föstudagur, júlí 22, 2005

Raindrops keep falling...






Og það rignir í Stokkhólmi. Það er búið að rigna stanslaust síðan Ella lenti í gærkvöldi. Þetta byrjaði með stæl. Ég var á leiðinni niður á lestarstöð að taka á móti henni, stóð við gluggann í skónum með regnhlífina í hendinni þegar ég sá þessa rosalegu eldingu dúndra niður í húsið við hliðina á okkur. Ég hálf fraus í sporunum og spurði Jón hvort það væri nokkuð hættulegt að fara út með regnhlíf. Við, alveg klúless, fórum á netið þar sem stóð að í þrumuveðri ætti maður að leita skjóls innandyra og alls ekki undir tré. Þannig að regnhlífin var ekki góð hugmynd þar sem hún hefði virkað sem meðalgóður eldingavari. Á meðan dúndruðu eldingarnar niður í húsin í kringum okkur og þrumurnar fengu jörðina til að skjálfa. Ég var orðin hálf skelkuð af öllum þessum látum, og harðneitaði að fara út að taka á móti Ellu, í þeim töluðum orðum sprakk ein eldingin fyrir ofan húsið okkar. Sem betur fer var aðeins seinkun á fluginu hennar þannig að hún þurfti ekki að bíða eftir mér. Við erum samt búin að hafa það voðalega huggó. Versluðum í matinn í dag, Ella eldaði dýrindis máltíð og svo horfðum við á vídjó í kvöld. Ég skellti inn nokkrum myndum með annarri hendinni á meðan.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Loksins myndir í myndaalbúmið

Ég hafði mig loksins í það að setja inn myndirnar okkur í albúmið okkar. Ég setti inn London og Nairobi. Ég ætla að skvera restinni inn á næstu dögum. Ella vinkona er að koma í heimsókn í kvöld þannig að ég veit ekki hversu mikinn tíma ég hef afgangs í þessa handavinnu. Skvísan ætlar að vera hjá okkur í 10 daga og þetta verður 10 daga matarveisla, ef ég þekki hana rétt. Þið getið kíkt á myndirnar ef þið hafið áhuga, annars stefni ég á að setja inn artí myndirnar áfram hérna á bloggið.

London myndirnar
Nairobi myndirnar

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Nokkrar myndir í viðbót

Vegna góðra viðbragða síðast þá get ég ekki annað en setja nokkrar í viðbót inn.



Ferðasagan hluti 2

Jæja, við skildum við ykkur síðast þegar við Jón vorum komin til Samburu. Fyrir þá sem hafa áhuga þá var það þar sem að Survivor í Afríku var tekinn upp. Svæðið sjálft var “hálf-eyðimörk” en þar sem gistisvæðið var alveg við á, þá var landsvæðið í kringum tjaldbúðirnar meira “tropical” en eyðimörk. Eftir að apinn litli gerði heiðarlega tilraun til að komast inn til okkar þá ákváðum við að ganga tryggilega frá tjaldinu þegar við fórum í hádegismat. Á leiðinni í matinn sá ég nokkra apa vera slást við hliðina á göngustígnum. Jón var nokkrum skrefum á undan mér, og þar sem hann var greinilega svangari en ég þá veitti hann þeim voða litla athygli. Ég hins vegar stoppaði og hló að þeim þar sem þeir voru að slást. Það næsta sem Jón veit er að ég kom hlaupandi á eftir honum, kallandi á hjálp með öskrandi apahóp á eftir mér. Þeir höfðu þá byrjað að öskra á mig og ógna mér þegar ég var að horfa á þá og þegar ég tók tvö skref aftur á bak þá tvíefldust þeir alveg og stukku af stað. Mér leist hreinlega ekki á blikuna (enda man ég vel eftir myndinni Outbreak) og stökk til Jóns. Jón hegðaði sér eins og góðu karldýri sæmir, snéri sér við, stappaði niður fætinum og urraði á þá. Apahópurinn steinþagnaði og stoppaði á punktinum, svo tóku þeir beint strik upp í næsta tré. Þar sátu þeir æstir og kjöftuðu saman. Við hinsvegar tókum beint strik í matinn enda orðin banhungruð. Ég sleppti samt Jóni ekki langt frá mér þarna innan garðsins. Mér fannst það vera öruggara að hafa karldýrið við hendina.

