sunnudagur, október 30, 2005

...draumur sem sótti á!

Fyrir nokkrum vikum dreymdi mig svo hrikalega raunverulegan draum. Þetta var einn af þessum draumum sem sækir á mann allan daginn. Hann fór ekki úr hausnum á mér og ég hafði mikla þörf fyrir að heyra í þessari konu sem mig dreymdi. En það er kannski ekki eðlilegast í heimi að hringja frá Svíþjóð og "Hæ elskan, long time no see, en ég get bara hreinlega ekki sofnað ef ég spyr þig ekki!". Ég gafst að lokum upp fyrir sjálfri mér og ákvað að hringja og spyrja hreint út hvort það gæti nú staðist að hún væri ólétt. Mig dreymdi sem sagt svona rosalega skýrt að það væri barn á leiðinni. Nema hvað, manneskjan bæði hálf-hikstaði og flissaði yfir þessari vitleysu í mér. Hún var þó furðulega forvitin um drauminn sjálfan, en nei... þetta stemmdi engan veginn og ekkert svoleiðis í gangi.

Í dag bárust fréttirnar, hún er sett um miðjan Maí.

Tímavél

Hversu brillíant er það að vakna upp með móral yfir því að hafa sofið allt of lengi, en fatta svo að það sé búið seinka klukkunni um klukkutíma! Snilld!

fimmtudagur, október 27, 2005

Ég og allar hinar..

Ég man hversu stolt og hrærð ég var þegar ég sá að hann Jón Hallur vinur minn hafði fengið félaga sína í Eve-Online til að kalla fyrstu útgáfuna í höfuðið á mér. Hann sagði mér að hann hafi barist mikið fyrir því og á endanum fékk hann sitt fram og nafna mín leit dagsljósið. Þetta tók víst á og hann skapaði sér ekki miklar vinsældir innan fyrirtækisins, en hann stóð fastur fyrir og náði sínu markmiði. Hann sagði mér að fyrir sér að það hafi aldrei neitt annað komið til greina en að leikurinn yrði nefndur í höfuðið á mér. Mér fannst þó mikil mistök hjá þeim að taka mitt nafn út á endanum og nota kvenmannsnafnið Eva í staðinn.
Það sama fór að gerast þegar ég var að vinna í Hug. Hinir og þessir vinnufélagar áttu það til upp úr þurru að nefna verk sín eftir mér, og ég er ekki frá því að maður hafi orðið hálf hrærður á tímabilum. Merkilegt hvað maður virðist geta snert fólk mikið!
Þetta trend hefur þó greinilega skotið rótum í íslensku þjóðfélagi og hefur nú teygt anga sína út fyrir landsteinana. Ég vona þó að nýjasta nafna mín muni haga sér vel og ekki skapa slæmt umtal, þó við báðar vitum svo sem vel að slæmt umtal sé betra en ekkert.

mánudagur, október 24, 2005

Kæra til Amnesty

Mikið var ég montin af öllum konunum heima á Íslandi. Hefði ekkert haft á móti því að vera með. Ég er meira segja að spá í að koma út úr skápnum sem feministi, svona í tilefni dagsins.
Það er samt annað sem liggur mér líka á hjarta. Á föstudaginn fékk ég þær fréttir að einkunnirnar úr Vísindaheimspekinni væru komnar. Því miður voru niðurstöðurnar ekki glæsilegar. Það voru einungis 5 sem náðu úr öllum bekknum! Krapp...
Ég tékkaði á listanum uppfrá og mitt nafn var ekki á listanum og það vantaði nokkra úr bekknum á listan. Bosse kennarinn minn gaf mér þá útskýringu að ég hefði líklega fallið og því hefði nafnið mitt ekki farið á listan. Great!!! Ég var svo sem ekkert svo hissa, þessi kúrs var ekkert grín og ég vissi að ég var í fallhættu. Fyrsta fallið mitt... ever! Jæja, ef maður þarf að tapa, þá var ég svo sem alveg sátt við að tapa fyrir vísindaheimspeki á sænsku.
Upptökuprófið er svo þann 18. nóv frá kl:18-22. Hvað á það að þýða??? Próf á föstudagskvöldi milli kl:18-22.... halllllóóó!!! Hver gerir fólki solleis? Er verið viljandi að pynta fólk sem fellur í prófum? Það á að kæra svona lagað til Amnesty!
Í tímanum í morgun var svo mikið rætt um þetta próf . Fólk var engan veginn sátt með að öll nöfnin voru ekki á listanum osfrv. Þá tók Fredric það upp hjá sér að hringja í kennarann sem fór yfir prófið. Hann spurði um nöfnin á öllum í bekknum til að fá að vita hverjir stóðust og hverjir ekki. Ég plataði hann til að spyrja fyrir mig líka... held hann hafi ætlað að sleppa því fyrst. Held hann hafi ekki lagt í að bera fram Grétarsdóttir. Eníhú... getið hvað... Fredric spyr kennarann um ungfrú Grétarsdóttir. Kennarinn svarar honum einhverju, Fredric snýr sér svo við, brosir til mín , kinkar kolli og gefur mér svo þumalinn upp!!! What!!! Haldið að ég hafi þá ekki bara náð helvítis prófinu! Núna er ég sko að springa úr monti.

