sunnudagur, júlí 30, 2006

Skýrslan

Vá, hvað það er langt síðan við skrifuðum síðast. Þegar líður svona langt á milli þá fær maður hálfpartinn kvíðakast yfir að skrifa um allt það sem á daga okkar hefur borið.

Eftir allar sukk og grillveislurnar í júní þá fórum við með Sveinku, Gumma og Ragnhildi litlu í sveitina í Arboga til Grétars frænda míns, til að halda upp á Midsommar. Það var alveg dásamlegt og þvílíkt skemmtilegt. Við átum þvílíkt mikið af góðum mat (þar á meðal sænska midsommar máltíð, nammi namm...), sólbrunnum í sólinni, sáum kameldýr og klöppuðum hestum og kistum, þau hin fóru á fjórhjól (ég var heima og eldaði Enchiladas í hádegismat, sem var svo snætt út í garði), skutum upp rakettunni hans Jóns, það var sungið fyrir okkur sænskar snappsa-vísur og svo fórum við á róbotasafn. Ferðin var í alla staði hin mesta snilld og ég mæli með því að þið kíkji á myndirnar hjá Sveinku og Gumma þar til við setjum okkar inn.

Eftir middsommar hátíðina miklu skellum við Jón okkur upp í Dalana en þar var Sigurrós að spila á stað sem heitir Dalhalla. Dalhalla er risastór og glæsileg grjótnáma sem nú er notuð sem tónleikastaður. Við leigðum okkur bíl og keyrðum þarna upp eftir, gistum svo í litlum kofa og fórum á tónleikana. Þeir voru að sjálfsögðu algjör snilld og Dalhalla er afar magnaður staður. Djúp náma með sviði fljótandi á vatni í botninum. Þið getið skoðað Dalhalla nánar hér. Á leiðinni tilbaka þá stoppuðum við Jón og kíktum á Dalahestinn mikla. Þið fáið vonandi að sjá myndir af honum bráðlega.

Eftir Sigurrósar tónleikana var komið að Íslandsferð. Á Íslandi tóku við nokkrir dagar af vinnu fyrir mig og svo var brúðakaupið þeirra Rósu og Viðar þar sem ég hafði tekið að mér að vera veislustjóri. Athöfnin var afar falleg og veislan alveg stórskemmtileg. Það voru þreyttir en sælir veislugestir sem skriðu heim til sín um sjöleytið um morgunin.

Um leið og við vöknuðum var komin tími á að skutlast austur fyrir fjall þar sem okkur hafði verið boðið í sumarbústað með fjölskyldu Jóns. "um leið og við vöknuðum" var seint eftir hádegi sökum skemmtilegs brúðkaups en þegar við mættum í bústaðinn beið okkar rosaleg nautasteik að hætti Gaua. Smjatt, smjatt... hvergi fær mar eins góðar steikur eins og hjá Gaua! Dagarnir í búðstaðnum liðu í mikilli afslöppun og pottaferðum, afar gott líf!

Þegar við komum aftur í bæinn var okkur boðið í afmæli til hennar Önnu. Partíið sem byrjaði afar settlega með máltíð í nettri fjölskyldu stemmingu tók þó afar skarpa beygju þegar Anna opnaði pakka með Singstar í. Í byrjun þá heyrðist "nei, ekki ég, guð ég kann ekki að syngja" "nei biddu einhvern annan". Það leið þó ekki á löngu þar til það fór að heyrast "nei mar, þú ert búin að syngja tvö lög í röð. Nú er komið að mér" (read as... koddu með mækinn tíkin þín!) Eigum við ekki bara að orða það þannig að löggan hefur sjálfsagt átt erfitt með að halda andlitinu alvarlegu þegar þeir komu að kvarta yfir hávaða.

Síðan við komum út hafa svo dagarnir farið í afsleppelsi og sólböð. Við fórum reyndar út á Drottningarhólm í vikunni og ég mæli með því við alla sem hafa ekki gert það. Svo erum við búin að uppgötva að útisundlaugin hérna fyrir neðan (niðri við vatn) er með ókeypis inn og hún er því óspart notuð þessa dagana. Æðislegt að geta bara rölt nokkrar mínútur og geta legið í sólbaði og dýft sér svo í laugina þess á milli. Ég sagði einmitt við Jón í dag að mér liði eins og á hóteli, mar væri bara með sundlaugin og sólbaðsaðstöðuna rétt hjá sér. Ég keypti mér meira segja sundgleraugu til að geta tekið nokkra metra í lauginni.

Kvöldin hafa hinsvegar farið í merkilega iðju og ég held að við getum seríúslí farið að flokkast til alvarlegra njarða. Við situm á kvöldin og spilum saman EVE. Og það merkilega er að það er ekki út af vinnunni sem ég geri þetta... við byrjðum að prófa og svo er þetta svo ótrúlega ávanabindandi að við erum gjörsamlega húkkt. Sem betur fer erum við bæði í þessu, annars myndi Jón ekki ná neinu sambandi við mig á kvöldin!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home