Þó við vorum í safarí þá var maturinn og þjónustan ekkert í samanburði við það sem við gerðum ráð fyrir. Þegar við mættum í matinn tók á móti okkur stúlka sem kynnti sig sem Abigail. Abigail bauð okkur upp á súpu og drykki og benti okkur á hlaðborðið sem beið okkar. Frekar glæsilegt verð ég að segja, enda átum við á okkur gat. Þegar Abigail bauð okkur upp á eftirrétt þá urðum við að afþakka, enda ekki neitt pláss eftir. Hún setti þá í brýnar og sagði að meðan við værum í Samburu þá væri hún mamman og við börnin hennar og við ættum að hlýða. Hún sagði að við hefðum gott að því að fá okkur sítrónukökuna og hætti ekki fyrr en við lofuðum að reyna borða eina saman. Ég sá fram á að við þyrftum gott átak í líkamsræktinni þegar við kæmum heim.
Eftir matinn skelltum við okkur í sund og á leiðinni að sundlauginni sáum við hóp af leðurblökum hangandi á hvolfi undir gaflinum á einu húsinu. Frekar fyndið að sjá þær svona margar kúrandi saman. Ég man ekki eftir að hafa séð leðurblökur áður og gerði ráð fyrir að þær væri frekar ógeðslegar, en nei, þær voru eiginlega bara hálfkrúttlegar svona kúrandi saman, syfjulegar og blindar. Ég er samt ekki viss um að mér þætti þær jafnkrúttlegar ef ég hefði hitt þær fljúgandi inn í dimmum helli eða eitthvað álíka. Við sóluðum okkur aðeins og fengum okkur sundsprett. Ég sá fram á að ef við værum á leið í safarí seinni partinn þá væri eins gott að kæla sig niður því það ætti eftir að vera vel heitt. Á sundlaugarbakkanum var slatti af eðlum á vappi. Mér fannst þær svo krúttlegar að ég eytti ágætis tíma í að reyna ná myndum af þeim, en mig grunar að þær tilraunir hafi verið til einskis.
Í safaríinu seinni partinn sáum við ótrúlega mörg dýr. Mér fannst þetta allt saman hálf ótrúlegt. Eitt skiptið vorum við að keyra á svæði sem var þakið þéttum runnagróðri, þegar út úr einum runnanum kemur fíll hlaupandi. Okkur fannst þetta frekar magnað og kipptum út myndavélunum. Á eftir þessum fíl kom svo annar stærri fíll, og annarr ennþá stærri “Vá hvað hann er rosalega stór” heyrðist í einhverjum. Síðan heyrðist “og hann stefnir hingað!!!”. Stóra karldýrið kom hlaupandi í áttina að okkur með eyrun beint út til hliðana og tennurnar beint fram. Bílstjórinn okkar skellti bílnum í bakgírinn og brunaði afturábak og í burtu frá fílnum. Við hrundum öll til í bílnum og þegar bílstjórinn var búinn að bakka frá snéri hann sér við og sagði afsakandi “ Það er sko betra að færa sig þegar fíllinn er á leiðinni. Hann á sko réttinn hér!”. Einhvern veginn efaðist enginn í bílnum um þá staðhæfingu.
Seinna í safaríinu sáum við ljónynju liggjandi í runna, sofandi. Þar var komin hin fræga ljónynja Kamunjak sem ég hafði verið svoldið spennt fyrir að fá að sjá. Ég og Jón horfðum á skemmtilega heimildamynd um hana á Animal Planet í vor. Kamunjak er s.s. fræg sem “Ljónynjan sem ættleiddi Orixinn”. Fyrir nokkrum árum síðan var Kamunjak á veiðum og ætlaði að veiða dýr af antilópu tegund sem heitir Orix. Þegar Kamunjak læddist að hópnum stökk hann af stað nema einn ungi stóð alveg frosinn eftir. Kamunjak gekk að honum og í stað þess að éta hann, þá sleikti hún hann og fór að elta hann eftir. Hún hegðaði sér á allan hátt eins og ljónynjur gera gagnvart ungunum sínum. Hún þreif antilópuna, og hringaði sig um hana þegar hún svaf og hleypti henni aldrei út úr augnsýn. Samburu fólkið á svæðinu varð vart við þetta og taldi fólkið að þetta væri kraftaverk