miðvikudagur, nóvember 22, 2006

beta, beta, beta, betatest?

Fólk sem ég hitti í tengslum við vinnuna finnst það vera fyndin íronía að heita Beta og vera að vinna í leikjabransanum. Erfitt að útskýra að þetta sé ekki "ingame" nafn heldur í alvöru stytting á nafninu Elísabet á Íslandi.

Annars er ég búin að eignast síamstvíbura í vinnunni. Það er hún Anna, hún er markaðstjórinn fyrir Bandaríkin og erum við orðnar alveg óaðskiljanlegar. Við sáum um Fanfestið saman og í framhaldinu af því þá urðum við svo mikið teymi að við göngum báðar undir nafninu "AnnaogBeta". Fólk er ekkert að pæla hvor er hvað lengur, ég er stundum kölluð Anna og svo öfugt. Eftir að hafa unnið svona mikið náið saman í gegnum Fanfestið þá tók það okkur svoldin tíma að venjast af því. Við áttum það til að elta hvor aðra um skrifstofuhúsnæðið, bara af gömlum vana því við vorum orðnar svo vanar því að vera alltaf á leiðinni á sömu fundina, eða á leiðina að tala við sama fólkið hvort eð er. Frekar fyndið þegar mar fór á auto-pilot og elti Önnu inn á einhverja skrifstofu án þess spá í því nánar. Anna var líka orðin svo vön því að hafa mig nálægt að ég heyrði af því að hún átti það til að hefja samræður við mig þó ég væri hvergi nálægt. Það keyrði þó allt um þverbak þegar við fórum saman að skoða íbúð um daginn. Okkur fannst við voða sniðugar, spurning samt hvort það sé ekki full langt gengið.

Við píurnar höfum tekið upp skemmtilega iðju, núna spilum við pool í vinnuni 1-2svar á dag. Markmiðið er að læra reglurnar og að verða nógu góðar til að eiga séns í einhvern í vinnunni... það er alltaf gott að hafa háleit markmið :)Við skemmtum okkur alla veganna konunglega og það er fyrir mestu.
Jæja, góða nótt allir saman. Ég er farin í háttinn. Það er langur dagur á morgun, og ég er viss um að ég eigi eftir að segja ykkur frá því seinna.

P.s.ég hef heyrt því fleygt að Anna gangi víst núna undir nafninu Alpha.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Jóla, hvað?

"Snjókorn falla, á allt og alla, börnin leika og skemmta sér" Ég hummaði með um leið og ég reyndi að festa jólapappírinn utan um jólagjafirnar án þess að líma sjálfa mig fasta við. Tónlistinn frá Jólastjörnunni á netinu er ómissandi þegar mar vill komast í jólaskap, en ég var samt með nettan móral yfir því að vera taka svona forskot á sæluna. Mér fannst ég ekkert voðalega kúl.

Þegar ég vaknaði í morgun þá var allt á kafi í snjó (eins og hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum). Ég fylltist strax feiknamiklu jólaskapi og ákvað strax að drífa í því að skrifa jólakortin eða pakka inn jólagjöfunum (eins og sumir muna þá var ég nefnilega búin að versla þær, magnað). En... út af ófærð þá var ekki svo auðvelt að skjótast út í búð að kaupa pappír né kort, þannig að mín leitaði bara að gamla pokanum sem mamma geymir, með öllum gömlum jólapappírnum sem alltaf á að nota en aldrei er notaður. Er ekki til svona poki á öllum heimilum? Svo dundaði ég mér við að pakka inn jólagjöfunum inn í pappír frá hinum ýmsu áratugum. Svo skreytti ég þá, stakk tungunni út á kinn og vandaði mig við að líma stjörnur, teikna, strá glimmeri og lita á pappírinni. Seinnipartinn stóð ég svo upp og leit yfir afraksturinn, og var bara nokkuð ánægð með árangurinn. Þarna var stór hrúga af allskonar pökkum, og enginn í eins pappír og undarlegustu skreytingar á þeim í ofanálag.

Næst á dagsskrá, jólakortin... einhverjar hugmyndir?

Hversdags rómantík

Það er komið fram yfir miðnætti og ég sit hérna inni hita og ró meðan veðrið bylur úti. Nick Cave og slæma útsæðið hans er í græjunum og útsýnið út um gluggann er eitthvað þessu líkt.

Ég ætla sko ekki að blogga en...

"Svússs, bamm, búmm..." Við sátum í myrkrinu og tróðum í okkur poppinu. Reglulega hrökk mar í kút og þess á milli litum við á hvort annað og sögðum "góður!". Við pabbi fórum nefnilega saman í kvöld á James Bond myndina. CCP var svo næs að gefa okkur miða á myndina og þar sem að spúsan mín er í Svíþjóð (CCP býður manni alltaf "with spouses"), þá bauð ég pabba með mér. Og myndin stóð bara alveg fyrir sínu, jafnvel frekar langt síðan mar sá svona góða mynd í bíó. En ég bjóst svo sem líka við alveg hræðilegri mynd. Kannski er skoðun mín svoldið lituð af því að andlitið á James Bond minnir núna meira á Austur Evrópskan veðurbarinn verkamann af Kárahnjúkum, en glæsimennnið Bond... En kroppurinn bætir nú eiginlega upp fyrir það. Held að herra Connery hafi aldrei verið í svona formi. Svona er ég nú grunn :) (róleg, róleg... Jón veit allt um það, enda óvenju myndarlegur maður á ferð).

