miðvikudagur, júlí 20, 2005

Ferðasagan hluti 2

Jæja, við skildum við ykkur síðast þegar við Jón vorum komin til Samburu. Fyrir þá sem hafa áhuga þá var það þar sem að Survivor í Afríku var tekinn upp. Svæðið sjálft var “hálf-eyðimörk” en þar sem gistisvæðið var alveg við á, þá var landsvæðið í kringum tjaldbúðirnar meira “tropical” en eyðimörk. Eftir að apinn litli gerði heiðarlega tilraun til að komast inn til okkar þá ákváðum við að ganga tryggilega frá tjaldinu þegar við fórum í hádegismat. Á leiðinni í matinn sá ég nokkra apa vera slást við hliðina á göngustígnum. Jón var nokkrum skrefum á undan mér, og þar sem hann var greinilega svangari en ég þá veitti hann þeim voða litla athygli. Ég hins vegar stoppaði og hló að þeim þar sem þeir voru að slást. Það næsta sem Jón veit er að ég kom hlaupandi á eftir honum, kallandi á hjálp með öskrandi apahóp á eftir mér. Þeir höfðu þá byrjað að öskra á mig og ógna mér þegar ég var að horfa á þá og þegar ég tók tvö skref aftur á bak þá tvíefldust þeir alveg og stukku af stað. Mér leist hreinlega ekki á blikuna (enda man ég vel eftir myndinni Outbreak) og stökk til Jóns. Jón hegðaði sér eins og góðu karldýri sæmir, snéri sér við, stappaði niður fætinum og urraði á þá. Apahópurinn steinþagnaði og stoppaði á punktinum, svo tóku þeir beint strik upp í næsta tré. Þar sátu þeir æstir og kjöftuðu saman. Við hinsvegar tókum beint strik í matinn enda orðin banhungruð. Ég sleppti samt Jóni ekki langt frá mér þarna innan garðsins. Mér fannst það vera öruggara að hafa karldýrið við hendina.