og tákn frá guði um að nú yrði heimurinn loksins að betri stað víst að ljón og antilópur geti verið vinir. Fólk, allstaðar að, hópaðist á svæðið til að sjá þennan einstaka atburð. Allir voru jafn snortnir yfir ljónynjunni sem gældi svona blítt við antilópu-ungann. En meðan Kamunjak var með ungann hjá sér þá át hún ekkert, hvorki veiddi sér til matar né vildi éta það sem henni var fært. Hún horaðist upp og varð sífellt þreytttari og þreyttari. Unginn var líka soltin því þar sem hann gat ekki nærst hjá móður sinni og var ekki orðin nógu gamall til að bíta gras. Svona gengu þau saman um sléttur Samburu, bæði aðfram komin að hungri og þreytu. Hungrið ýtti unganum áfram, sem gekk í sífellu um leitaði að mat. Kamunjak greyið gekk á eftir en var orðin svo máttlaus að hún notaði hverja stund til að hvílast og sofa. Einn daginn var Kamunjak orðin svo þreytt að hún lagðist til svefns og í fyrsta skiptið hleypti hún unganum úr augnsýn. Þetta var bara örfáar sekúndur og á þeim sekúndum rakst unginn á stórt karlljón og það var ekki lengi að rífa hann í sig. Kamunjak heyrði lætinn og sá ljónið éta ungann sinn og gat ekkert gert nema horfa lömuð á. Sorglegur endi á sögunni, því miður. Síðan þetta var, þá hefur Kamunjak tvisvar tekið að sér antilópur. Ein fann mömmu sína aftur og hin var færð í dýraathvarf. Frekar merkileg ljónynja þarna á ferð. Þennan dag voru við s.s. það heppinn að fá að hitta þessa frægu ljónynju í eigin persónu. Henni þótti samt lítið til okkar koma og nennti lítið að spá í okkur. Hún lá bara þarna í sólinni undir runna og slappaði af. Svo stóð hún upp, gekk alveg upp við grillið á bílnum, gekk fram hjá án þess svo mikið sem að líta á okkur. Greinilega “royal” dýr á ferð. En mikið var hún tignarleg og flott, ekkert nema vöðvar en samt með svona mjúkar hreyfingar.
Kvöldið fór í mikla matarveislu með 3-4 réttum og á eftir rúlluðum við inn í tjald og sofnuðum fyrir tíu. Það var kannski eins gott því að næsta safarí var planað kl:6:30 um morguninn. Við ætluðum að ná dýrunum í sólarupprásinni. Nóttin var þó ekki mjög róleg. Það hafði hópur af bavíönum komist inn á tjaldsvæðið og sátu þeir og öskruðu alla nóttina. Frekar pirrandi verð ég að segja. Kl:6:00 um morguninn heyrðum við einhvern segja á pallinum fyrir utan tjaldið okkar “góðan dag, þetta er wake-up callið ykkar. Ég er með heitt kakó fyrir ykkur”. Frekar næs þjónusta, ummm... Þarna sátum við rúmmunum okkar með himnasængina okkar yfir okkur, drekkandi heitt kakó áður en við færum út að kíkja á sólarupprásina í afríku. Verður þetta mikið betra? Safaríið var þó rólegt og eyddi ég því hálfsofandi upp við rúðuna og Jón hnippti í mig þegar eitthvað spennandi gerðist. Eins og flestir vita sem þekkja mig þá er ég ekki mikil morgunmanneskja.
Eftir safaríið skelltum við okkur í morgunmat og hann var ekki af verri endanum eins og annað. Á hlaðborðinu beið eftir okkur kokkur sem steikti fyrir okkur á pönnu það sem við vildum. Hvort sem það voru pönnsur, spæld egg eða ommilettur með ýmsu gúmmilaði í. Úff hvað maður tróð í sig. Ég gleymdi að segja frá því matsalurinn var ekki beint salur, heldur risastór útipallur á staurum með stráþaki yfir. Og þar sem að aparnir voru heldur betur hrifnir af matnum sem var borin fram þá var Samburu stríðsmaður í fullum skrúða sem gekk um og rak þá í burtu með teygibyssu. Þess á milli spilaði hann á undarlega flautu til að skemmta matargestunum.

