mánudagur, janúar 30, 2006

Allir krakkarnir...

Svona í framhaldi af nostalgíutrippinu í gær þá var ég að rifja upp í sturtu í dag "allir krakkarnir" brandarana. Munið þið eftir þeim? Þetta var æði sem gekk þegar ég var, hmmm...held ég, í áttunda bekk. Var alveg rosalega fyndir... eða solleis.
Hér læt ég einn flakka...

Allir krakkarnir veifuðu, nema Gvendur.
Hann hafði engar hendur... múhahahaha!

Skora á ykkur að koma með nokkra í kommentin. Ég luma ennþá á mínum uppáhalds...

Múhameð, fjallið og steikin

Ég var svo uppnumin í gær yfir litla frænda og gleymdi mér svo mikið í nostalgíunni að ég sagði ekkert frá göngutúrnum okkar. Við fórum í alveg rosa göngutúr á sunnudaginn, alveg óvart. Löbbuðum hérna niður að vatni, og ákváðum svo að kíkja aðeins í áttina að Fridhemsplan. Áður en við vissum vorum við komin að St. Eriksplani sem er talsvert austar og nær miðbænum. Þá var tekin stefnan á Odenplan og svo að Tekniska. Þaðan löbbuðum við upp að Kräftriket þar sem ég er í skóla. Þegar þangað kom, þá sáum við að Brunnsviken (vatnið) var alveg lagt og mikið af fólki á skautum,skíðum og að labba. Við skelltum okkur út á og ákváðum að rölta bara þvert eftir endilöngu vatninu upp í Bergshamra. Það passaði að þegar við komum upp í Bergshamra þá var komin tími á að elda kvöldmat og skelltum við okkur til Sveinbjargar og Gumma. Í töskunni hjá Jóni leyndist nefnilega roastbeef stykki og kjötmælir og vorum við mætt til að bjóða þeim í mat, heima hjá þeim. Ragnhildur litla var nefnilega svoldið veik og því eru foreldrar hennar ekkert að flakka mikið þessa dagana. En ef Múhameð kemst ekki til fjallsins þá kemur fjallið til hans. Þannig að Jón eldaði þessa glæsilegu steik fyrir okkur. Hún var alveg hrikalega góð. Það var heldur ekki leiðinlegt að hafa drottningu bernaise-sósu gerðarinnar á svæðinu, og stóð hún sig með prýði eins og venjulega. Mikið er langt síðan mar hefur fengið sósuna góðu hjá Sveinku. Svo í eftirrétt fengum við rosa góða franska súkkulaðiköku, nammi, namm...
Kvöldið endaði svo á því að Gummi kenndi okkur Texas Hold'em og ég tapaði öllu. En sem betur fer talar Gummi ennþá um eitthvað furðulegt atvik í Munchkin þannig að ég held að minn spilaheiður er ekkert svo svertur... ekkert svo mikið alla veganna.

Til hamingju Ásta og Ingvar!