Þó við vorum í safarí þá var maturinn og þjónustan ekkert í samanburði við það sem við gerðum ráð fyrir. Þegar við mættum í matinn tók á móti okkur stúlka sem kynnti sig sem Abigail. Abigail bauð okkur upp á súpu og drykki og benti okkur á hlaðborðið sem beið okkar. Frekar glæsilegt verð ég að segja, enda átum við á okkur gat. Þegar Abigail bauð okkur upp á eftirrétt þá urðum við að afþakka, enda ekki neitt pláss eftir. Hún setti þá í brýnar og sagði að meðan við værum í Samburu þá væri hún mamman og við börnin hennar og við ættum að hlýða. Hún sagði að við hefðum gott að því að fá okkur sítrónukökuna og hætti ekki fyrr en við lofuðum að reyna borða eina saman. Ég sá fram á að við þyrftum gott átak í líkamsræktinni þegar við kæmum heim.
Eftir matinn skelltum við okkur í sund og á leiðinni að sundlauginni sáum við hóp af leðurblökum hangandi á hvolfi undir gaflinum á einu húsinu. Frekar fyndið að sjá þær svona margar kúrandi saman. Ég man ekki eftir að hafa séð leðurblökur áður og gerði ráð fyrir að þær væri frekar ógeðslegar, en nei, þær voru eiginlega bara hálfkrúttlegar svona kúrandi saman, syfjulegar og blindar. Ég er samt ekki viss um að mér þætti þær jafnkrúttlegar ef ég hefði hitt þær fljúgandi inn í dimmum helli eða eitthvað álíka. Við sóluðum okkur aðeins og fengum okkur sundsprett. Ég sá fram á að ef við værum á leið í safarí seinni partinn þá væri eins gott að kæla sig niður því það ætti eftir að vera vel heitt. Á sundlaugarbakkanum var slatti af eðlum á vappi. Mér fannst þær svo krúttlegar að ég eytti ágætis tíma í að reyna ná myndum af þeim, en mig grunar að þær tilraunir hafi verið til einskis.
Í safaríinu seinni partinn sáum við ótrúlega mörg dýr. Mér fannst þetta allt saman hálf ótrúlegt. Eitt skiptið vorum við að keyra á svæði sem var þakið þéttum runnagróðri, þegar út úr einum runnanum kemur fíll hlaupandi. Okkur fannst þetta frekar magnað og kipptum út myndavélunum. Á eftir þessum fíl kom svo annar stærri fíll, og annarr ennþá stærri “Vá hvað hann er rosalega stór” heyrðist í einhverjum. Síðan heyrðist “og hann stefnir hingað!!!”. Stóra karldýrið kom hlaupandi í áttina að okkur með eyrun beint út til hliðana og tennurnar beint fram. Bílstjórinn okkar skellti bílnum í bakgírinn og brunaði afturábak og í burtu frá fílnum. Við hrundum öll til í bílnum og þegar bílstjórinn var búinn að bakka frá snéri hann sér við og sagði afsakandi “ Það er sko betra að færa sig þegar fíllinn er á leiðinni. Hann á sko réttinn hér!”. Einhvern veginn efaðist enginn í bílnum um þá staðhæfingu.
Seinna í safaríinu sáum við ljónynju liggjandi í runna, sofandi. Þar var komin hin fræga ljónynja Kamunjak sem ég hafði verið svoldið spennt fyrir að fá að sjá. Ég og Jón horfðum á skemmtilega heimildamynd um hana á Animal Planet í vor. Kamunjak er s.s. fræg sem “Ljónynjan sem ættleiddi Orixinn”. Fyrir nokkrum árum síðan var Kamunjak á veiðum og ætlaði að veiða dýr af antilópu tegund sem heitir Orix. Þegar Kamunjak læddist að hópnum stökk hann af stað nema einn ungi stóð alveg frosinn eftir. Kamunjak gekk að honum og í stað þess að éta hann, þá sleikti hún hann og fór að elta hann eftir. Hún hegðaði sér á allan hátt eins og ljónynjur gera gagnvart ungunum sínum. Hún þreif antilópuna, og hringaði sig um hana þegar hún svaf og hleypti henni aldrei út úr augnsýn. Samburu fólkið á svæðinu varð vart við þetta og taldi fólkið að þetta væri kraftaverk og tákn frá guði um að nú yrði heimurinn loksins að betri stað víst að ljón og antilópur geti verið vinir. Fólk, allstaðar að, hópaðist á svæðið til að sjá þennan einstaka atburð. Allir voru jafn snortnir yfir ljónynjunni sem gældi svona blítt við antilópu-ungann. En meðan Kamunjak var með ungann hjá sér þá át hún ekkert, hvorki veiddi sér til matar né vildi éta það sem henni var fært. Hún horaðist upp og varð sífellt þreytttari og þreyttari. Unginn var líka soltin því þar sem hann gat ekki nærst hjá móður sinni og var ekki orðin nógu gamall til að bíta gras. Svona gengu þau saman um sléttur Samburu, bæði aðfram komin að hungri og þreytu. Hungrið ýtti unganum áfram, sem gekk í sífellu um leitaði að mat. Kamunjak greyið gekk á eftir en var orðin svo máttlaus að hún notaði hverja stund til að hvílast og sofa. Einn daginn var Kamunjak orðin svo þreytt að hún lagðist til svefns og í fyrsta skiptið hleypti hún unganum úr augnsýn. Þetta var bara örfáar sekúndur og á þeim sekúndum rakst unginn á stórt karlljón og það var ekki lengi að rífa hann í sig. Kamunjak heyrði lætinn og sá ljónið éta ungann sinn og gat ekkert gert nema horfa lömuð á. Sorglegur endi á sögunni, því miður. Síðan þetta var, þá hefur Kamunjak tvisvar tekið að sér antilópur. Ein fann mömmu sína aftur og hin var færð í dýraathvarf. Frekar merkileg ljónynja þarna á ferð. Þennan dag voru við s.s. það heppinn að fá að hitta þessa frægu ljónynju í eigin persónu. Henni þótti samt lítið til okkar koma og nennti lítið að spá í okkur. Hún lá bara þarna í sólinni undir runna og slappaði af. Svo stóð hún upp, gekk alveg upp við grillið á bílnum, gekk fram hjá án þess svo mikið sem að líta á okkur. Greinilega “royal” dýr á ferð. En mikið var hún tignarleg og flott, ekkert nema vöðvar en samt með svona mjúkar hreyfingar.
Kvöldið fór í mikla matarveislu með 3-4 réttum og á eftir rúlluðum við inn í tjald og sofnuðum fyrir tíu. Það var kannski eins gott því að næsta safarí var planað kl:6:30 um morguninn. Við ætluðum að ná dýrunum í sólarupprásinni. Nóttin var þó ekki mjög róleg. Það hafði hópur af bavíönum komist inn á tjaldsvæðið og sátu þeir og öskruðu alla nóttina. Frekar pirrandi verð ég að segja. Kl:6:00 um morguninn heyrðum við einhvern segja á pallinum fyrir utan tjaldið okkar “góðan dag, þetta er wake-up callið ykkar. Ég er með heitt kakó fyrir ykkur”. Frekar næs þjónusta, ummm... Þarna sátum við rúmmunum okkar með himnasængina okkar yfir okkur, drekkandi heitt kakó áður en við færum út að kíkja á sólarupprásina í afríku. Verður þetta mikið betra? Safaríið var þó rólegt og eyddi ég því hálfsofandi upp við rúðuna og Jón hnippti í mig þegar eitthvað spennandi gerðist. Eins og flestir vita sem þekkja mig þá er ég ekki mikil morgunmanneskja.
Eftir safaríið skelltum við okkur í morgunmat og hann var ekki af verri endanum eins og annað. Á hlaðborðinu beið eftir okkur kokkur sem steikti fyrir okkur á pönnu það sem við vildum. Hvort sem það voru pönnsur, spæld egg eða ommilettur með ýmsu gúmmilaði í. Úff hvað maður tróð í sig. Ég gleymdi að segja frá því matsalurinn var ekki beint salur, heldur risastór útipallur á staurum með stráþaki yfir. Og þar sem að aparnir voru heldur betur hrifnir af matnum sem var borin fram þá var Samburu stríðsmaður í fullum skrúða sem gekk um og rak þá í burtu með teygibyssu. Þess á milli spilaði hann á undarlega flautu til að skemmta matargestunum.

Eftir morgunmatinn var planið að fara í heimsókn til Samburu-ættbálksins en þau eru víst einn af fáum ættbálkum sem halda algjörlega við gamla hefðir. Flestir ættbálkar hafa tekið við einhverjum áhrifum frá vesturlöndum, já eða nútímanum, veit ekki alveg hvað ég á að kalla það. En Samburu fólkið, vá, þetta var nokkuð merkileg reynsla.

En meira um þau næst...


1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Takk fyrir þetta - mjög spennandi - eins og að lesa góða sögu - bíð spennt eftir framhaldinu. ooooooooog myndirnar eru hreint frááááábæææææraaar !
kveðja frá T-mom ;-)

21 júlí, 2005 01:39  

Skrifa ummæli

<< Home