Eftir morgunmatinn var planið að fara í heimsókn til Samburu-ættbálksins en þau eru víst einn af fáum ættbálkum sem halda algjörlega við gamla hefðir. Flestir ættbálkar hafa tekið við einhverjum áhrifum frá vesturlöndum, já eða nútímanum, veit ekki alveg hvað ég á að kalla það. En Samburu fólkið, vá, þetta var nokkuð merkileg reynsla.

En meira um þau næst...


mánudagur, júlí 18, 2005

Nokkrar myndir

Það kom í ljós að þetta var alveg slatti af myndum sem voru teknar í ferðinni. Ekki nema um 909 stk. Ég er búin að vera skoða þær og velja út nokkrar til að fínisera og klippa aðeins til. Hér eru nokkur sýnishorn.



föstudagur, júlí 15, 2005

Safari-ferðasagan hluti 1

Við lögðum af stað snemma morguns frá Nairobi. Hópnum var skipt upp í tvennt og lentum við Jón í bíl með tveimur dúndur hressum breskum systrum og einni eldri breskri konu, sem var alveg ágæt en átti það til að nöldra meira en henni var hollt. Bílstjórinn okkar hét Símon og var virtist vera nokkuð hress gaur. Við keyrðum út úr Nairobi og þegar út í dreifbýlið var komið breyttist landslagið nokkuð mikið. Við þjóðveginn sat fólk og seldi ávexti sem uxu á ökrunum í kring. Í boði voru margar mismunandi tegundir af bönunum (rauðir, grænir og gulir), papaya, mangó, avakadó, ananas, melónur osfrv. Verðið á ávöxtunum var líka aðeins öðruvísi en heima, t.d. banani á 2 krónur íslenskar. Landslagið einkenndist af trjám og ávaxtaökrum og svæðið var greinilega með mjög frjógan jarðveg, því þetta spratt allstaðar upp. Við keyrðum einnig fram hjá ananas plantekrum DelMonte, en það eru niðursoðnu ananasinn sem við fáum heima. Ekrurnar voru svo stórar að þær náðu til allra átta, svo langt sem augað eygði. Nokkuð mögnuð sjón. Man ekki eftir að hafa séð nokkuð ræktarland sem náði yfir svo stórt svæði. Leið okkar lá upp að Aberdare Range en það er svona Country Club hátt upp í fjöllunum. Það var samt ekki bara landslagið sem breyttist þegar við skildum við borgina, heldur varð fólkið og húsakynin ennþá fátæklegri, en þó líka vinalegra. Börnin hlupu berfætt á eftir bílnum veifandi og brosandi. Maður gat ekki annað en hlegið og veifað á móti þegar maður sá þau í allskonar skærlituðum fatnaði frá Rauða Krossinum (ég er ekki frá því að ég hafi séð gamlar flíkur frá mér sjálfri) brosandi eyrnanna á milli. Maður sá jafnvel litla stráka í skærbleikum flíkum, frekar montnir af sjálfum sér. Stelpu og strákalitir þekkjast greinilega ekki þegar það er skortur á fötum. Þegar við keyrðum inn fyrir hliðið á Aberdare Range byrjuðum við á því að sjá nokkur villisvín á skokki. Síðan sá Jón gíraffa með lítinn unga með sér ( hvað heita gíraffabörn?) en ég missti af því. Það var nokkuð kostulegt að sjá 18 holu golfvöll og glæsilegan veitingastað þarna upp í fjallinu, sérstaklega eftir að hafa keyrt fram hjá allri þessari fátækt. Við fengum okkur vel útlátin og glæsilegan hádegismat en þurftum að vera nokkuð snögg því að eftir okkur beið sérstök rúta til að flytja okkur upp að Örkinni (the Arc) en þar var stefnt á að gista um nóttina. Örkinn, er