Stjarnan, og sagan af gamla hjólinu
Það var kominn tími til að skrifa nýtt blogg á þessa síðu fyrir mörgum mánuðum síðan. En eitthvað hefur það dregist. Líklega vegna tímaleysis... eða við teljum okkur sjálfum trú um það. Það hefur ýmislegt á daga okkar drifið það merkilegasta er þó utanlandsferðir og fyrsta íbúðin okkar. Já við höfum loksins eignast saman okkar eigin íbúð og erum flutt í Garðabæinn, heimabæ sjálfstæðismanna og Stjörnunnar. Stjarnan á held ég bara nokkuð vel við okkur og ég sé fram á fínasta samband í framtíðinni. Enda er hún jafn léleg og við í íþróttum... eða það held ég, man ekki eftir að hafa heyrt af neinum árangri Stjörnunnar.
Þessa daganna dreymir mig bara um húsgögn í íbúðina og nýtt hjól. Mig langar svo ferlega í alvöru hjól. Ég hef bara einu sinni um ævina eignast nýtt hjól. Það var þegar ég var 11 ára og ég hélt ég myndi deyja úr hamingju. Uppáhaldshjólið mitt er samt án efa fyrsta hjólið mitt. Ég var fimm eða sex ára þegar ég fékk það. Þar sem ég átti ekki hjól þá gekk illa að læra hjóla. Bjögga og Hildur tóku verkið að sér og byrjuðu að kenna mér að hjóla á hjólinu hennar Bjöggu. Það hjól var svo lítið að ég held að það sé svona eins og hjólið hans Krusty í Simpson.
Þegar pabbi og mamma sáu að krakkarnir í hverfinu voru byrjuð að taka að sér uppeldishlutverkið þá var pabbi sendur í það að finna hjól handa mér. Hjól kostuðu sitt og það var ekki hægt að henda peningum í hvað sem er á þeim tímanum, en mamma og pabbi björguðu því á endanum. Þau fengu gamalt lítið hjól frá vinkonu mömmu. Þetta var heimsins ljótasta hjól, það var eiturgrænt með stórum ryðskellum og svarta plastið á handföngunum var dottið að mestu af. Pabbi kláraði hjólakennsluna á þessu hjóli, en það var eitthvað lítið um áhuga hjá mér. Ég hljóp frekar á eftir vinkonum mínum á hjólunum en að fara á þessu hjóli. Ég man ennþá eftir því hvað mér fannst hræðilega vandræðalegt að hjóla á þessu hjóli upp og niður götuna. Ég stakk höfðinu næstum ofan í peysuna og hjólaði eldrauð í framan, skelfingu lostin um að einhver myndi fara gera grín að hjólinu. Svona gat maður verið vanþakklátur. Þarna var pabbi og mamma búin að hafa fyrir því að redda mér hjóli, og ég var ekkert nema snobbið uppmálað.
Ég veit ekki hvor foreldra minna áttaði sig á því hvað vandamálið var. Nema hvað, einn daginn kallar pabbi á mig og segist þurfa láta mig máta til að stilla hnakkinn. Ég kem út og þá bíður eftir mér flottasta hjól sem ég hafði nokkurn tíman séð! Það var alveg hvítt með rauðum höldum á stírinu. Það hreinlega skein af því og ég er ekki frá því að ég hafi heyrt í básúnum þegar ég sá það. Ég smellti mér upp á það og pabbi lagaði hnakkinn. Ég heimtaði strax að fara út að hjóla á því en pabbi sagði að það væri ekki tilbúið. Mér var nett sama og fékk að taka tvo hringi í götunni. Því miður var hvorki Bjögga né Hildur út að leika. Pabbi tók hjólið inn í skúr og kláraði það sem hann þurfti að gera. Eftir það fór ég varla af þessu hjóli. Mér þætti svo vænt um það og ég stækkaði um helming við að hjóla á því. (Treystið mér, það munaði um allt þegar marður var/er svona dvergur). Montaði mig við alla sem sáu til mín. Hápunkturinn var þegar Valgerður mamma hennar Hildar kallaði meira segja til mín af bílastæðinu og spurði hvort ég væri á nýju hjóli. Mér fannst ekkert smá gaman, að meira segja fullorðna fólkið tæki eftir nýja hjólinu mínu.
Það var einhverjum dögum seinna að ég fór að velta fyrir mér hvað varð um græna hjólið. Mig langaði að lána það einhverjum krakkanum sem vantaði hjól. Þá sagði mamma mér að ég væri að nota það, pabbi hefði bara gert það fínt fyrir mig. Það rann upp fyrir mér þarna, pabbi minn er greinilega algjör snillingur. Ég held ég hafi aldrei nokkurn tíman verið jafn montin af nokkrum hlut í minni eigu.