Dagurinn byrjaði brillíant vel. Okkur var tilkynnt það að Ásta frænka hefði farið inn á spítala í gær og fætt lítinn strák í nótt. Litla hetjan var 52cm og 15 merkur. Ég veit að ég er "bara" frænka, og þannig séð ekki svo nærskyld, en ég er alveg að springa úr stolti. Ásta er nú líka meira eins og systir en frænka, enda vorum við nú mestu síamstvíbbar ever þegar við vorum litlar. Þegar við vorum búnar að sitja saman fyrstu þrjú árin ákvað kennarinn að við yrðum að stija hjá einhverjum öðrum. Við héldumst dauðskelfdar í hendur og ég fór meira segja að gráta. Heimurinn hlaut að bara að farast... ég skildi ekki hvernig svona grimmd væri til! Frá því að við munum eftir okkur og fram í barnaskóla þá gengum við alltaf í eins fötum og leiddumst út um allt. Á morgnanna skutlaði mamma hennar Ástu meira segja heim til mín í pössun og skeið hún uppí til mín og við kúrðum aðeins lengur. Í mörg ár átti hún tannbursta heima hjá mér út af því að hún, þannig séð, vaknaði og byrjaði daginn þar. Ásta átti meira segja að fara í Víðistaðaskóla en mömmur okkar sáu ekki fram á að það yrði hægt að skilja okkur að, þannig að Ásta fékk undanþágu og kom með mér í Engidalsskóla. Við vorum meira segja saman á leikskóla. Ásta var samt á kisudeildinni og ég bangsadeildinni. Þeim tókst þó ekki að stíja okkur í sundur því að oft og iðulega heimtuðum við að fá að fara í dagsheimsóknir á hina deildina. Góðar minningar þaðan, enda er enn þann dag í dag sígildur brandarinn "hver er að trampa yfir brúna mína!". En sá brandari á rætur sínar í frábæra leikframmistöðu Ástu sem litla kiðakið. Ég man ekki betur en að hún hafi verið með þeim stærstu á deildinni. Stærðarmunurinn á okkur kom mér nokkuð vel í gegnum tíðina enda hótaði hún nokkrum hrekkjusvínum hressilegum barsmíðum þegar þeir sáu mig sem auðvelt fórnarlamb (enda dvergur að stærð). Já, ég man ekki betur en að Ásta hafi rifið einn þeirra upp á hálsmálinu og hent í burtu... en það gæti svo sem verið hetjuljóminn af henni sem er eitthvað að ýkja í minningunni. Og það sem hún var þolinmóð að reyna kenna mér fótbolta, uss,uss... hún reyndi allt hvað hún gat. Ef ég hefði einhvern snefil af hæfileikum í þá áttina þá væri ég orðin fræg í dag. En því miður þrátt fyrir mikla kennslu, þá fannst mér alltaf miklu skemmtilegra að sitja á bekknum og spjalla við hinar stelpurnar. Hafði engan áhuga að fara inná. Var samt alltaf rosa montin að eiga vinkonu sem var svona ýkt klár... mér fannst hún náttla alltaf klárust. Enda þurfti ég kannski ekkert að vera góð í fótbolta, við vorum alltaf teymi og þar sem hún var búin að afgreiða þá deildina þá fann ég enga þörf hjá mér.
Við vorum nokkuð duglegar á listasviðinu. Áttum það til að gefa út ógleymanlegar ljóðabækur. Man eftir einni sem var gefin út í sláturgerð hjá mömmu. Við sömdum meira segja lag við eitt ljóðið.

Stóri folinn minn
litli folinn þinn
hleypa sér í hring
þeir hoppa
þeir hoppa
til mín
Við leikum okkur saman
og dingalingaling

Þvílíkt snilld. Svo var hver og ein síða skreytt með glæsilegum teikningum. Allt bundið inn og svo selt. Við vorum miklir bisnesskonur og byrjuðum snemma að búa til pening. Við t.d. máluðum steina og vatnslitsmyndir og gengum í hús og seldum. Ef einhver undrar... þá erum við báðar með bsc. í viðskiptafræði í dag.
Einhvern tíman vorum við með vísindaklúbb. Við áttum til að blanda saman undarlegustu hráefnum í skál og athuga hvað við gætum fengið út úr því. Venjuleg blanda væri, slatti af mjólk, smá seríós, sykur, kakó, tannkrem, hárfroða, sjampó, spagettí og svona til að skreyta þetta þá var afar vinsælt að skella smá matarlit út í. Mesta fjörið var þó að reyna koma helvítis ógeðinu út og hella niður um ræsið án þess að Þórdís kæmist að þessu. Ræsið á Hjallabrautinni var oft afar undarlegt á litinn...en við könnuðumst ekkert við málið. Algjörlega saklausar af þessu öllu saman.
Ég gæti haldið áfram endalaust og komið með milljón góðar sögur af okkur tveimur. Ég ætla þó að geyma eitthvað, hver veit nema maður þurfi að halda ræðu einhvern tímann í brúðkaupi. En enn og aftur, til hamingju með litla strákinn ykkar. Ég samgleðst ykkur innilega og get ekki beðið eftir að fá að hitta ykkur öll, og sérstaklega að fá að halda á honum.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Hildur í heimsókn

Ég sagði ykkur frá því síðast að ég er búin að ákveða efni fyrir lokaverkefnið mitt. Mér finnst það afar spennó og við Malin vorum báðar voða æstar yfir því. Við eigum reyndar eftir að hitta leiðbeinandann okkar til að fá efnið samþykkt, en ég held að það ætti ekki að vera fyrirstaða þar. Ég á örugglega eftir að blaðra um verkefnið hérna, þannig að ég ætla að bíða aðeins með að skrifa um það, svona aðeins til að spara ykkur.

Annars gisti Hildur vinkona hjá okkur í gær. Hún var að flytja heim frá Skövde og fékk að krassa hjá okkur fyrir flugið. Það var mjög gaman að fá hana í heimsókn og fórum við með hana á Onsdags til að fá okkur ódýran öl.