gististaður sem nefndur er eftir örkinni hans Nóa. Þetta er hálfgert hótel sem er svoldið í laginu eins og skip og frá bílastæðinu gengur maður á brú inn í húsið. Húsið sjálft er utan á fjalli og fyrir neðan það er stórt vatnsból sem dýr sækja í. Eftir að ræktun byrjaði mikið á svæðinu varð lítið pláss fyrir villt dýr og því var ákveðið að búa til sérstakt verndarsvæði fyrir þau og var það gert í einkaframkvæmd eigenda Abedare Range. Svæðið er risastórt og heilmikið af dýrum þar, t.d. hátt í 300 villtir fílar, en því miður engin ljón. Það voru víst hópur af ljónum inn á svæðinu fyrir tilviljun þegar það var girt, en því miður varð að flytja þau út því að þau voru of þurftafrek (hin dýrin voru í útrýmingarhættu vegna ágengni ljónanna). Fararskjótinn upp í Örkina var samt frekar fyndin, frekar gömul rúta, en við tókum nú ekkert sérstaklega eftir því að hún færi hægt fyrr en Range Rover tók framúr henni á leið upp eina brekkuna og okkur fannst hún hreinlega standa kyrr. Já og svo þegar skólakrakkarnir skokkuðu fram úr okkur, þá varð þetta eiginlega bara fyndið. Þegar við komum upp í Örkina var ekki mikið af dýrum við vatnsbólið. Þar voru nokkrir buffalóar og Waterbacks sem eru hálfgerðar antilópur. Við sáum þó nokkra áhugaverða fugla, og uppáhaldið okkar var fugl sem hékk öfugur í grein á annarri löppinni og hélt á brauðmola í hinni og mataði sig með fætinum. Við höfum bara aldrei séð fugl haga sér á þennan hátt. Nálægt fuglunum voru síðan nokkrir skemmtilegri íkornar, einn hljóp um á brúnni á svo hrikalega fyndin hátt að við vorum alveg í kasti. Hann minnti okkur helst á byrjunar atriðið í Ice Age, hrikalega fyndið, með hnetuna í höndunum, hoppandi um, alveg hrikalega stressaður. Það er þó eitt vert að nefna frá Örkinni. Það var svo ótrúlega kalt svona hátt upp í fjöllunum. Við vorum alveg að deyja úr kulda. Inn í herberginu okkar var svo kalt að okkur leist heldur ekkert á að þurfa sofa þar um nóttina. Þeir voru þó með nokkuð þróað kerfi þarna, sniðugir gaurar. Ef vaktmaðurinn sá eitthvað af “The Big Five” dýrunum þá ýtti hann á buzzer sem var tengdur í öll herbergin og gestirnir komu hlaupandi fram. Eitt buzz var fyrir Vatnabuffalóa, tvö buzz fyrir fíl, osfrv. Um kvöldmatarleytið kom svo tvö buzz og við skelltum okkur út á svalir, þar var mættur hinn glæsilegasti fíll að fá sér að borða. Við ákváðum að fara að fordæmi hans og skelltum okkur í kvöldmat. Seinna um kvöldið kom svo öll fílahjörðin og þegar flestir voru þá voru þeir um 14 stk. þar af einn pinku lítill, líklega um 2-4 vikna gamall. Ferlega krúttlegur. Þegar við vorum loksins búin að tala í okkur kjark til að fara upp í kalda herbergið þá kom á móti okkur óvæntur glaðningur. Það voru tveir hitapokar í rúmmunum okkar. Við fórum að sofa og drógum yfir okkur öll teppin sem við fundum. Okkur leið pinku eins og við værum í íslenskri útilegu, í hlýrri holu en með íssssskalt loft í kringum okkur.
