þriðjudagur, október 18, 2005

Þá kom veturinn

Veturinn kom á sunnudag. Eins greinilega eins og haustið kom, þá þrammaði veturinn inn í borgina og settist að. Það var skítkalt og þetta var sú tegund að kulda sem nístir alveg inn að beini. Einmitt þennan dag völdum við Jón til að fara í labbitúr í Hagapark til að ná haustlitunum áður en þeir hverfa. Við héldum af stað með lestinni niður á Odenplan og gengum þaðan upp eftir. Garðurinn er alveg dásamlegur eins og er og sumstaðar veður maður gulnuð lauf upp á kálfa. Krakkarnir í garðinum léku sér í laufinu eins og það væri snjór og hlupu um og köstuðu laufhrúgum á hvort annað. Greinilega mikið stuð. Ég og Jón létum það þó vera og ákváðum að skella okkur í Fiðrildahúsið þegar kuldaboli var byrjaður að bíta full fast. Það var bara nokkuð skemmtilegt, sum fiðrildin voru með hátt í 20 cm vænghaf. Og þarna flugu þau í kringum hausin á okkur... og hversu týpískt var að myndavélin skildi fyllast af móðu og vera ónothæf akkúrat á svona augnabliki. En þá höfum við bara afsökun til að fara aftur.
Á leiðinni heim var síðan komið við í Solna Centrum og keypt vöfflujárn. Afgangurinn af deginum fór síðan í vöffluát og svo skriðum við upp í sófa, flækt saman með teppi ofan á okkur og ætluðum að vera dugleg að læra og hlýja okkur í leiðinni (það var nefnilega hrollur í manni langt fram eftir degi). ... Við rönkuðum næst við okkur um kvöldmatarleytið.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Æ en notalegt - sweet dreams
Hrafnhildur t/mom

19 október, 2005 15:38  
Anonymous Nafnlaus said...

Mikið hefði ég viljað vera þarna með ykkur að skoða haustlitina, þeir eru alltaf fallegir og sérstaklega í Stockholm.

Ef þið leigið íbúðina með rafmagni þá bara kveikja á bakarofninum og leyfa hitanum að flæða um íbúðina, við gerðum þetta ansi oft á sínum tíma. En það ætti alla vega að vera búið að hleypa hitanum á hjá ykkur núna.

Við erum með Ísold hjá okkur núna þar sem vetrarfrí er í Köben og njótum þess að hafa hana hjá okkur.

Bestu kveðjur til ykkar og biðjum að heilsa Svíunum;)

Hafdís og Óli

20 október, 2005 01:50  
Blogger Magdalena said...

Notaði ofnatrykkið í Skövde, það virkar ;)

20 október, 2005 21:33  

Skrifa ummæli

<< Home