föstudagur, ágúst 27, 2004

Sænsku pappírstígrisdýrin

Í dag var geðheilsu okkar bjargað! Hér í Svíþjóð er það nefnilega þannig að þú getur ekkert gert nema að vera með sænska kennitölu. T.d. er ekki hægt að kaupa internet-áskrift, gsm-áskrift, heimasíma, stofna bankareikning osfrv og osfrv. Þegar maður sækir um kennitöluna þá tekur það 10-14 daga (var okkur sagt). Þannig að gjörsamlega sambandslaus við umheiminn þá höfum við setið gjörsamlega við póstkassann og beðið eftir kennitölunum. En þá gerðist það undarlega... síðasta þriðjudag hætti pósturinn að berast. Eftir þvílíkt flóð af auglýsingabæklingum og rusli þá kom bara þögn! Ekki neitt! Ingenting! Oft á dag kíktum við í póstkassann og hann var galtómur. Það hreinlega bergmálaði í honum. En hjá nágrönnum okkar flóði ruslpósturinn hreinlega upp úr póstkassanum. Við fengum ekki einu sinni bækling frá ICA (Hagkaup). Við skildum ekki upp né niður í þessu. Þetta gerðist á svipuðum tíma og við settum nöfnin okkar á hurðina. Ætli annaðhvort Gudjonsson eða Gretarsdottir geti þýtt "Enginn ruslpóstur" á sænsku? Jæja, nóg með það. Eftir slíkt afskiptaleysi frá póstnum þá misstum við þolinmæðina eftir kennitölunum og hringdum í þjóðskránna. Þar var okkur sagt það að það gæti tekið mánuð að fá kennitöluna og við vorum hvergi skráð í kerfinu. Við hvítnuðum í framan, gripum andköf hugsandi um mánuð í viðbót sambandslaus við umheiminn, ég stamaði í símann hvort við gætum eitthvað gert. Jú, það var nú víst. Maður átti bara að fara niður í þjóðskrá og segja þeim að flýta sér! (Eins og það myndi virka heima!). Og beina leið upp í næstu lest brunuðum við. Þegar við komum niður í Þjóðskrá þá sagði konan okkur að hún fyndi okkur hvergi í kerfinu og fór að láta okkur benda sér á hvernig pappíra við hefðum fyllt út (og í bjúrókrat-ríki eins og Svíþjóð eru nú til talsvert mikið af eyðublöðum). Eftir smástund fann hún okkur í kerfinu. Svo horfði hún grunsemdar augum á okkur og sagði " Eru þið ekki búin að fá þetta í pósti?" og það vorum við viss um að hefði ekki gerst. Þá spurði hún okkur hvort við hefðum ekki örugglega kíkt í póstkassann. (Hmmm, póstkassann, ó, já þú meinar, kannski við kíkjum þangað! Djók) Já, við vorum nokkuð viss um það. Þá spurði hún "Ahh, en eru nöfnin ykkar á póstkassanum?" (ARG!) En við brostum okkar blíðasta (með kreppta hnefa) og sögðum enn og aftur "jú,jú, þau eru það". Maður vill að sjálfsögðu ekki móðga né gera sænsku pappírstígridýrinn pirruð. Jæja, eftir nokkra slíkar misgáfaðar spurningar í viðbót fengum við útprentaðar kennitölurnar og pappíra til að sækja um sænsk skilríki. Ég ætlaði bara að fylla það út á staðnum en nei, það dugir víst ekki. Við verðum að vingast við Svía, fá hann með okkur niður á þjóðskrá (hann verður að vera með sína kennitölu, útprentaða og stimplaða, og sænsk skilríki) og við með okkar dót og svo verður þessi Svíi að ábyrgjast að við séum þau sem við erum. Svo hélt maður að sýslumaðurinn í hfj. væri slæmur!!!

Hér með auglýsum við eftir Svía með pappíra!!! Svörum bara þeim sem senda mynd af sér.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home