þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Karaktersafnið mitt

Ég elska neðanjarðarlestina. Sumir hata hana, finnst þeir vera eins og kindur leiddar til slátrunar, en ég elska hana. Hvergi annars staðar sér maður jafn undarlegt fólk samankomið! Ég held ég geti ferðast stundum heilu dagana og bara skoðað fólkið. Þetta er á vissan hátt eins og að vera á "karakter" safni. Í gær t.d. hitti ég einn sem var eins og klipptur úr í japanskri mafíu-mynd. Hann var greinilega asískur með kolsvart, gljáandi slétt hár sem náði honum niður í mitti. Utan um sig var hann í ljósbrúnum rykfrakka og svo hélt hann þéttingsfast í svarta skjalatösku. Ég beið bara eftir að hann myndi snúa sér með hringsparki og svo myndu frakkinn og hárið hanga í loftinu í "sló-mó" á meðan hann vippaði fram sjálfvirkum byssum. En nei, hann andvarpaði bara í þröngri lestinni og gekk út á næstu stöð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home