Næsta morgun var haldið af stað til Samburu. Aftur breyttist landslagið talsvert frá frumskóginum í fjöllunum breyttist það yfir í hálf-eyðimörk (semi-desert). Einhver gróður en hann var hálf þurr og mikið af þurri mold. Fólkið breyttist líka og varð ennþá meira óvestrænt. T.d. var frekar algengt að sjá konur berandi risabirgðir á höfðinu, karlmenn í hefðbundnum stríðsmannaklæðnaði ( klútur bundinn um þá og perluskreyttir), konur gangandi með klúta bundna upp á aðra öxlina og annað brjóstið úti osfrv. Okkur leið svoldið eins og við værum komin inn í kennslubók um lifnaðarhætti í afríku fyrr á öldum. Við sáum hjarðir af úlföldum, geitum og beljum og smalanna með þeim. Þetta var frekar óraunverulegt allt. Þegar við vorum komin inn á Samburu verndarsvæðið þá var það fyrsta sem við sáum lítill Tímon (úr The Lion King). Við vitum ekki ennþá hvaða dýr hann er, en við sáum s.s. eitt solleis. Við vissum ekki við hverju við áttum að búast en eftir frekar viðburðarlitla nótt á Örkinni (bara fílar og vatnabuffalóar) þá bjuggumst við ekki við miklu. Eftir 5 mínútna akstur inn á svæðið þá segir bílstjórinn okkar við okkur “ gíraffar” og við lítum í kringum okkur og sjáum ekkert. Hann fer keyrir fyrir horn á veginum og þegar við lítum aftur til vinstri þá er gíraffinn bara hreinlega við gluggann á bílnum. Við urðum að líta upp til að sjá hausinn á honum. Frekar magnað. Þarna voru þeir nokkrir að japla á runnunum. Þeir voru þó frekar feimnir og tróðu sér inn í runnanna til að forðast paparazzi ljósmyndarana okkur. Þegar við komum að gistisvæðinu okkar gátum við ekki annað en hugsað “vááá´”. Það leit alveg æðislega út. Og það var sundlaug þar, sem var alveg dásamlegt því að alveg öfugt við Örkina, þá var alveg rosalega heitt og við alveg að kafna úr hita. Gistingin var þó svoldið sérstök, veit ekki alveg hvar á flokka það. Við gistum s.s. í tjöldum, en tjald er þó ekki beint rétta lýsingin því að í tjaldinu var baðherbergi, með tveimur vöskum, sturtu, klósetti og lýsingu. Herbergið sjálft var frekar stórt með rúmmi með himnasæng, skrifborði, skáp og viftu í loftinu. Gólfið var úr steini og yfir tjaldþakinu var stráþak. Fyrir framan tjaldið (sem var á staurum) var síðan verönd sem vísaði yfir ánna. Það fyndnasta þó við þennan gististað voru þó aparnir. Þetta voru svona litlir apar eins og Hr. Níels í sögunni um Línu Langsokk. Þeir voru gráir með svört andlit og karlarnir voru með skærbláan pung. Frekar kostulegt. Nema hvað, þegar við fórum úr tjaldinu var okkur bent á að renna vel niður, binda reimarnar saman, setja gólfmottuna yfir hnútinn og borð þar ofan á. Aparnir voru nefnilega búnir að læra að renna rennilásum og leysa hnúta. Þeir voru bara ekki nóg sterkir til að geta fært borðin ofan af mottunni. Þannig átti maður að geta haldið dótinu sínu nokkuð apafríu meðan maður var í burtu. Einn daginn þegar við vorum þó inn í tjaldinu heyrðum við eitthvað rjátlað við hnútana svo heyrðum við þegar rennilásnum var rennt upp og pínulítil hönd gægðist inn. Við rákum apann í burtu en maður gat ekki annað en skellihlegið á meðan, þeir voru svo rosalega krúttlegir.
Meira frá Samburu seinna...