sunnudagur, október 23, 2005

Íslenskur söng-arfur

Ég var að velta fyrir mér íslenskum söng-arf núna um daginn eftir að ég var á tónleikum með Vox feminie. Brillíant tónleikar í alla staði, verð ég að segja.
Eftir tónleikana fór ég að velta fyrir mér hvernig maður ætti að útskýra frægu lögin okkar fyrir útlendingum. T.d. Vísur Vatnsenda Rósu... einstaklega fallegar vísur nema það að það kemur ekki vel út að segja " well, she loved him a lot but now she wishes that they never met." Og hvað þá Sofðu Unga Ástin Mín : "Well the young mother is putting her baby to sleep before she throws it into the waterfall because it will never survive the hard winter " Og að lokum Móðir Mín í Kví, Kví:" Well the young woman killed her baby some years before, and now the baby's gost is haunting its own mother, and drives her to insanity!".

Yndislega falleg lög, en mikið ofsalega var íslenska þjóðarsálin þunglynd.
Man einhver eftir hressum og kátum gömlum íslenskum þjóðlegum, þar sem ekki kemur eymd og volæði fyrir í???

Bæði fúlt og asnalegt

Eitt búið, eitt eftir. Jón fór í próf á föstudaginn og gekk víst bara ágætlega. Síðan tók við Numeriskar Metoder (... ekki spyrja hvað það er!). Ég hins vegar ætlaði að vera svo dugleg að læra, nema hvað, ég komst að því mér til mikillar mæðu að það er víst ekki nóg að ákveða það bara. Maður þarf víst líka að opna skólabækurnar og lesa þær. Frekar fúlt og bara asnalegt, ef þið spyrjið mig!
Svo fór ég í bandí í dag með hinum stelpunum. Jón varð eftir heima vegna próflesturs. Ég, Dagný og Rósa skelltum okkur svo á eina tyrkjapizzu á eftir... það var voða gott. Við ákváðum að vera hagsýnar húsmæður og keyptum saman fjölskyldupizzu (ódýrara). Nema hvað... kom ekki fram þessi allra stærsta pizza sem ég hef séð. Gaurinn var s.s. ekkert að djóka þegar hann baðaði út höndunum þegar ég spurði hann hversu stór fjölskyldupizzan væri. Merkilegt nokk... hún rann samt öll léttilega ofan í okkur. Mikið vekur svona bandí upp hjá manni matarlystina.

Nágranni fuglaflensa

Mikið finnst mér þessi fuglaflensa óhugnaleg. Sérstaklega ef hún ætlar að fara gerast nágranni okkar. http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1164888

fimmtudagur, október 20, 2005

myndir, einhver?

Ég hef verið að frétta það úr hinum og þessum áttum að það sé greinilega gaman hjá okkur Jóni í Stokkhólmi. Við erum núna loksins búin að finna ástæðuna fyrir þessum skotum á okkur. Ekki það að það sé ekki gaman, við héldum bara að við hefðum eytt öllum verksummerkjum. Þið getið séð sönnunargögnin hér og hér. Mæli sérstaklega með síðustu myndunum á seinni linknum.

Dredda-bartar

Það er próf í fyrramálið hjá Jóni. Teknik och ekosystem, einstaklega áhugaverður kúrs um sænska umhverfisstaðla og umhverfisreglugerðir evrópusambandsins. Það hreinlega hlakkar í Jóni þessa dagana, honum finnst þetta svo æðislegt efni. Eða ekki...
Annars var MA middagen í gærkvöldi. Það er hálfgerð árshátíð hjá Markaðsakademíunni. Það var bara nokkuð mikið fjör og ég er ekki frá því að ég hafi fengið mér fullmikið í aðra tánna. Held hreinlega að ég hafi ekki orðið svona drukkin síðan... síðan... ja alla veganna fyrir löngu, löngu síðan. Maður er orðin svo dannaður í seinni tíð. Jæja, ég er þá alla veganna orðinn fullgildur bónófæd stúdent.
Morgundagurinn er planaður í að vaska upp hrúguna sem hefur safnast upp hjá okkur í eldhúsinu. Það fer að styttast í að mar byrji að drekka úr blómavösunum. Svo gerum við vonandi eitthvað krúttlegt saman eftir prófið á morgun. Kannski skellum við Jóni í klippingu, hann er orðin svo loðin um hausinn að bartarnir minna mann helst á bartana á Oddi, pabba hennar Ástu frænku, þeas á myndum frá sjöunda áratugnum. Svo tók Jón upp þann skemmtilega kæk að snúa upp á þá meðan hann er að læra þannig að reglulega lítur hann upp með þessa fáránlegu dredda-barta og maður getur engan veginn einbeitt sér að því hvað hann er að segja.
Jæja, góða nótt og dreymi ykkur vel.

