þriðjudagur, október 19, 2004

...svo höldum við um þumalinn

Pabbi og mamma fóru í morgun, sniff, sniff... Mig langaði bara ekkert að kveðja þau. Þau komu síðasta þriðjudag og voru í viku. Það var alveg ferlega gaman að fá þau og vindsænginn úr Rúmfatalagernum var alveg að standa sig. Þannig að fyrir þá sem langar að koma að þá er það alveg óhætt, sængurnar og dýnan eru eins og á 5 stjörnu hóteli... eða alla veganna 2 stjörnu.
Ég sé líka fram á að það verður algjör snilld að fá gesti frá Íslandi, sérstaklega ef þeir eru eins og p&m. Mamma byrjaði á að draga fram úr töskunni þessa hnausþykku lopasokka á Jón. Já, nú verða engar kaldar tásur á kvöldin (og takið eftir, það eru Nonna tásur sem eru kaldar, merkilegt nokk!). Svo dró hún fram N&S súkkulaði í aðventusúkkulaðið, svo birtist kíló.... já heilt kíló af lakkrísafgöngum beint frá lakkrísverksmiðjunni í HFJ. Nammi, nammi, namm! Og svo kom slatti af hinu og þessu úr fríhöfninni. Við erum ennþá með sælubros á vör!

Eins og fólk veit að þá finnst fjölskyldunni minni ekki leiðinlegt að borða og við átum svo hrikalega mikið síðustu vikunna að ég bætti á mig 5 kílóum. Það er alls ekki nógu gott, Jón huggar mig við það að það sem kemur hratt á mann fer líka hratt aftur þannig að ég held í vonina. En svona til að bæta þetta upp þá verð ég að viðurkenna að maturinn er búin að vera algjört himnaríki. Hann samanstóð af nautasteikum, rauðvíni, svínasteik með rjóma, dýrindis pastaréttum, hvítvíni, enchiladas, súkkulaði, ís, lakkrís, eplakökum, steiktum eplum, bratwurst, kirsuberjasúpu og kókosbollum. Úff... ég bara þyngist við að lesa þetta.

Við fórum um helgina til Grétars frænda í Arboga og gistum eina nótt. Það var alveg ferlega skemmtilegt. Hann býr þar með kærustunni sinn henni Jenny en hún er sænsk skvísa. Þau eiga heima á sænskum sveitabæ þar sem allt er kynt með eld. Meira segja þegar er eldað er bara mokað við inn í eldavélina og kveikt í. Hún er svona helv. fínt módel af Husqvarna "29 og í góðu standi. Þegar ég skrifa "29 þá á ég við að hún er módel 1929 en það er einmitt árið sem hún var framleidd, frekar sniðugt. Grétar var að spá í að hringja í Husqvarna og athuga hvort þeir ættu varahluti í hana, en fannst það svona frekar ólíklegt. Þau eru líka í frekar stóru og skemmtilegu húsi. Þau eru með þrjú svefnherbergi, borðtennisborð í stofunni og risa djúkbox. Frekar kúl!

Eftir að hafa étið á okkur gat hjá Jenný þá fórum við með henni út í skóg þar sem hún kenndi okkur að tína kantarellur en það eru sveppir sem svíar eru alveg óðir í. Við fundum alveg 2 kíló og ég fékk að taka það allt með heim og nú á ég nóg af kantarellum í fyrstinum fyrir veturinn. Ég fílaði mig rosa heimilislega þegar ég var að sjóða þá niður með mömmu, fannst ég taka mig frekar vel út með svuntuna. Við fengum líka að tína epli úr garðinum þeirra og borða og svo fengum við að smakka kirsuberjasúpu sem var gerð úr kirsuberjum úr garðinum þeirra. Ekki amalegur, garðurinn sá.
Út í skógi sýndi Jenný okkur tré þar sem að elgur hafði barkarflett. Það var barasta ekki einasti börkur á trénu upp í svona 3.5 m hæð. Mér leist ekkert á blikuna og langaði ekkert að rekast á elg. Þeir eru víst frekar skapvondir þessa dagana, enda er verið að skjóta þá í massavís (hver færi ekki í vont skap við það) og svo eru þeir víst bara í vímu af ofgerjuðum eplum. En sem betur fer sáum við bara bamba...

En stefnan þessa dagana er bara að halda áfram að leita að íbúð (gisp!) og Jón lærir og lærir fyrir próf. Fyrsta prófið er á fimmtudag og seinna prófið á laugardag. Allir að halda um þumalinn fyrir hann! (Svíar halda um þumalinn, eins og við krossum fingurnar).

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hæ - það verður erfitt að feta í fótspor foreldra þinna eða ætla að toppa þessa heimsókn þeirra. Þetta virðist amk. hafa verið ákaflega skemmtileg og velheppnuð heimsókn. Þetta með 5 kílóin er væntanlega ýkjur !! en ég trúi að maturinn hafi verið góður. Biðjum að heilsa í bili og höldum um þumalinn eins og innfæddir Svíar ;-)

20 október, 2004 00:32  

Skrifa ummæli

<< Home