sunnudagur, október 10, 2004

Það kom í ljós sturtuhaus...

Í dag fórum við í afmæli til hennar Sveinbjargar vinkonu okkar. Hún var að verða 24 ára gömul. Þegar við mættum á svæðið þá beið okkar alveg drekkhlaðið borð af kræsingum, það svignaði hreinlega borðið. En því miður þurftum við stelpurnar að sitja og horfa á kræsingarnar þangað til að strákarnir komu úr bandí. Það var frekar erfitt verð ég að segja. En borgaði sig vel á endanum. Þvílík veisla! Enda ekki við öðru að búast frá svona rosa-húsmóður eins og Sveinbjörgu. Ég vildi að ég væri svona skvísa eins og hún. Hún er ein af þessum týpum sem bara svona vippar þessu fram úr annarri erminni. Meira segja þegar við stelpurnar sátum og spjölluðum við hana þá bara skellti hún í bollur og bakaði meðan við spjölluðum. "Æji þúst, bara skellti einhverju í skál-uppskrift" sagði hún þegar ég spurði hana um uppskrift. Fat chance að það tækist einhvern tíman hjá mér. Ég held í vonina að svona komi með því að verða mamma, svona svipað eins og að öðlast gáfuna að finna á enninu á fólki hvort það sé með hita eða ekki.

Áður en við fórum til Sveinbu þá fórum við að skoða íbúð. Ég féll fyrir öllu varðandi íbúðina, nema íbúðinni sjálfri... sem er svoldill ókostur. Það var gufa, æðislegur garður, stórt útigrill og stólar í þessum þvílíkt krúttlega garði, geymsla í kjallaranum og hálofti, hjólageymsla, þvottahús, nálægt miðbænum og lestinni. En það sem var að var að íbúðin var fáránlega lítil (rúmmið í stofunni), ekkert skápapláss og til að komast á klóstið þarftu að labba í gegnum sturtuna. Já, þegar við opnuðum klóstið þá blasti við sturtuhaus beint fyrir ofan hurðagættina og síðan kom vaskur og síðast klóstið. Frekar furðulegt allt saman! Ég verð samt að bæta því við að Jón benti sposkur á þann gífurlega tímasparnað að geta farið á klóstið, burstað í tennurnar og labbað í gegnum sturtuna á leiðinni út á morgnanna, allt á fimm sekúndum. Ég var samt ekki alveg að kaupa það enda var um óheyrilega bjartsýni að ræða. Þannig að við ákváðum að halda áfram að leita að íbúð.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Bíddu, bíddu... ertu að segja fréttir? HA? Nú hef ég skúbb í vinnunni...

Áttu von á að geta farið að baka fljótlega... eftir hvað 7 mánuði?

kv. Vilma

12 október, 2004 00:42  
Anonymous Nafnlaus said...

Ha, nei Vilma mín, nú ertu því miður að ruglast eitthvað :D Ég var bara að kommenta á þetta því að hún Sveinbjörg (bakarinn mikli) er sko með lítið kríli í mallanum. Það er bara hamborgari í mallanum mínum, þess vegna er hann full útstæður!
Kv,
Elísabet

15 október, 2004 23:54  

Skrifa ummæli

<< Home