Talandi um það að vera grunnur, ég komst að því í vikunni að ég er ekki meiri manneskja en það að ég er með útlitsfordóma. Það er kannski ekki smart að viðurkenna það, en ég held allir búi yfir fordóma en það mættu fleiri líta í eigin barm og viðurkenna það og þar með eiga möguleikan að takast á við fordómana sína. Ég s.s. hitti manneskju sem ég var búin að ímynda mér allt öðruvísi og þegar ég hitti manneskjuna í fyrsta skipti þá breyttist álit mitt á manneskjunni talsvert, og það var alveg ómeðvitað og óvart. Sem er ekki nógu gott, því ég var búin að vera í samskiptum við hana áður og hafði bara jákvæða reynslu. Svo þegar útlitið reyndist vera svoldið mikið langt frá norminu hérna á klakanum, þá ósjálfrátt hrökk ég við. En þar sem þetta er mitt vandamál ekki hennar, þá ætla ég að taka á mig rögg og hætta þessum útlitsfordómum. Allaveganna er hennar karakter ekkert minna yndislegur en hann var áður.

Mér finnst samt magnað hversu marga ég hef heyrt segja upp á síðkastið setningar sem hljóma sirka svona "ég er enginn rasisti, ég hef ekkert á móti útlendingum... vil bara ekki hafa þá hér og finnst að þeir eigi að vera heima hjá sér". Mér finnst alltaf fyndið þegar fólk heldur að það geti haldið einhverri staðhæfingu fram um sjálft sig (dæmi: ég ætla ekki að vera leiðinlegur) og í framhaldinu segir það akkúrat andstöðu þess sem það hélt fram (dæmi: en þú ert ógeðslega mikil tík). Þegar sumir ætla að halda einhverju fram sem það heldur að sé dæmt af öðrum á einhvern hátt, þá byrjar það að taka það fram að það sé ekki svo, en segir samt akkúrat það sem það ætlað sér. Eruð þið að fatta mig? Ég er ekki voða klár í að útskýra þetta, ég skal koma með nokkur dæmi sem ég hef heyrt í kringum mig.

"Ég ætla ekki pressa á þetta mál, en það þarf að afgreiða þetta strax" (ehhh jú... þú ert að pressa, own it!)

"Ég ætla ekki að vera leiðinlegur, en þú ert sko... blablabla" (ehhh... jú, sama hvort þú vildir það eða ekki, þú ert samt leiðinlegur með þessi kommenti, own it!)

"Ég hef ekkert á móti útlendingum, vil bara ekki hafa svona marga hér á Íslandi" (Ef þú hefðir ekkert á móti útlendingum, þá væri þér slétt sama. Ef þetta snýst um vinnu fyrir Íslendinga, þá ættirðu að vera á móti framkvæmdaleysi íslenskra stjórnvalda þar sem þau hafa ekkert gert til stöðva innflutning á erlendu vinnuafli né að hjálpa því fólki sem flytur til Íslands í að aðlagast samfélaginu. Fyrir mér hljómar þetta eins og "Ég er ekki rasisti, ég bara þoli ekki svart fólk")

og svo einn klassískur í endann...

"Ég hef ekkert á móti samkynhneigðu fólki, bara skil ekki þessa athyglissýki" (Ef þú hefðir ekkert á móti þeim, þá væri þér slétt sama. Ein skrúðganga á ári skiptir ekki máli, ef þú ert á móti athyglissýki beindu þá gagnrýninni að íslenskum pólitíkusum eða fólkinu í Séð og Heyrt)

Vááá... ég var að lesa þetta yfir og nettur pirringur í gangi í kvöld hjá mér... úpps, hehehe. Jæja ég vona að þið fyrirgefið mér nöldrið. Og svo í lokinn ætla ég ekki að vera óviðeigandi, en það er greinilega seríús PMS í gangi :)
Lofa að vera sætari næst!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Hérastubbur bakari og bakaradrengurinn

Það hefur margt breyst á síðustu mánuðum hjá manni. En sumt breytist aldrei, það er aldrei skortur á hjálparkokkum ef það á að búa til súkkulaðiköku. Ég og pabbi vorum að enda við að baka Franska súkkulaðitertu og fór framleiðslan fram úr björtustu vonum. Enda má svo sem ekki búast við öðru þegar hjálparkokkurinn hefur starfsreynslu úr bakaríi. Tæknin sem sýnd var við framleiðsluna var bara nokkuð góð og fátt hefur gleymst í gegnum árin. En þegar það heyrðist niðurbælt bölv vegna þess að tæki og áhöld í eldhúsinu hefðu á furðulegan hátt gufað upp, þá er ég ekki frá því að ég hafi heyrt móður mína flissa fram í stofu.
En inn í ofnin fór fyrirtækið og nú bíðum við spennt fylgjumst með því að 40 mínúturnar líði.

Fyrir ykkur sem hafa undrast yfir því hvað hafi orðið um mig þegar ég fluttist til landsins, að þá er EVE Fanfest nú lokið og því má fólk búast við því að ég fari að svara símhringingum og jafnvel það sem verra er...ég gæti farið að heimta að fara hitta fólk.