Annars langaði mig bara að benda á brillíant blogg hjá sloppadýrinu okkar.

Kram,kram!

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Ofsóknir og öndunarerfiðleikar

Ég er ofsótt... ég er ofsótt þessa dagana af fólki með undarleg öndunarhljóð. Í gær sat ég á bókasafninu á KTH þegar einhver karlmaður sest fyrir aftan mig. Þetta var greinilega mikið og erfitt hvert því að greyji karlmaðurinn blés og stundi eins og fýsibelgur. Lætin héldu áfram löngu eftir að hann var sestur og ég verð að segja að mér leist ekki á blikuna, sá fram á að hann væri búin að stinga hendinni einhvers staðar sem hún ætti ekki heima.
Stuttu seinna settist einhver annar gaur við borðið hjá mér. Sá átti eitthvað í vandræðum með öndunina. Hann dró andann þungt í gengum nefið,klippti svo snögglega á og blés svo raddað út um munninn. Á tímabili munaði litlu að ég myndi stinga penna í hálsinn á honum... bara svona til að létta öndunina.
Ég er búin að vera segja Jóni frá þessu fólki sem er að ofsækja mig og hann hélt nú að ég væri bara eitthvað að ýkja. Í lestinni í dag settumst við svo hliðina á eldri hjónum. Hún blaðraði heil ósköp og svo loks þegar hún þangaði þá byrjaði hún að anda eins og í gegnum rör. Hún saug inn lofið af miklum móð og blés því svo út með stút á vörunum. Innnnn..... og úúúúúúttt! Ég ragnhvoldi augunum og Jón gat ekki annað gert en að stara. Mér er hreinlega farið að hlakka til hvað ég fæ að sjá næstu daga.
Annars var þetta bara nokkuð góður dagur. Ég hitti Malin upp í skóla og erum við búin að ákveða efni fyrir masters verkefnið. Vuuuhuhuhúúú... þetta verður sko spennandi...
Segji ykkur frá því seinna!

sunnudagur, janúar 22, 2006

Góðverk dagsins

Það er orðið ansi kalt í Stokkhólmi og snjórinn liggur yfir öllu. Ég hef fundið afar mikið til með kanínu-vinum mínum og ég skil ekkert í því hvernig þær ætla að fara að því að lifa þetta af. Við Jón ákváðum að skella okkur í labbitúr í dag, því sólinn skein svo skemmtilega. Jón skrapp á klóið áður en við fórum út og ég greip tækifærið og stökk í ísskápinn og fyllti vasann hjá mér af káli og gulrótum. Þegar við gengum svo fram hjá einni vinkonu minni, sem sat skjálfandi inn í runna, þá notaði ég tækifærið og hoppaði yfir skaflinn og skutlaði til hennar slatta af káli og einni gulrót. Hún reyndar hljóp dauðskelkuð í burtu, vissi ekki hvað rauðhærði geðveiklingur þetta væri sem væri að reyna kasta í hana gulrót! En þegar við komum tilbaka úr labbitúrnum þá sat hún og kjammsaði góðgætið í sig. Hún kunni greinilega vel að meta gjöfina, enda líkalega ekki svo mikið fyrir hana að fá þessa dagana. Ég var bara nokkuð ánægð með sjáfla mig og fannst ég hafa unnið hið mesta góðverk. Jón hristi hinsvegar hausinn og muldraði eitthvað um að ég væri eitthvað undarleg.

Í labbitúrnum gengum við hérna niður að vatni eins og svo oft áður. Munurinn á þessari ferð og öðrum var að nú gengum við á vatninu en ekki við það. Vatnið hafði s.s. lagt í kuldanum að undanförnu og nú er allt vatnið frosið, bakka á milli. Þá lá við að við gætum rölt beint yfir til Heiðrúnar og Ragga, en við lögðum ekki í það þar sem miðjan er stundum ótraust. Það var þó heilmikil traffík á vatninu, fólk var bæði að skauta, veiða í gengum vök, gönguskíðast, skokka og draga krakka um á snjóþotum. Manneskja dagsins var þó líklega gamla konan sem skundaði hraustlega eftir vatninu með trillu á undan sér (svona eins og amma á). Hún snéri sér að okkur þegar hún mætti okkur, nokkuð móð og með eldrauðar kinnar og spurði hvaða hverfi þetta væri eiginlega við bakkann? Við gátum ekki annnað en velt því fyrir okkur hvað hún hefði labbað langt ef hún vissi ekki lengur hvar hún væri.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Nöldur um tísku

