föstudagur, júlí 15, 2005

Safari-ferðasagan hluti 1

Við lögðum af stað snemma morguns frá Nairobi. Hópnum var skipt upp í tvennt og lentum við Jón í bíl með tveimur dúndur hressum breskum systrum og einni eldri breskri konu, sem var alveg ágæt en átti það til að nöldra meira en henni var hollt. Bílstjórinn okkar hét Símon og var virtist vera nokkuð hress gaur. Við keyrðum út úr Nairobi og þegar út í dreifbýlið var komið breyttist landslagið nokkuð mikið. Við þjóðveginn sat fólk og seldi ávexti sem uxu á ökrunum í kring. Í boði voru margar mismunandi tegundir af bönunum (rauðir, grænir og gulir), papaya, mangó, avakadó, ananas, melónur osfrv. Verðið á ávöxtunum var líka aðeins öðruvísi en heima, t.d. banani á 2 krónur íslenskar. Landslagið einkenndist af trjám og ávaxtaökrum og svæðið var greinilega með mjög frjógan jarðveg, því þetta spratt allstaðar upp. Við keyrðum einnig fram hjá ananas plantekrum DelMonte, en það eru niðursoðnu ananasinn sem við fáum heima. Ekrurnar voru svo stórar að þær náðu til allra átta, svo langt sem augað eygði. Nokkuð mögnuð sjón. Man ekki eftir að hafa séð nokkuð ræktarland sem náði yfir svo stórt svæði. Leið okkar lá upp að Aberdare Range en það er svona Country Club hátt upp í fjöllunum. Það var samt ekki bara landslagið sem breyttist þegar við skildum við borgina, heldur varð fólkið og húsakynin ennþá fátæklegri, en þó líka vinalegra. Börnin hlupu berfætt á eftir bílnum veifandi og brosandi. Maður gat ekki annað en hlegið og veifað á móti þegar maður sá þau í allskonar skærlituðum fatnaði frá Rauða Krossinum (ég er ekki frá því að ég hafi séð gamlar flíkur frá mér sjálfri) brosandi eyrnanna á milli. Maður sá jafnvel litla stráka í skærbleikum flíkum, frekar montnir af sjálfum sér. Stelpu og strákalitir þekkjast greinilega ekki þegar það er skortur á fötum. Þegar við keyrðum inn fyrir hliðið á Aberdare Range byrjuðum við á því að sjá nokkur villisvín á skokki. Síðan sá Jón gíraffa með lítinn unga með sér ( hvað heita gíraffabörn?) en ég missti af því. Það var nokkuð kostulegt að sjá 18 holu golfvöll og glæsilegan veitingastað þarna upp í fjallinu, sérstaklega eftir að hafa keyrt fram hjá allri þessari fátækt. Við fengum okkur vel útlátin og glæsilegan hádegismat en þurftum að vera nokkuð snögg því að eftir okkur beið sérstök rúta til að flytja okkur upp að Örkinni (the Arc) en þar var stefnt á að gista um nóttina. Örkinn, er gististaður sem nefndur er eftir örkinni hans Nóa. Þetta er hálfgert hótel sem er svoldið í laginu eins og skip og frá bílastæðinu gengur maður á brú inn í húsið. Húsið sjálft er utan á fjalli og fyrir neðan það er stórt vatnsból sem dýr sækja í. Eftir að ræktun byrjaði mikið á svæðinu varð lítið pláss fyrir villt dýr og því var ákveðið að búa til sérstakt verndarsvæði fyrir þau og var það gert í einkaframkvæmd eigenda Abedare Range. Svæðið er risastórt og heilmikið af dýrum þar, t.d. hátt í 300 villtir fílar, en því miður engin ljón. Það voru víst hópur af ljónum inn á svæðinu fyrir tilviljun þegar það var girt, en því miður varð að flytja þau út því að þau voru of þurftafrek (hin dýrin voru í útrýmingarhættu vegna ágengni ljónanna). Fararskjótinn upp í Örkina var samt frekar fyndin, frekar gömul rúta, en við tókum nú ekkert sérstaklega eftir því að hún færi hægt fyrr en Range Rover tók framúr henni á leið upp eina brekkuna og okkur fannst hún hreinlega standa kyrr. Já og svo þegar skólakrakkarnir skokkuðu fram úr okkur, þá varð þetta eiginlega bara fyndið. Þegar við komum upp í Örkina var ekki mikið af dýrum við vatnsbólið. Þar voru nokkrir buffalóar og Waterbacks sem eru hálfgerðar antilópur. Við sáum þó nokkra áhugaverða fugla, og uppáhaldið okkar var fugl sem hékk öfugur í grein á annarri löppinni og hélt á brauðmola í hinni og mataði sig með fætinum. Við höfum bara aldrei séð fugl haga sér á þennan hátt. Nálægt fuglunum voru síðan nokkrir skemmtilegri íkornar, einn hljóp um á brúnni á svo hrikalega fyndin hátt að við vorum alveg í kasti. Hann minnti okkur helst á byrjunar atriðið í Ice Age, hrikalega fyndið, með hnetuna í höndunum, hoppandi um, alveg hrikalega stressaður. Það er þó eitt vert að nefna frá Örkinni. Það var svo ótrúlega kalt svona hátt upp í fjöllunum. Við vorum alveg að deyja úr kulda. Inn í herberginu okkar var svo kalt að okkur leist heldur ekkert á að þurfa sofa þar um nóttina. Þeir voru þó með nokkuð þróað kerfi þarna, sniðugir gaurar. Ef vaktmaðurinn sá eitthvað af “The Big Five” dýrunum þá ýtti hann á buzzer sem var tengdur í öll herbergin og gestirnir komu hlaupandi fram. Eitt buzz var fyrir Vatnabuffalóa, tvö buzz fyrir fíl, osfrv. Um kvöldmatarleytið kom svo tvö buzz og við skelltum okkur út á svalir, þar var mættur hinn glæsilegasti fíll að fá sér að borða. Við ákváðum að fara að fordæmi hans og skelltum okkur í kvöldmat. Seinna um kvöldið kom svo öll fílahjörðin og þegar flestir voru þá voru þeir um 14 stk. þar af einn pinku lítill, líklega um 2-4 vikna gamall. Ferlega krúttlegur. Þegar við vorum loksins búin að tala í okkur kjark til að fara upp í kalda herbergið þá kom á móti okkur óvæntur glaðningur. Það voru tveir hitapokar í rúmmunum okkar. Við fórum að sofa og drógum yfir okkur öll teppin sem við fundum. Okkur leið pinku eins og við værum í íslenskri útilegu, í hlýrri holu en með íssssskalt loft í kringum okkur.