Hvernig get ég fundið hjól sem ég er sátt með, þau blikna öll í samanburði við gamla hjólið mitt!
Svona í lokin verð ég að taka það fram að rauðu höldin voru að sjálfsögðu gerð með rauðu rafmagnsteipi. Þeir sem þekkja föður minn vita að það er ekki til það vandamál sem hann getur ekki lagað með rafmagnsteipi.
Þessa daganna dreymir mig bara um húsgögn í íbúðina og nýtt hjól. Mig langar svo ferlega í alvöru hjól. Ég hef bara einu sinni um ævina eignast nýtt hjól. Það var þegar ég var 11 ára og ég hélt ég myndi deyja úr hamingju. Uppáhaldshjólið mitt er samt án efa fyrsta hjólið mitt. Ég var fimm eða sex ára þegar ég fékk það. Þar sem ég átti ekki hjól þá gekk illa að læra hjóla. Bjögga og Hildur tóku verkið að sér og byrjuðu að kenna mér að hjóla á hjólinu hennar Bjöggu. Það hjól var svo lítið að ég held að það sé svona eins og hjólið hans Krusty í Simpson.
Þegar pabbi og mamma sáu að krakkarnir í hverfinu voru byrjuð að taka að sér uppeldishlutverkið þá var pabbi sendur í það að finna hjól handa mér. Hjól kostuðu sitt og það var ekki hægt að henda peningum í hvað sem er á þeim tímanum, en mamma og pabbi björguðu því á endanum. Þau fengu gamalt lítið hjól frá vinkonu mömmu. Þetta var heimsins ljótasta hjól, það var eiturgrænt með stórum ryðskellum og svarta plastið á handföngunum var dottið að mestu af. Pabbi kláraði hjólakennsluna á þessu hjóli, en það var eitthvað lítið um áhuga hjá mér. Ég hljóp frekar á eftir vinkonum mínum á hjólunum en að fara á þessu hjóli. Ég man ennþá eftir því hvað mér fannst hræðilega vandræðalegt að hjóla á þessu hjóli upp og niður götuna. Ég stakk höfðinu næstum ofan í peysuna og hjólaði eldrauð í framan, skelfingu lostin um að einhver myndi fara gera grín að hjólinu. Svona gat maður verið vanþakklátur. Þarna var pabbi og mamma búin að hafa fyrir því að redda mér hjóli, og ég var ekkert nema snobbið uppmálað.
Ég veit ekki hvor foreldra minna áttaði sig á því hvað vandamálið var. Nema hvað, einn daginn kallar pabbi á mig og segist þurfa láta mig máta til að stilla hnakkinn. Ég kem út og þá bíður eftir mér flottasta hjól sem ég hafði nokkurn tíman séð! Það var alveg hvítt með rauðum höldum á stírinu. Það hreinlega skein af því og ég er ekki frá því að ég hafi heyrt í básúnum þegar ég sá það. Ég smellti mér upp á það og pabbi lagaði hnakkinn. Ég heimtaði strax að fara út að hjóla á því en pabbi sagði að það væri ekki tilbúið. Mér var nett sama og fékk að taka tvo hringi í götunni. Því miður var hvorki Bjögga né Hildur út að leika. Pabbi tók hjólið inn í skúr og kláraði það sem hann þurfti að gera. Eftir það fór ég varla af þessu hjóli. Mér þætti svo vænt um það og ég stækkaði um helming við að hjóla á því. (Treystið mér, það munaði um allt þegar marður var/er svona dvergur). Montaði mig við alla sem sáu til mín. Hápunkturinn var þegar Valgerður mamma hennar Hildar kallaði meira segja til mín af bílastæðinu og spurði hvort ég væri á nýju hjóli. Mér fannst ekkert smá gaman, að meira segja fullorðna fólkið tæki eftir nýja hjólinu mínu.
Það var einhverjum dögum seinna að ég fór að velta fyrir mér hvað varð um græna hjólið. Mig langaði að lána það einhverjum krakkanum sem vantaði hjól. Þá sagði mamma mér að ég væri að nota það, pabbi hefði bara gert það fínt fyrir mig. Það rann upp fyrir mér þarna, pabbi minn er greinilega algjör snillingur. Ég held ég hafi aldrei nokkurn tíman verið jafn montin af nokkrum hlut í minni eigu.
Hvernig get ég fundið hjól sem ég er sátt með, þau blikna öll í samanburði við gamla hjólið mitt!
Svona í lokin verð ég að taka það fram að rauðu höldin voru að sjálfsögðu gerð með rauðu rafmagnsteipi. Þeir sem þekkja föður minn vita að það er ekki til það vandamál sem hann getur ekki lagað með rafmagnsteipi.