugsun. Jafnrétti og feminismi á að eiga heima á stefnuskrá allra flokka, sérstaklega þar sem til er "hægri" og "vinstri" feminismi og því erfitt að stofna einn flokk fyrir allar konur. Þegar þarna var komið hélt ég að ég væri nokkuð vel sloppin og fengi að fara... en nei, þá ældi gaurinn upp úr sér "Hvernig er fyrirkomulagið í þínu heimalandi, er sérstakur kvennaflokkur þar? " Og ég gat svarað nei, en gat sagt frá því að það hafi verið til einn sem sameinaðist í stærri vinstriflokk og blaðraði eitthvað meira um það. Þarna hætti hann að spyrja því ég held að hann hafi séð svitaperlurnar á enninu á mér. Það hefði ekki komið mér á óvart ef hann hefði ákveðið að fara ræða um skattalækkanir á áfengi næst við mig. Þetta minnti mig helst á Gettu Betur og mér fannst ég rétt hafa verið að klára hraðaspurningarnar. Ég hálf staulaðist flissandi í burtu og gat ekki annað en velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum þeim datt í hug að ræða þetta við mig. Ég held það það hafi verið jakkinn...

P.s. Elsku Erna (fyrrum starfsmannastjórinn minn) ef þú ert að lesa þetta, ekki verða mjög móðguð yfir vankunnáttu minni á feminisma. Ég lofa að fara kynna mér þessi mál! Ég lofa!

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Vá hvað ég skil hvernig þér leið..ég lenti einmitt í svipuðum aðstæðum í dag en ég þóttist ekkert skilja spyrilinn og sem betur fer kunni hún ekki ensku svo ég slapp vel;)

05 apríl, 2005 17:27  

Skrifa ummæli

<< Home