Btw... ef einhver hefur áhyggjur af því að íbúðin okkar er köld þá er það óþarfi. Það er voða hlýtt hjá okkur, hinsvegar er erfitt að losna við hrollinn því það er svo kalt úti.

þriðjudagur, október 18, 2005

Þá kom veturinn

Veturinn kom á sunnudag. Eins greinilega eins og haustið kom, þá þrammaði veturinn inn í borgina og settist að. Það var skítkalt og þetta var sú tegund að kulda sem nístir alveg inn að beini. Einmitt þennan dag völdum við Jón til að fara í labbitúr í Hagapark til að ná haustlitunum áður en þeir hverfa. Við héldum af stað með lestinni niður á Odenplan og gengum þaðan upp eftir. Garðurinn er alveg dásamlegur eins og er og sumstaðar veður maður gulnuð lauf upp á kálfa. Krakkarnir í garðinum léku sér í laufinu eins og það væri snjór og hlupu um og köstuðu laufhrúgum á hvort annað. Greinilega mikið stuð. Ég og Jón létum það þó vera og ákváðum að skella okkur í Fiðrildahúsið þegar kuldaboli var byrjaður að bíta full fast. Það var bara nokkuð skemmtilegt, sum fiðrildin voru með hátt í 20 cm vænghaf. Og þarna flugu þau í kringum hausin á okkur... og hversu týpískt var að myndavélin skildi fyllast af móðu og vera ónothæf akkúrat á svona augnabliki. En þá höfum við bara afsökun til að fara aftur.
Á leiðinni heim var síðan komið við í Solna Centrum og keypt vöfflujárn. Afgangurinn af deginum fór síðan í vöffluát og svo skriðum við upp í sófa, flækt saman með teppi ofan á okkur og ætluðum að vera dugleg að læra og hlýja okkur í leiðinni (það var nefnilega hrollur í manni langt fram eftir degi). ... Við rönkuðum næst við okkur um kvöldmatarleytið.

laugardagur, október 15, 2005

Haust í Stokkhólmi

Haustið er svo fallegt í Stokkhólmi. Þúsundir trjáa í öllum litum regnbogans, ohhh þetta er dásamlegt. Mér finnst haustin alltaf svo rómantískur tími. Maður byrjar að kveikja á kertum og hafa það kósí heima. Við bíðum samt svoldið spennt eftir vetrinum, fyrsta snjónum og svona. Jón á líka svo fína úlpu sem hann þarf að fá að prófa.

Annars var afmælið okkar frekar kósí. Jón var í skólanum allan daginn og ég var í fríi. Um leið og hann fór í skólann stökk ég af stað að undirbúa kvöldið. Þegar hann kom svo heim um áttaleytið um kvöldið, þá beið hans blómaskreytt íbúð, upplýst með kertum (ekki nema 34 stk) og uppdúkað borð með nýjum diskum og glösum og alles. Hann gjörsamlega missti andlitið... sem gerist ekki oft hjá Jóni. Svo fengum við okkur kampavín og skáluðum. Í matinn var svo ótrúlega gott sushi sem ég hafði náð í af alveg frábærum stað niðrá Kungsholmen. Ég vissi að ég væri að taka smá áhættu, því Jón hafði aldrei borðað slíkt áður en sem betur fer sló það í gegn hjá honum. Við eigum örugglega eftir að fá okkur aftur, núna eigum við líka réttu diskana og skálarnar. Kvöldið var alveg meiriháttar.

Takk fyrir allar góðu kveðjurnar!

fimmtudagur, október 06, 2005

...takk

“Þegar ég segi þér að ég elska þig,

þá finnst mér eins og ég haldi á skeið af vatni

og eigi að reyna útskýra hvað hafið er.”


...já, síðan er liðin mörg ár og enn finn ég ekkert sem á betur við. Hafið hefur reyndar dýpkað og öldurnar hafa stækkað og alltaf er jafn erfitt að koma orðum af því sem manni í hjarta býr.


Til hamingju með 10 árin okkar saman!