Rómantík í allra kvikinda líki
Bloggið er búið að vera hálfbilað og því kemur núna póstur sem ég skrifaði síðasta fimmtudag. Betra er seint en aldrei!
Mér hefur ekkert liðið alltof vel síðustu daga. Ég er búin að vera hálfveik í bakinu og með í maganum síðan fyrir helgi. Í gær var síðan algjör botn áþessu volæði hjá mér. Ég vaknaði og ætlaði engann veginn að komast fram úr rúmminu og ég ákvað strax að þetta væri ömurlegur, ömurlegur dagur. Lífið var bara ofsalega leiðinlegt og fúlt. Ef Jón hefði ekki dregið mig fram úr þá hefði ég legið þar vel fram yfir hádegi. Bekkurinn ætlaði að fara út að borða um kvöldið en þar sem að ég átti svona ömurlegan dag, sagðist ég vera veik og kæmist ekki með. Ég skreið heim og upp í sófa og bað Jón með vesældarlegri röddu hvort hann væri til í að hugsa svoldið um mig í kvöld og gefa mér verkjatöflu. Mér fannst ég eiga alveg ferlega bágt. (Svona skap í mér má yfirleitt skýra með næringarleysi og þar sem ég hef verið ferlega lystarlaus út af magaveseninu er það líklega skýringin núna.)
Jón ákvað að gera tilraun til að lækna mig og bauð mér því uppá uppáhald til fá mig til að borða eitthvað... og jú, haldið að hann hafi ekki dregið upp ekta íslenskar SS pulsur með öllu nema hráum. Það þarf ekki að spyrja að því, ég át á mig gat. Þessi maður er algjört gull!
Í framhaldi af góðu pylsuáti/pulsuáti vaknaði ég í miklu betra skapi í morgun. Ég var samferða (ofboðslega spíralyktandi) bekkjarfélögum í skólann og fannst það bara ferlega fyndið. Í hádeginu fór ég yfir á aðalsvæði Háskólans og beið eftir strætó í 20 mín í grenjandi rigningu og kulda. En ég var bara nokkuð ánægð því ég hafði munað eftir regnhlífinni minni um morguninn. Þegar inn á háskólasvæðið var komið gekk ég skjálfandi og með glamrandi tennur inn á tyrkjabúllu og afgreiðslumanninn spurði mig með áhyggjutón í röddinni hvort mér væri kalt. Mig grunar að þarna hafi ég verið orðin hálfblá í framan. Ég settist niður í eitt hornið í búllunni og sterk steikingarlyktin af frönskunum vakti hjá mér hálfgerða heimþrá eftir pulsuvagninum heima. Merkilegt hvernir rómantíkin getur hellst yfir mann, jafnvel inn á subbulegri tyrkjabúllu. Eftir að hafa borðað kebabið mitt, sat ég þarna í nokkra stund með bók í annarri hendinni og kók í hinni og horfði á fólkið hlaupa undan rigningunni. Ég hálf dáleiddist við að horfa á mannstrauminn á gangstéttinni fyrir neðan og ég fann fyrir því hvernig innri ró lagðist yfir mig alla. Þegar ég var lítil talaði mamma alltaf um það hversu gott það er að vera inni, þegar óveður bylur úti og ég hef einhvern veginn alltaf tengt vont veður við notalega inniveru. Regnið hélt áfram að bylja á glugganum og þar sem mér var orðið nokkuð hlýtt og var orðin nokkuð tilbúin að takast á við regnið aftur þá lokaði ég bókinni og stóð upp. Með bros á vör setti ég fyrir mig regnhlífina og lagði aftur af stað, sátt með hversu lífið getur verið yndislegt þegar maður er með rétta viðhorfið.
Svona rétt í lokin verð ég að bæta því við að maðurinn minn gulltryggði síðan hamingju mína. Þegar ég loksins komst heim úr rigningunni þá hafði hann tekið til í öllu húsinu og þrifið baðherbergið. Siðan var allt annað í íbúðinni þrifið hátt og lágt, farið í ræktina, tómum dósum skilað, keypt í matinn, eldað, vaskað upp aftur, 4 þvottavélar þvegnar og nú situr hann og lærir. Ég sit hérna í algjörlega glansandi fínni íbúð með bros eyrnanna á milli. Er ekki lífið gott?
1 Comments:
Ji hvað þú ert heppin kona :)
Skrifa ummæli
<< Home