Næsta morgun var haldið af stað til Samburu. Aftur breyttist landslagið talsvert frá frumskóginum í fjöllunum breyttist það yfir í hálf-eyðimörk (semi-desert). Einhver gróður en hann var hálf þurr og mikið af þurri mold. Fólkið breyttist líka og varð ennþá meira óvestrænt. T.d. var frekar algengt að sjá konur berandi risabirgðir á höfðinu, karlmenn í hefðbundnum stríðsmannaklæðnaði ( klútur bundinn um þá og perluskreyttir), konur gangandi með klúta bundna upp á aðra öxlina og annað brjóstið úti osfrv. Okkur leið svoldið eins og við værum komin inn í kennslubók um lifnaðarhætti í afríku fyrr á öldum. Við sáum hjarðir af úlföldum, geitum og beljum og smalanna með þeim. Þetta var frekar óraunverulegt allt. Þegar við vorum komin inn á Samburu verndarsvæðið þá var það fyrsta sem við sáum lítill Tímon (úr The Lion King). Við vitum ekki ennþá hvaða dýr hann er, en við sáum s.s. eitt solleis. Við vissum ekki við hverju við áttum að búast en eftir frekar viðburðarlitla nótt á Örkinni (bara fílar og vatnabuffalóar) þá bjuggumst við ekki við miklu. Eftir 5 mínútna akstur inn á svæðið þá segir bílstjórinn okkar við okkur “ gíraffar” og við lítum í kringum okkur og sjáum ekkert. Hann fer keyrir fyrir horn á veginum og þegar við lítum aftur til vinstri þá er gíraffinn bara hreinlega við gluggann á bílnum. Við urðum að líta upp til að sjá hausinn á honum. Frekar magnað. Þarna voru þeir nokkrir að japla á runnunum. Þeir voru þó frekar feimnir og tróðu sér inn í runnanna til að forðast paparazzi ljósmyndarana okkur. Þegar við komum að gistisvæðinu okkar gátum við ekki annað en hugsað “vááá´”. Það leit alveg æðislega út. Og það var sundlaug þar, sem var alveg dásamlegt því að alveg öfugt við Örkina, þá var alveg rosalega heitt og við alveg að kafna úr hita. Gistingin var þó svoldið sérstök, veit ekki alveg hvar á flokka það. Við gistum s.s. í tjöldum, en tjald er þó ekki beint rétta lýsingin því að í tjaldinu var baðherbergi, með tveimur vöskum, sturtu, klósetti og lýsingu. Herbergið sjálft var frekar stórt með rúmmi með himnasæng, skrifborði, skáp og viftu í loftinu. Gólfið var úr steini og yfir tjaldþakinu var stráþak. Fyrir framan tjaldið (sem var á staurum) var síðan verönd sem vísaði yfir ánna. Það fyndnasta þó við þennan gististað voru þó aparnir. Þetta voru svona litlir apar eins og Hr. Níels í sögunni um Línu Langsokk. Þeir voru gráir með svört andlit og karlarnir voru með skærbláan pung. Frekar kostulegt. Nema hvað, þegar við fórum úr tjaldinu var okkur bent á að renna vel niður, binda reimarnar saman, setja gólfmottuna yfir hnútinn og borð þar ofan á. Aparnir voru nefnilega búnir að læra að renna rennilásum og leysa hnúta. Þeir voru bara ekki nóg sterkir til að geta fært borðin ofan af mottunni. Þannig átti maður að geta haldið dótinu sínu nokkuð apafríu meðan maður var í burtu. Einn daginn þegar við vorum þó inn í tjaldinu heyrðum við eitthvað rjátlað við hnútana svo heyrðum við þegar rennilásnum var rennt upp og pínulítil hönd gægðist inn. Við rákum apann í burtu en maður gat ekki annað en skellihlegið á meðan, þeir voru svo rosalega krúttlegir.
Meira frá Samburu seinna...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home