Ég sá viðtal í blöðunum heima á Íslandi um jólin. Það var verið að spyrja eina af þessum ungu rísandi stjörnum í leikhúslífinu um lífið og tilveruna. Ein af spurningunum fjallaði um hvað henni fyndist um tísku. Leikkonan svaraði því að henni fyndist tíska hallærislegt fyrirbæri sem einungis væri búið til fyrir fólk sem gæti ekki sjálft haft skoðun á því sem það gengi í. Mér fannst þetta nokkuð hart skotið á almenning, en þið vitið! *öxlum yppt* Allir hafa rétt á sinni skoðun...
Nokkru neðar á síðunni komu síðan spurningar um hvaða fatamerki hún fílaði og hvaða flíkum hún gengi mest í. Jú, það kom í ljós að leikkonan "elskar sko" nýja pelsinn sinn, Camper-skó, æðislegan kjól sem einhver hannaði og blablabla... nokkur voða töff fatamerki í viðbót. Við hliðina á greininni var svo mynd af henni í fínu fötunum sínum, krúttlegur svipur í stíl við fötinn. Outfittið gæti hafa verið klippt beint út úr H&M bækling...

Maður þarf greinilega ekki að vera gáfaður til að vera leikari. Það gæti líka verið að hún sé bara hræsnari, ég vona alla veganna (hennar vegna) að hún sé ekki svo vitlaus að halda virkilega að hún elti ekki tískuna. Kannski finnst henni hún bara vera of vitlaus til að hafa skoðun á því hverju hún gengur í?

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Ég er orðin gömul

Ég er orðin gömul. Ég er greinilega orðin svo gömul að ég veit ekki einu sinni lengur hvað ég hugsa. Það hendir mig sí og æ þessa dagana að ég fæ þessar brillíant hugmyndir og hugljómanir sem gjörsamlega breyta öllu fyrir mér og snúa heiminum algjörlega við. Svo segi ég Jóni spennt frá þessum pælingum mínum, næ varla andanum á meðan, tala á innsoginu og baða út höndunum. Þetta er ekkert smá mikil hugsana bylting!!! Nema hvað, hann svarar mér þurrlega að ég hafi sagt honum frá þessu áður. Ha? Ég hreinlega stoppa í lausu lofti og gapi! Hvað á hann við?
Jú, hún Beta gamla er víst í alvörunni orðin gömul og er víst byrjuð að enduruppgötva sjálfa sig í sífellu, verst að hún skyldi ekki hafa vit á því að halda því fyrir sjálfa sig. Ég er sífellt að segja Jóni frá "nýjum" uppgötvum sem eru svo alveg aldagamlar...

Hversu leim er það?

þriðjudagur, janúar 03, 2006

...it's like sooooo last year!!!

Gleðilegt ár elsku dúllurnar okkar og takk fyrir það liðna.
Við Jón erum á því að árið 2005 var aldeilis prýðilega gott ár. Held ég geti flokkað með þeim betri.
Það var mikið lært á árinu sem var að líða. Ég byrjaði í Markaðsakademíunni og skemmti mér konunglega þrátt fyrir að það hafi verið afar erfitt á köflum. Jón kláraði ISE námið sitt og á bara eftir að taka í hendina á rektor, til þess að fá að kalla sig master. Hann byrjaði svo á næstu masters-gráðu og tók 46 einingar á haustönninni (það er eðlilegt að taka 20 ein.)
Við ferðuðumst þónokkuð á árinu. Við fórum tvisvar til Eistlands á árinu og einu sinni til Finnlands. Stóru ferðalögin voru þó til London og svo ógleymanleg ferð til Afríku. Við fengum góða gesti í heimsókn til okkar (Pabbi Gaui, Mamma Hrafnhildur, Pabbi Grétar, Halla systir, Svala frænka og Ella vinkona), það var reglulega skemmtilegt og vonandi skemmtu þau sér vel.
Við kynntumst líka helling af nýju fólki og eignuðumst góða vini sem við vonandi munum eiga að um komandi ár. Það er alltaf jafn gaman að kynnast fólki sem manni finnst maður hafa þekkt alla ævi.
Rétt fyrir jól ákvað svo gamli skólinn okkar að veita okkur námsstyrk og Grétar frændi nefndi litlu dóttur sína í höfuðið á mér.
Já, árið 2005 var svo sannarlega gjöfult og skemmtilegt ár. Það var einnig afar erfitt en það hefur sýnt sig að þau ár, þegar við tökumst á við verðug markmið, þau eru mest gefandi.

Gleðilegt nýtt ár!