fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Seinkunn vegna laufa

Ferðin til Helsinki var hrein snilld! Skipið var alveg frábært þrátt fyrir litla káetu. Það voru öll þægindi þarna og við nýttum þau að fullu. Helsinki sjálf var samt ekkert að skarta sínu besta fannst mér. Held að það sé líka skemmtilegra að fara að sumri til. En skipið var alveg það besta við ferðina. Þegar við förum aftur, þá stefni ég á að sofa fram að hádegi (eftir djammið) þegar við lendum í Helsinki, skríða út á Hesburger (hin finnska útgáfa af MacDonalds) og fá mér að borða. Fara svo aftur upp á skip og leggjast í heita pottinn, þaðan er nefnilega útsýni yfir borgina. Það gerðist margt markvert í þessari ferð og ég mæli með því við alla að fara í slíka ferð, og ef ykkur vantar ferðafélaga, þá erum við alveg til! Þar sem ég er ekki alveg búin að læra á myndakerfið hans Gumma þá linka ég bara á myndirnar þeirra. Já og þeir sem vilja vita meira um ferðina geta bara lesið bloggið hennar Sveinku.

Annars erum við með merkilega frétt. Nibbb, ég er ekki ólétt. Merkilegu fréttirnar eru þær að við erum komin með nýja íbúð. Hún er í Västra Skogen á bláu línunni (lestarlínurnar eru merktar með litum). Þannig að nú er stutt bæði fyrir mig og Jón í skólan. Jón er t.d. 10 mín með lest í skólan núna. Íbúðin er alveg heilir 44 fm og á fjórðu hæð. Við erum með lítið baðherbergi, minnsta eldhús í heimi, risa-risa svefnherbergi og kompu/skrifstofu. Það er nefnilega mjög furðulegt skipulagið á íbúðinni. En sem betur fer höfum við mánuð til að finna út úr því hvernig við skipuleggjum hana. Við fáum lyklana afhenta þann 2. desember og strax komin með langan lista af fólki sem ætlar að koma að hjálpa að flytja/klára bjórinn. Meira segja Sveinka ætlar að koma með bumbuna sína og er búin að panta tusku.

Hins vegar eru vondu fréttirnar þær að Vala ætlar að fara aftur heim. Sniff, sniff! Hún fær enga vinnu hérna og getur líklega fengið vinnu heima. Það er búið að skipuleggja kveðjuathöfn sem byrjar eftir vinnu á morgun (föstudagur) og ef vel fer þá er áætlað að hún endi snemma á sunnudagsmorguninn. Við Vala erum strax búnar að skipuleggja hitting um jólin.

Annars er maður að smitast af Svíunum. Ég og Sveinka vorum að spjalla saman í gær á Íslendinga-Onsdagspub að við ættum að gera smákökur fyrir jólin. Einhver spurði okkur hvað við værum að spjalla um og við svöruðum "erum að spá í að hittast annan sunnudaginn í aðventu og baka smákökur!" ... um leið og við höfðum svarað fölnuðum við og litum á hvor aðra, "ehhh... spáum bara í þessu seinna".
Ég get ekki annað en spáð í því að ég er bara búin að vera hérna í 2 og hálfan mánuð, hvernig verð ég þegar ég kem heim?

Jón brilleraði í einum áfanganum sínum sem hann var að klára. Hann var sá eini í bekknum sem náði að klára öll verkefnin sem voru sett fyrir og skila þeim á réttum tíma. Enda sat hann hérna öll kvöld og hamaðist við að gera þau. Enda var bloggið svoldið svelt á þeim tíma.

Mohammed og Suzanne fóru til Kairó í morgun og því mun ég sjá ein um búðina á meðan, það er bara kúl. Annars verð ég að fara safna saman einhverjum sögum úr vinnunni og skrifa hérna. Þið trúið ekki í hverju ég hef lent þarna, frekar fyndinn staður.

Já, og eitt í endann. Maður gæti trúað því að það verði seinkun á lestunum vegna bilana, hálku og snjós. Aldrei bjóst ég við því að það yrði seinkunn á lestum vegna laufa.

Farin að kúra hjá Nonna fyrir framan boxið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home