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Ein góð

Erum að byrja skoða myndirnar úr fríinu, ákvað að skella einni inn sem er í smá uppáhaldi hjá mér.

Heima er best

Við erum komin heim eftir 30 klst ferðalag. Ferðin gekk vel og tók furðulega lítið á. Við vorum bæði bara hress og kát þegar við mættum hérna heima og byrjuðum á því að ná okkur í pizzu hérna úti á horni. Nú þurfum við bara að taka úr töskunum, skrifa ferðasöguna og setja inn nokkrar myndir. Það gerist einhvern tíman á næstu dögum.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Hver vegur ad heiman, er vegurinn heim

Tha er komid ad sidasta deginum okkar herna. Vid erum buin ad pakka og tekka okkur ut og sitjum vid sundlaugarbakkann og bidum eftir ad vid verdum sott seinni partinn. Ferdafelagar okkar, thau Alison og Tim, sem eru i brudkaupsferdinni sinni, budust til ad keyra okkur fra Heathrow til Standstead i fyrramalid, thannig ad vid losnum vid ferdalagid tar a milli. Enda agaett midad vid astandid i London thessa dagana. Vid aettum ad vera komin heim um kvoldmatarleytid a morgun. Annars er eg nuna a leid nidur a strond til ad athuga hvort eg geti ekki skipt ut sandolunum hans jons og Marie Claire timaritinu minu fyrir einhverja minjagripi.
Sjaumst.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Tad munadi tho litlu...

Ja, ljonin nadu okkur ekki ad thessu sinni, en thad munadi tho litlu i eitt skiptid. Vid hofdum verid ad kvarta yfir thvi daginn adur ad safariin vaeru ordin pinu vidburdalitil. Naesta dag fundum vid hop af ljonum, keyrdum inn i hann midjan, og tha sprakk a bilnum. Jon og bilstjorinn urdu ad fara ut og skipta medan eg og onnur stelpa stodum vord og letum vita thegar ljonin hreyfdu sig. Eg tok frabaera mynd af Joni, bilstjoranum og Masai stridsmanni i fullum herklaedum ad skipta um dekk a bilnum. Sem betur fer var karljonid ekki heima, tha hefdum vid verid i vandraedum. Annars var thetta rumlega 10 ljon, og thar af satu tvo upp i tre og horfdu nidur a okkur. Thau voru freka othaegilega naelegt, en vid haettum ad tala um tilbreytingaleysi i safariinu eftir thetta. Thetta var fullmikid af spennu. Segum ykkur betur fra thessu seinna.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Enn a lifi!

Hallo allir, erum maett til Mombasa i afsloppun eftir aedislegt safari. Ferdasagan verdur ad koma seinna thvi ad netid her er faranlega dyrt. En vid erum s.s. vid goda heilsu og allt gengur vel.
Kv,
Jon og Beta